Frumrannsóknir á Heiðarfjalli í Langanesbyggð benda til þess að svæðið sé mjög mengað. Bandaríska herliðið rak ratsjár- og fjarskiptastöð á Heiðarfjalli á árunum 1954-1970.
Í rannsókninni mældist mikill styrkur PCB efna (polychlorinated biphenyls) á svæðinu. Styrkur mengunarinnar bendir til að hvorki sé æskilegt fyrir fólk né dýr að dvelja á svæðinu nema í stutta stund og forðast beri að neyta gróðurs og yfirborðsvatns.
Einnig fundust önnur mengandi efni á svæðinu í styrkleika sem getur haft áhrif á menn, dýr og náttúru. Meðal þessara efna eru blý, sink, úran, kvikasilfur og olíuefni.
Bandaríska herliðið rak ratsjár- og fjarskiptastöð á Heiðarfjalli á árunum 1954-1970. Ljósmyndari: Árni Geirsson.
Rannsóknin var framkvæmd af The Royal Military College of Canada árið 2017. Niðurstöðurnar birtust í skýrslu sem gefin var út árið 2019.
PCB eru þrávirk efni sem safnast upp í fituvefjum og geta haft ýmiss konar skaðleg áhrif á heilsu og umhverfi. Sum PCB efni eru þekktir krabbameinsvaldar. Meðal annarra þekktra áhrifa þess að vera útsettur fyrir efnunum til lengri tíma eru skaðleg áhrif á æxlun, þroska og mótstöðuafl gegn sjúkdómum.
Það þykir ekki æskilegt að dvelja á svæðinu. Ljósmyndari: Auður H. Jónatansdóttir.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur falið Umhverfisstofnun að hafa umsjón með undirbúningi að frekari rannsóknum á svæðinu ásamt því að upplýsa um hættuna sem er fyrir hendi.
Með tilliti til styrks mengunar á svæðinu hefur Umhverfisstofnun látið reisa skilti þar sem fólk er beðið að gæta fyllstu varúðar við ferðir um svæðið.
Umhverfisstofnun vinnur nú að undirbúningi málsins í samstarfi við ýmsa aðila, s.s. landeigendur, rannsóknaraðila, viðeigandi stofnanir og ráðuneyti.