Stök frétt

Haldinn var borgarafundur í Vestmannaeyjum um sorpbrennslur og díoxín. Gunnlaugur Grettisson forseti bæjarstjórnar stýrði fundi. Framsögumenn voru Haraldur Briem, sóttvarnarlæknir, Þorsteinn Ólafsson, frá Matvælastofnun (MAST) og Sigríður Kristjánsdóttir, deildarstjóri hjá Umhverfisstofnun. Einnig var í pallborði Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar. Á fundinn mættu um 50 manns.

Sigríður Kristjánsdóttir, deildarstjóri hjá Umhverfisstofnun, kynnti díoxín og hvernig það myndast.  Díoxín myndast við ýmsa framleiðslu, helst sorpbrennslu en einnig í náttúrunni. Rannsóknir benda til að áhrifin séu minni í mönnum en tilraunadýrum. Sigríður fór yfirþróun díoxínlosunar á Íslandi frá 1990. Dregið hefur úr losun díoxíns hérlendis frá árinu 1990 en þá var heildarlosun díoxíns um 11 gr. en var komin niður í tæp 4 gr. árið 2008. Í heildina dró úr losun um 66% á því tímabili, þar af um 82% frá opnum brennslum. Losun díoxíns hérlendis er lítil í samanburði við önnur lönd en Finnland losar um 15 gr., Norðmenn um 20 gr. og Svíþjóð um 35 gr. á ári. Bretland losar um 200 gr. árlega. Losun díoxíns í Evrópu hefur dregist hratt saman, úr 11 kg niður í rúm 2 kg í ESB-27 frá 1990-2008. Sigríður sagði frá því að af þeim 4 gr. sem metið er að hafi verið losuð árið 2008 á Íslandi hafi 1,8 gr. komið frá áramótabrennum, 0,7 gr frá fiskiskipum og 0,6 gr. frá sorpbrennslum.

Sigríður fór yfir hvernig þau mörk sem gilda fyrir díoxín en settar voru reglur í Evrópusambandinu sem teknar voru upp hérlendis árið 2003 en veitt undanþága fyrir starfandi sorpbrennslur á þeim tíma. Fyrir nýrri brennslur eru mörk fyrir díoxín svokölluð losunarmörk fyrir útblástur en ekki umhverfismörk eða mörk fyrir heildarlosun á ári. Mörkin eru 0,1 ng/m3 í útblæstri frá sorpbrennslustöð. Heildarlosun er því háð magni, tegund sorps og loftflæði stöðvarinnar. Þannig getur það gerst að stöð sem hefur hærra útblástursgildi hafi minni heildarlosun en stöð með lægra útblástursgildi eins og raunin er t.d. hérlendis þar sem heildarlosun á Kirkjubæjarklaustri er metin lægri en í Skutulsfirði þrátt fyrir að útblástursgildið sé hærra á Kirkjubæjarklaustri.

Sorpeyðingarstöðin í Vestmannaeyjum fékk endurnýjað starfsleyfi 2004. Heimild var veitt til að taka á móti allt að 5000 tonnum af úrgangi. Starfsleyfið er veitt í samræmi við undanþágu frá reglugerð frá árinu 2003 sem gildir fyrir nýrri sorpbrennslur. Sigríður tilgreindi þau mörk sem sett voru ístarfsleyfinu fyrir sorpbrennsluna í Vestmannaeyjum og kynnti síðustu mælingar í eftirliti Umhverfisstofnunar. Mælingar sýna að sorpeyðingarstöðin hefur verið yfir mörkum í ryki í öllum mælingum frá 2007. Umhverfisstofnun hefur gert athugasemdir í eftirliti og óskað eftir hreinsibúnaði. Árið 2007 þegar díoxín var mælt að þá kom í ljós að eftirbrennari var í ólagi og voru gerðar athugasemdir við það og lagað í kjölfarið. Árið 2008 voru gerðar tilraunir með vatnshreinsibúnað sem hefur ekki skilað þeim árangri sem vonast var eftir. Þörf er á fullvirkum hreinsibúnaði að sögn Sigríðar. Ekki verið gerðar nægilegar úrbætur. Farið var fram á nýjar mælingar 2010 sem sýndu að rykmengun var enn yfir mörkum. Í kjölfar þess hefur Umhverfisstofnun sent bæjaryfirvöldum tilkynningu um áform um sviptingu starfsleyfis þar sem ekki hefur tekist, þrátt fyrir athugasemdir, kröfur um úrbætur og áminningu, að ná rykmengun undir þau mörk sem gilda. Gefst nú bæjaryfirvöldum tækifæri á að bregðast við áformum Umhverfisstofnunar.

Sigríður sagði frá því að Umhverfisstofnun hefði lagt til við ráðuneytið að eldri brennslum yrði gefinn frestur til þess að uppfylla strangari skilyrði sem gilda fyrir nýjar brennslur. Ráðherra hefur beint því til sveitastjórna að draga úr brennslu eða hætta henni. Sigríður kynnti ennfremur sýnatökuáætlun Umhverfisstofnunar um allt land í nágrenni mögulegra uppsprettna. Í Eyjum verða tekin sýni í nágrenni sorpbrennslunnar og einnig í Herjólfsdal þar sem eru haldnar eru brennur árlega. Sýnin eru tekin úr jarðvegi til þess að fá heildarmynd díoxínmengunar hérlendis og mun stofnunin taka ákvarðanir um frekari aðgerðir á grundvelli niðurstaðna úr þessum mælingum. Sigríður kynnti þýsk mörk fyrir díoxín í jarðvegi en hérlendis eru ekki í gildi reglur um magn díoxíns í jarðvegi. Ekki hefur verið ákveðið við hvaða mörk eigi að miða en þessi þýsku gildi voru kynnt til samanburðar. Plöntur taka ekki díoxín úr jarðvegi heldur sest díoxínmengað ryk á plöntur sem þannig berast í dýr sem borða plönturnar.

Haraldur gerði grein fyrir samstarfi þeirra stofnana sem héldu fundinn. Stofnuð var með lögum árið 2000 sérstök samstarfsnefnd um sóttvarnir sem hefur það hlutverk að meta stöðuna þegar upp koma mál af þessu tagi og taka ákvarðanir um aðgerðir eins og nú hefur verið gert. Nefndin hefur mjög vítt verkefnasvið og talsverðar heimildir til að grípa inn í ef heilsu fólks er ógnað. Þegar niðurstöður komu úr sýnatöku í Engidal að þá var strax farið yfir málið. Díoxín er flokkað sem hættuleg eiturefni og það byggt á því að tiltekin tilraunadýr eru mjög viðkvæm fyrir díoxíni og þess vegna hafa menn sett lág mörk hvað varðar menn og umhverfi og við eigum að halda þessu lágu. En þá vaknar spurningin, hvað eru þessi efni að gera okkur mönnunum? Það er erfitt að sýna fram á eiturefnaáhrif á menn. Áratugalangar rannsóknir á þúsundum manna hafa verið gerðar í tengslum við díoxín. Bandaríkjamenn notuðu eiturefni, Agent Orange, í Víetnamstríðinu á 7. áratug síðustu aldar og þeir sem voru að dreifa því hafa verið rannsakaðir. Vitað er að díoxín hefur áhrif á kynfæri tilraunadýra en hjá karlmönnum finnast ekki sömu áhrif, t.d. krabbamein. En ef skoðaðir eru þeir sem voru hvað lengst í dreifingu efnanna og urðu mest útsettir er nokkur aukning merkjanleg á krabbameini. Áhrif díoxínmengunar á kynfæri kvenna hefur verið skoðuð m.a. eftir mengunarslys  á Ítalíu án þess að sýnt hafi verið fram á marktæk áhrif. Konur með börn á brjósti hafa verið rannsakaðar og niðurstöður rannsóknanna eru þær að ekki er hægt að merkja nein áhrif á börnin. Eftir áhættumat á því hvort fólki í Finnlandi verði ráðlagt að borða ekki fisk úr Eystrasalti var horfið frá því vegna annarra vandamál sem gætu komið fram.  Áhrif díoxíns á fólk hefur talsvert verið skoðað á Ítalíu, sérstaklega verkamenn sem unni við iðnað sem gaf frá sér díoxín. Þar fannst aukin tíðni á krabbameini hjá þeim sem bjuggu mjög nálægt mestu menguninni, mun meiri en hérlendis, í yfir 32 ár. Haraldur sagði það magn díoxíns sem um ræðir hérlendis er mun minna en í þeim  rannsóknum sem hann vísaði til. Haraldur telur samt sem áður mikilvægt að takmarka díoxín í umhverfinu. Haraldur hefur skoðað heilsufar fólks víða um land og heilsufar á Ísafirði er nokkuð gott en í Vestmannaeyjum er ekki að sjá aukningu á sjúkdómstíðni sem gæti tengst díoxíni. Haraldur sagði frá því að ákveðið hefði verið að taka sýni úr fólki, sjálfboðaliðum, sem býr í nágrenni eldri sorpbrennsluna. Tekin verða blóðsýni til að mæla díoxín en þau sýni eru mjög dýr og þess vegna verða líka tekin hárs- og naglasýni þar sem mælt verður blý. Og hvers vegna mælum við blý? Það er vegna þess að blý mælist hátt eru líkur á því að díoxín geri það líka en blýmælingarnar eru ódýrari.

Þorsteinn Ólafsson frá Matvælastofnun (MAST) sagði að ekki væri fluttar búfjárafurðir á markað frá Vestmannaeyjum. Gerðar hafa verið athuganir á búfé í Skutulsfirði þar sem mældust hækkuð gildi í kjöti og mjólk. Einu sýnin sem voru yfir mörkum voru þar. Það voru tekin sýni á Svínafelli í mjólk þar sem ekki voru hækkuð gildi en þar er líka eldri sorpbrennsla. Aðstæður í Vestmannaeyjum séu þannig að menn geti verið rólegir hvað dýrin varðar. Hugsanlega sé eitthvað í elstu dýrum en staðsetning stöðvarinnar er þannig að það telst ólíklegt. Eftir sem áður verða tekin sýni úr kindum þó þær séu ekki að fara á almennan markað til að leita af allan vafa. Þorsteinn taldi ólíklegt að díoxín sé hátt í lundanum þar sem hann sækir fæðu sína úr sjó.

Umræður

Athugasemdir og spurningar úr sal eru aðgreindar með feitletruðum texta frá viðbrögðum og svörum framsögumanna.

Elliði Vignisson bæjarstjóri tók til máls og sagði bæjaryfirvöld taka málið alvarlega. Það sem bíði manna er að fara vandlega yfir stöðuna og að það verði gert af yfirvegun með heildarhagsuni bæði umhverfisins og bæjarbúa að leiðarljósi. Elliði spurði til hvaða ráða menn ættu að taka þegar bréf berist frá umhverfisráðherra þar sem þess er óskað að draga verulega úr sorpbrennslu eða loka? Helst langaði hann til þess að verða við því en þá þyrfti önnur lausn að vera til staðar. Í Vestmannaeyjum falli til sorp eins og annars staðar. Elliði sagði að ekki gætu menn farið aftur í að henda því í sjóinn, þá myndi Umhverfisstofnun sem betur fer láta í sér heyra. Elliði taldi það ekki kost í stöðunni að flytja sorpið með Herjólfi ekki frekar en sorp á höfuðborgarsvæðinu er flutt með strætisvögnum og ólöglegt væri að flytja það til annarra landa. Í Vestmannaeyjum er enginn urðunarstaður og þá eru kostirnir í stöðunni fáir að mati Elliða. Í litlu sveitarfélagi eru fáir sem vinna við sorpmál og því spyrja bæjaryfirvöld hvaða stofnun sinni ráðgjafarhlutverki í málinu og spurði Elliði Umhverfisstofnun hvað sé til ráða ef brennslunni verður lokað. Sem leikmanni, og þá sérstaklega eftir að hafa hlustað á sóttvarnalækni fyrr á fundinum, þyki honum staðan nú ekki þannig að nauðsynlegt sé að fara í að kaupa mjög dýra sorpbrennslustöð. Áður þurfi að fara heildstætt yfir málið.  Hvað díoxín varðar sé nauðsynlegt að skoða heildarlosun á ári af díoxíni. Elliði spurði hvort ekki væri nærtækara að fækka um eina til tvær áramótabrennu en að hætta með brennsluna. Hafa þurfi hugfast að miðað við gögn Umhverfisstofnunar sé heildarlosun Díoxíns frá öllum sorpbrennslum á landinu um 15% en áramótabrennur losi um 46%.  Elliði greindi frá því að verið væri að skoða flokkun á sorpi og að þannig megi hugsanlega draga úr brennslu um 60% og enn meir úr losun díoxíns. Hann tók það einnig fram að honum finnst það skrýtin viðmið sem unnið sé eftir ef umhvefisyfirvöld líti algerlega fram hjá heildarmengun á ári en líti einungis til þess hversu mikil mengun sé í hverjum rúmmetra sem losaður sé.  Það hlýtur hvert mannsbarn að sjá að mestu heildaráhrifin nást með því að fækka einfaldlega rúmetrunum.  Sama heildarmengun sé heimil ef bara meira af súrefni er blandð inn í - það gangi ekki.  Vildi Elliði að Vestmannaeyjabær og Eyjamenn almennt myndu setja sér það að markmiði að draga úr allri sorpmengun um 60% á einu ári.  Elliði þakkaði að endingu fyrir erindin og sagðist fara rólegri af fundinum þó svo að hann vilji alls ekki gera ekki lítið úr mengun, heldur vilji hann draga úr henni sem mest, og sagði hann að bæjaryfirvöld myndu leita samstarfs við umhverfisyfirvöld hvað það varðar.

Kristín Linda þakkaði fyrir fundinn. Varðandi sorpmálin almennt að þá hefur Umhverfisstofnun verið að vinna landsáætlun um úrgang sem var send til umsagnar. Meðal þess sem kom fram í þeim umsögnum sem bárust var að sveitarfélög óskuðu eftir frekari leiðbeiningum. En samkvæmt lögum eru sorpmál á höndum sveitarfélaganna en aðstæður sveitarfélaga mjög ólíkar og því erfitt að gefa út almennar leiðbeingar. Því var ákveðið að fara í samstarfsverkefni með Sambandi íslenskra sveitarfélaga um að gefa út upplýsingar um lausnir sem reynst hafa vel erlendis við álíka aðstæður og hérlendis. Kristín Linda minnti á að Umhverfisstofnun sé eftirlitsaðili og geti því ekki bæði ráðlagt sveitarfélögum með beinum hætti um hvaða leiðir þau geti farið en á sama tíma verið eftirlitsaðili. Mjög mikilvægt væri að auka flokkun á úrgangi. Kristín Linda sagði að ekki hefði verið tekin ákvörðun um sviptingu, fyrst sé sent bréf til sem rekstraraðila, í þessu tilfelli sveitarfélaginu sem hefur nú tækifæri til að koma sínum athugasemdum á framfæri. Bréfið snýst ekki um díoxín heldur það starfsleyfi sem er í gildi og að skilyrði þess hafi ekki verið uppfyllt. Það voru send bréf um áform um áminningu og áminning árið 2010 og er það í kjölfar þess sem áform um sviptingu voru ákveðin.

Í hverju felst vandamálið nákvæmlega? Er ólag á eftirbrennaranum, er hann bilaður eða hefur aldrei verið kveikt á honum? Ætti hann ekki að útrýma vandanum?

Eftirbrennarinn á að brenna yfir 800°C og við þær aðstæður eyðist díoxínið en eftibrennarinn hefur ekki áhrif á rykið. Það vantar nýja mælingu á díoxíni frá Vestmannaeyjum til að sjá hvort betri árangri hafi náðst. Skv. fræðunum ætti að koma betri niðurstaða með díoxínið í ljósi þess að eftirbrennarinn var bilaður þegar mælingin var gerð 2007.

Þakkað var fyrir fundinn. Sóttvarnarlæknir var spurður að því hvort hann væri sammála því að nauðsynlegt sé að draga til baka starfsleyfi sorpbrennslunnar í ljósi áhrifa á lýðheilsu?

Sóttvarnarlæknir sagðist ekki vera eftirlitsaðili heldur aðgerðaraðili og því fylgi víðtækar heimildir. Það sé erfitt að grípa til aðgerða þegar fátt bendi til þess um sé að ræða bráðahættu en auðvitað eigum við að fækka eiturefnatilfellum. Að hans mati er svigrúm til þess að gefa tíma. En oft sé það svo að ef engin pressa er sett að þá gerist ekki neitt, það verði að vera einhver leið til að þrýsta á um breytingar.

Á grunni hvers er verið að ákveða að draga starfsleyfið tilbaka, er það vegna rykmengunar og eru tillögur frá Umhverfisstofnun um hvernig megi bæta það?

Kristín Linda sagði það gert á grunni starfsleyfis og þess að rykmengun mælist ítrekað yfir mörkum. Hún sagði að Umhverfisstofnun gæti ekki á sama tíma verið eftirlitsaðili og komið með beinar tillögur að því hvernig tryggja megi skilyrði starfsleyfisins enda bjóði margir aðilar upp á þá þjónustu.

Fram kom að menn hafi lengi vitað af rykinu. Breytt viðmið hafi gert mönnum erfitt fyrir í Vestmannaeyjum hvað varðar brennsluna. Vandinn sé fólginn í því að fara úr 500-600 mg/m3 niður í 200 mg/m3 og svo aftur niður í 100 mg/m3 og ef farið verður niður í 10 mg/m3 að þá nái sorpeyðingarstöðin aldrei þeim mörkum því stöðin var ekki hönnuð til þess.

Kristín Linda sagði það þannig í umhverfislöggjöfinni að menn eru sífellt að setja strangari kröfur á fyrirtæki. Það var ástæðan fyrir því að þegar Ísland sótti um undanþágu 2003 að þá töldu menn að eldri brennslur myndu ekki ná þessum mörkum. ESB taldi sig geta sett þetta á allar brennslur í öllum löndum og þar hefur þetta verið í gildi frá 2008. Eigum við að sætta okkur við lægri umhverfisgæði en aðrir Evrópubúar? Þessi spurning kemur upp hvort hér séu sérstakar aðstæður. Öll fyrirtæki búa við að það sé verið að herða kröfurnar til þess að tryggja heilsu og umhverfisgæði.

Hefur mengun verið mæld annars staðar en í sorpeyðingarstöðvum, t.d. ryk og díoxín og önnur eiturefni? Eða er það bara í tísku í dag að mæla sorpeyðingarstöðvar?

Kristín Linda sagði það ekki í tísku heldur venjuna. Umhverfisstofnun hafi eftirlit með yfir 80 fyrirtækjum og þar séu framkvæmdar margvíslegar mælingar frá því að vera símælingar, nokkru sinnum á ári og niður í einu sinni ári. Mjög mismunandi eftir fyrirtækjum en grunnur reglnanna kemur frá Evrópu og er mjög góður. En varðandi díoxín að það sem er sérstakt við það er að einungis sorpbrennslur hafa fengið kröfur á sig varðandi losunarmörk. En það var vegna þess að frá þeim kom svo gríðarlega mikið magn, stór hluti af heildarlosun díoxíns. Mikill fjöldi sérfræðinga taldi bestu leiðina að setja kröfur á sorpbrennslur. Álverin eru með aðrar kröfur og mjög strangar kröfur að hluta til vegna íslenska ákvæðisins svokallaða (14/CP7). Heilbrigðiseftirlit hefur heimildir til að taka á svifryksmengun. Í Evrópu eru kerfi til að draga úr svifryki í borgum.

Óskað var eftir samanburði á rykmengun frá annarri starfsemi við losun frá sorpbrennslum.

Umhverfisstofnun mun taka þær upplýsingar saman og koma þeim á framfæri.

Hefur díoxín verið mælt í sambandi við Eyjafjallajökulsgosið?

Haraldur Briem sagði að það hafi ekki verið mælt, áhyggjurnar voru fremur vegna svifryks og kísilmagns í rykögnum. Rannsóknir eru í gangi á heilsufarsáhrifum gossins. Almennt má segja um öskuna að hún hafi verið fremur vinsamleg miðað við hvað lítið kísilmagn var í henni og að hún hafi verið minna ertandi í samanburði við ösku úr öðrum gosum.

Sveitarfélag ber ábyrgð á að sorpmálin séu í lagi en eftirlitsaðilinn er á vegum ríkisins. Ríkisvaldið breyti sínum viðmiðunum eftir tilskipunum. Talað var um mikilvægi samstarfs milli ríkis og sveitarfélaga í málinu. Aðgerðir sveitarfélaga lenda á almenningi hver svo sem þær verða. Kröfur komi frá ríkinu en ekkert fé. Spurt var hvort innan ESB séu menn að ná þessum viðmiðunum varðandi sorpbrennslur?

Kristín Linda tekur undir að nauðsyn þess að hafa gott samstarf. En Umhverfisstofnun hefur líka hlutverki að gegna sem stundum felst í því að senda harðorð bréf. Miklar kröfur séu gerðar til eftirlitsstofnana núna. Umhverfisstofnun hefur trú á góðu samstarfi, höfum haft gott samstarf og munum halda því áfram. Kristín Linda greindi frá því að í ESB séu eftirlitsstofnanir mismunandi en þar sé unnið að því að samræma kröfurnar, þar skipti máli að samkeppnisgrundvöllur sé sambærilegur. Oft sé talað um að suðlægari lönd séu ekki eins ströng og þau norðlægari. Umhverfisstofnun hefur kynnt sér risabrennslustöðvar sem búa til orku úr úrgangi sem hráefni og þær standast kröfunar og rúmlega það, eru tífalt undir hinum ströngu mörkum sem nú gilda og eru staðsettar inni í borgum jafnvel.

Uppsprettu díoxíns, er það aðallega við brennsluna, er það plastið, er eitthvað hægt að gera til að lækka díoxíngildi í brennslu?

Það eru kjöraðstæður fyrir myndun díoxíns við 200-400 gráður. Lífræn efni og klór saman er díoxínverksmiðja. Það skiptir miklu máli hvert hráefni og aðstæðurnar eru. Brennslusérfræðingar vilja brenna plast saman við annað til að ná miklum hita og þá myndast ekki díoxín en á móti er klór í plasti. Það skiptir máli að hafa ekki málma með í brennslu, kopar er sterkur hvati til myndunar díoxíns. Um leið og allt er flokkað sem fer í ofninn að þá dregur úr myndun mengandi efna.

Hefur díoxínmengun frá fiskimjölsverksmiðjun verið mæld?

Sigríður sagðist ekki þekkja mörkin fyrir fiskimjölsverksmiðjun en að hún muni kanna það og koma þeim upplýsingum á framfæri.

Hvernig eru Færeyingar að leysa þetta?

Í Færeyjum er sorpið brennt og menn uppfylla kröfur þar.

Spurt var um hver heildarlosun díoxíns var í Vestmannaeyjum frá brennslunni. Talað var um að rúmmetralosunin segi afskaplega lítið. Spurt var hvort það myndi duga að sleppa brennum?

Sigríður sagði að heildarlosun frá stöðinni var metin 0,34 mg. árið 2008 og er það um helmingur af heildarlosun frá sorpbrennslum hérlendis á ári. Mörkin fyrir losun díoxíns hjá nýrri sorpbrennslum eru útblástursmörk en ekki heildarmörk og því hefði það ekki áhrif á starfsleyfið að fækka brennum þótt það myndi draga úr losun mengandi efna á heildina litið.

Ef dregið er úr heildarlosun en sama gildi mælist í útblæstri hefur það áhrif á starfsleyfið?

Sigríður sagði að það breytti engu varðandi starfsleyfið. 

Gunnlaugur þakkaði framsögumönnum fyrir erindin og svörin og sleit fundi.