Athugasemdir Landsvirkjunar vegna málsmeðferðarinnar sem bárust fyrst í gær eru þær að fyrirtækinu hafi ekki borist upplýsingar um afstöðu til athugasemda þess og að nauðsynlegt sé að fyrir liggi samþykki Landsvirkjunar eigi að friðlýsa á grundvelli 58. gr. náttúruverndarlaga. Sjá meðfylgjandi erindi Landsvirkjunar.
Umhverfisstofnun hefur lagt ríka áherslu á að vanda undirbúning friðlýsingarinnar og eiga gott samráð við alla hagsmunaaðila sem að málinu koma eins og sveitarfélög og Landsvirkjun. Ráðuneytið og Umhverfisstofnun telja því mikilvægt að fara yfir þær athugasemdir Landsvirkjunar sem varða tiltekna þætti í undirbúningi friðlýsingarinnar. Því hefur Umhverfisstofnun, að höfðu samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið ákveðið að fresta fyrirhugaðri undirritun á stækkuðu friðlandi Þjórsárvera þar til búið er að fara yfir framangreindar athugasemdir í samráði við hlutaðeigandi aðila.