Stök frétt

Samhliða fjölgun ferðamanna til landsins þarf að gera ýmsar umbætur á friðlýstum svæðum, auka landvörslu og efla fræðslu. Surtabrandsgil er friðlýst náttúruvætti sem eru undir miklu álagi vegna ágangs ferðamanna. Í gilinu er að finna leifar tegundaríkustu skóga, sem fundist hafa í jarðlögum hér á landi, í um það bil 12 milljóna ára gömlum setlögum. Fyrir milljónum ára var þar sem gilið er nú stöðuvatn sem í söfnuðust plöntuleifar. Þær finnast nú í setlögum í gilinu í formi steingervinga og er vitnisburður um gróðurfar og loftslagsaðstæður sem ríkja ekki lengur hér á landi. Gilinu og steingervingunum stafar hætta af ágangi og var því hafist handa við úrbætur á svæðinu til að sporna gegn því. Á síðasta ári var hluti af gilinu girt af til að koma í veg fyrir að gengið væri á viðkvæmum jarðmyndunum. Í sumar voru sett fræðsluskilti við bílastæðið og í gilinu og sýningakassar með sýnishornum af steingerðum plöntuleifum og surtabrandi.

Fólki er einungis heimil för um gilið í fylgd með landverði eða með leyf ábúenda á Brjánslæk eða Umhverfisstofnunar. Yfir sumartímann eru skipulagðar ferðir í gilið með landverði, en utan þess tíma þarf fólk að fá leyfi.

Tilgangurinn með aukinni fræðslu um náttúruvættið og sýnishornum af steingerðum plöntuleifum er eins og áður sagði að draga úr ágangi, og upplýsa fólk um mikilvægi þess að vernda þessar merku náttúruminjar um jarðsöguna fyrir núverandi- og komandi kynslóðir.