Stök frétt

Nýr vefur namur.is var opnaður í dag miðvikudaginn 24. apríl. Þessi dagur var valinn í tilefni af degi umhverfisins sem er á sumardaginn fyrsta, þann 25. apríl. Á vefnum er fjallað um allt sem varðar efnistöku og frágang. Vefurinn er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Vegagerðarinnar og Umhverfisstofnunar, en auk þeirra tók fjöldi aðila þátt í gerð efnis fyrir vefinn.

Vefurinn er annars vegar ætlaður verktökum og öðrum þeim sem þurfa að nema efni til framkvæmda og hins vegar sveitarstjórnum og öðrum þeim sem koma að leyfisveitingum vegna efnistöku. 
Fjallað er um efnistöku á landi þ.e. landi í einkaeign, á ríkisjörðum og á þjóðlendum auk efnistöku úr sjó. Farið er yfir hvernig staðið skuli að vali, skipulagningu og frágangi námusvæða. Markmið vefsins er að stuðla að skilvirkni í þessum málaflokki og bættri umgengni við umhverfið með samræmingu vinnubragða og yfirliti á einum stað um lög og reglugerðir sem tengjast efnistöku. 

Bæði Vegagerðin og Landsvirkjun hafa umgengni í sátt við lífríki og náttúru að markmiði í umhverfisstefnu sinni og hafa átt gott samstarf við Umhverfisstofnun. Vefurinn er ein leiðanna að því markmiði. Vefurinn er byggður á leiðbeiningaritinu Námur - Efnistaka og frágangur sem var gefið út árið 2002, en ákveðið var að endurskoða allt efni ritsins og færa efni þess út á vefinn til að auðvelda uppfærslu efnis, m.a. um lög og reglugerðir sem taka örum breytingum.