Fjaðrárgljúfur

Umhverfisstofnun í samstarfi við samstarfsnefnd náttúruvættisins í Fjaðrárgljúfri hefur unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir svæðið. Hluti Fjaðrárgljúfurs var friðlýstur sem náttúruvætti þann 11. maí 2024 en svæðið er um 0,15 ferkílómetrar að stærð.

Fjaðrárgljúfur er um 1,5 km á lengd og mesta dýpt um 100 m. Það er gott dæmi um virk ferli landmótunar sem hófst í lok síðustu ísaldar fyrir um 10.000 árum og er enn í gangi. Ofan við Fjaðrárgljúfur eru malarhjallar sem benda til þess að jökullón hafi myndast fyrir framan hörfandi jökul og vegna fyrirstöðu sem lá efst í núverandi gljúfri. Lónið hefur fyllst tiltölulega fljótt upp af framburði, en vatnsmiklar og aurugar jökulár áttu síðar auðvelt með að rjúfa sér farveg í undirliggjandi berggrunn úr móbergi. Innst í Fjaðrárgljúfri eru fossar og þó að Fjaðrá sé mun kraftminni en vatnsmiklu jökulárnar í lok ísaldar, þá er landmótun gljúfursins enn í gangi.

Fjaðrárgljúfur hefur mikið fræðslugildi er varðar virka landmótun, þar er gott aðgengi og er svæðið vinsæll áningarstaður ferðamanna. 

Það skiptir miklu máli svo sátt skapist um framtíð friðlýstra svæða að fá sjónarmið ólíkra aðila inn í stefnumótun fyrir svæðin, því eru öll sem hagsmuna hafa að gæta eða áhuga á málefninu hvött til að senda inn athugasemdir eða ábendingar. Bent er á að allar upplýsingar, athugasemdir, ábendingar og fylgigögn sem send eru inn verða hluti af stjórnsýslumáli og kunna að verða afhent þriðja aðila eða gerð opinber.

Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 27. júní. Nánari upplýsingar gefa Davíð Örvar Hansson davidh@ust.is eða Ragnheiður Björk Sigurðardóttir ragnheidur.sigurdardottir@umhverfisstofnun.is


Drög að stjórnunar- og verndaráætlun 

Drög að aðgerðaráætlun