Jól og áramót

Jólin eru hátíð ljóss og friðar en líka hátíð neyslunnar. 

Ofneysla er dýrkeypt fyrir umhverfið og henni fylgir stress og álag. Við eyðum miklum tíma í að vinna okkur inn laun fyrir neyslunni, og við eyðum tíma í neysluna sjálfa. Væri honum kannski betur varið í eitthvað sem raunverulega styður við velferð okkar og hamingju?

Rannsóknir sýna að þau sem leggja áherslu á samveru, gæðastundir og umhverfisvænni neysluvenjur eru ánægðari með jólin en þau sem leggja áherslu á að gefa gjafir og þiggja.  

Einfaldasta ráðið er að sleppa öllum óþarfa sem tengist jólahaldi:

  • Gjöfum sem engan langar í
  • Mat sem endar í ruslinu
  • Fötum sem verða aldrei notuð aftur 
  • Rafmagni sem fer í að halda raftækjum og ljósum í gangi sem enginn sér

Áramót

Áramótin á Íslandi eru mjög einnota hátíð. Hattarnir, skrautið, innisprengjurnar og flugeldarnir gleðja okkur í stutta stund en því miður geta umhverfisáhrifin verið langvarandi.

Heilsuspillandi litadýrð

Það sem gleður okkur við flugeldana er öll sú litadýrð sem fylgir. Litirnir eru komnir til vegna bruna mismunandi efnasambanda sem eru notuð til að búa til skotelda.

Sum þeirra efna sem notuð eru í flugelda flokkast sem þrávirk efni. Þessi efni brotna hægt niður í náttúrunni sem leiðir af sér að þau hafa mikinn hreyfanleika í umhverfinu. Þau safnast svo helst saman í dýrunum sem eru ofarlega í fæðukeðjunni, þar á meðal í mönnum.

Svifryksmengun

Svifryksmengun er einnig slæmur fylgifiskur flugeldanotkunar en ef ofangreind efni væru ekki í flugeldum þá myndi samt myndast svifryk vegna sprenginga flugelda.

Sjöfalt leyfilegt magn

Áramótin 2017-2018 reyndust þau verstu hvað varðar magn svifryks af völdum flugelda. Hæsta skammtímagild svifryks sem mældist á höfuðborgarsvæðinu var 4.500 míkrógrömm á rúmmetra (µg/m3)  en það er hæsta gildi svifryksmælinga sem hefur mælst á höfuðborgarsvæðinu frá upphafi mælinga. Heilsuverndarmörk fyrir svifryk eru 50 µg/m3 á sólarhring og var sólarhringsstyrkur svifryks allt að sjöfalt leyfilegt sólarhringsgildi á höfuðborgarsvæðinu  þessi áramót.

Áhrifa gætir fram eftir janúar

Helsti orsakavaldur þessa háa styrks (fyrir utan sjálfa flugeldanotkunina) var veðrið en það var hægviðri og áttleysa þessi áramót. Því náði svifrykið að safnast upp og svífa um andrúmsloftið í lengri tíma sem leiddi til þess að svifryksmengun var mikil alveg fram á miðjan nýársdag. Í kjölfar þessarar miklu mengunar þurftu nokkrir einstaklingar að leita sér aðstoðar á bráðamóttöku strax á nýarsnótt og lungnalæknar sáu versnun á einkennum hjá hluta sinna skjólstæðinga langt fram eftir janúar

Nokkur góð ráð

  • Drögum úr innkaupum á flugeldum og skrauti. Veljum frekar umhverfisvænni leiðir til að styrkja björgunarsveitirnar eins og kaup á rótarskotum eða með því að gerast bakvörður. 
  • Spyrjum söluaðila hvort flugeldarnir uppfylli kröfur um efnainnihald. 
  • Kaupum skraut sem við getum notað ár frá ári. Minna af einnota hlutum þýðir minna rusl og minni peningaeyðsla yfir árin. 
  • Verum hugmyndarík og notum umhverfisvænni leiðir til að fagna áramótunum.

Meira um flugelda

Orkunotkun

Á árum áður voru áberandi orkunotkunartoppar seinni part aðfangadags. Nú orðið nær jólaorkunotkunin yfir allan desembermánuð. Til þess að nýta orkuna okkar betur er gott að hafa þetta í huga:

Slökkvum ljós og stillum rétt

Slökkvum ljós í mannlausum rýmum og á vinnustöðum. Orkan sem ein hefðbundin ljósapera notar á ári dugir fyrir akstri á rafbíl milli Reykjavíkur og Akureyrar.

Munum að slökkva á jólaljósum á nóttunni. Ljósin trufla svefn manna og dýra. Næturdýr, til dæmis fuglar, mýs og sjávardýr, treysta á myrkur til að athafna sig á nóttunni.

Stillum jólaljósunum upp þannig að þau lýsi ekki langar beinar sjónlínur eins og í átt til sveita, sjávar eða upp í loft þar sem þau trufla lífríkið. Beinum ljósunum niður, í átt að götum og gangstéttum eða þar sem tré eða veggir skýla ljósinu.

Tökum úr sambandi

Tökum tölvur, sjónvörp og önnur raftæki úr sambandi þegar við förum í jólafrí, hvort sem við förum í frí frá vinnu eða förum til útlanda.

Lokum pottunum

Eldum í lokuðum potti frekar en opnum. Lokaður pottur notar ekki nema brot af þeirri orku sem opinn pottur notar.

Notum ísskápinn rétt

Ísskápurinn er orkufrekur. Kælum afganga áður en við setjum þá inn í ísskáp, til dæmis með því að setja þá út eða leggja skálar í kalt vatn. Þýðum mat í ísskápnum frekar en á eldhúsbekknum.

Stillum ofnana

Pössum að allir ofnar á heimilinu séu rétt stilltir. Yfirleitt skynja ofnar hitastigið í herberginu og við eigum ekki að þurfa að hreyfa við ofnkrananum til að hækka- eða lækka hitann í herbergi.

Höfum glugga lokaða á meðan ofnar eru í gangi, fyrir utan það að lofta út í nokkrar mínútur tvisvar á dag til að bæta loftgæði og draga úr rakamyndun. Pössum að gluggatjöld og húsgögn skýli ekki ofnum.

 

Veislumatur

Maturinn er órjúfanlegur hluti bæði aðventunnar og hátíðarhaldanna, og margar sterkar hefðir tengjast jólunum. Ofgnótt á það til að einkenna jólahald okkar, og það eykur líkurnar á matarsóun og þeim neikvæðu umhverfismálum sem henni fylgja.  

Matartegundir hafa misstórt kolefnisspor, þar sem grænmetis- og jurtafæði er betra fyrir loftslagið heldur en dýraafurðir, sérstaklega rautt kjöt sem oft fylgir jólahátíðinni. Úrval af grænkera- og grænmetishátíðarmat er stöðugt að aukast og um að gera að prófa sig áfram með nýja kosti, jafnvel til móts við kjötið.  

Hér eru nokkur góð ráð sem gætu minnkað umhverfisáhrif jólaneyslunnar:

Áætlum magn

Oft ofáætlum við magn þegar við eldum hátíðarmat, pössum okkur að kaupa ekki of mikið af mörgu, það eykur líkurnar á matarsóun.

Tökum birgðastöðu

Tökum stöðuna áður en við verslum inn, hvað er til í skápum og skúffum og hvað vantar?

Gerum innkaupahlé

Gerum innkaupahlé nokkrum vikum fyrir jól, þar sem áhersla er lögð á að borða upp úr frystinum. Það minnkar líkurnar á að matur skemmist, sparar pening og býr til pláss fyrir mögulega afganga sem falla til við jólahaldið. 

Gerum afgöngunum hátt undir höfði

Gerum ráð fyrir afgöngunum í matseðlinum milli jóla og nýárs, kaldur hátíðarmatur fer dásamlega vel á borði með síldarsalatinu, ostunum og góða brauðinu.

Samlokur og tartalettur eru klassísk leið til að setja afganga í nýjan búning.

Það gæti verið gaman að halda pálínuboð með afganga, það er svo skemmtilegt að smakka hátíðarmat hinna. 


Innpökkun

Það er um að gera að nota ímyndunaraflið þegar kemur að því að pakka inn gjöfunum. 

Hver kannast ekki við að eiga allt of mikið af innpökkunarefni inni í skáp. Í stað þess að kaupa innpökkunarefni mælum við með:

Notum það sem fellur til

Notum það sem fellur til á heimilinu eins og teikningar og málverk barna, plaköt, tímaritapappír, dagblaðapappír, nótnablöð og svo framvegis. 

Við getum líka notað einfaldan maskínupappír sem auðveldara eru að endurvinna, eða pappapokana sem eiga það til að safnast upp heima hjá okkur. Tilvalið jólaföndur er að mála á pokana með börnunum. 

Endurnýtum gjafapappír

Göngum vel frá pappírnum sem gjafirnar okkar voru í og notum aftur að ári.

Pökkum gjöf með sjálfri sér 

Setjum tvær gjafir saman í eina með því að nota sjálfa gjöfina í innpökkunina, t.d. tauinnkaupapoka, trefla, sjöl og dúka.

Endurnýtum textíl

Nytjamarkaðir eru fullir af jólatextíl, og það er um að gera að nýta hann sem fjölnota jólagjafaumbúðir. Þau sem eru flink að sauma gætu gert poka, en svo er hægt að brjóta hann fallega utan um gjöfina. Við mælum með að áhugasöm kynni sér hina japönsku furoshiki hefð, hér eru leitarvélarnar vinir ykkar.


Jólagjafir

Gott er að spyrja sig hvort viðtakandann vanti eitthvað, ef svarið já er um að gera kaupa það, en velja það umhverfisvottað, notað eða í það minnsta passa að það sé endingargott.

Gefum upplifun

Bjóðum í leikhús, á námskeið eða í ferð með útivistarfélagi.

Gefum samveru

Það er hægt að gera gagnkvæman samning um að sleppa jólagjöfum en gera eitthvað huggulegt saman í staðinn, fara út að borða eða á tónleika.

Gefum bágstöddum

Öll þekkjum við fólk sem á allt og vantar ekkert. Gefum til góðs málefnis í þeirra nafni og sendum þeim kort sem útskýrir hvernig gjöfin mun nýtast til góðs.

Gefum heimatilbúna gjöf

Hvar liggja hæfileikarnir? Í prjónaskap, sultugerð eða listum?

Gefum áskrift

Mörg kynnu vel að meta áskrift að góðri sjónvarpsrás, áskrift af hljóðbókar eða tónlistarveitu. 

Gefum notað

Munum að notaðar gjafir eru góðar gjafir, og það á ekki síst við um gjafir til barna. Börn eru ekki að hugsa um umbúðir, skilamiða eða verðmiða og um að gera að leyfa heilum leikföngum og bókum að finna ný heimili um jólin.


Skógjafir

Jólasveinarnir mega gjarnan huga að umhverfisáhrifum skógjafanna. Þrettán smágjafir úr plasti fyrir öll börn landsins skilur eftir sig talsvert kolefnisspor. Auk þess missir smádótið fljótt sjarmann.

Hér eru nokkrar hugmyndir fyrir jólasveina landsins:

  • Nytjamarkaðir geyma oft gersemar, jólaskraut eða annað sem fer vel í skó.
  • Það sem er hætt að vera vinsælt á einu heimili getur vakið mikla kátínu á öðru. Skiptimarkaðir með skógjafir á vinnustöðum geta komið sveinum vel.
  • Stundum setja sveinarnir maísbaunir í poka í skóna, með tillögu á miða um að haldið verði bíókvöld. Tilvalið fyrir jólasveinana sem koma til byggða á föstudögum.
  • Mandarínur og hundraðkallar í sparibaukinn eru sívinsæl, það er bara eitthvað öðruvísi við mandarínurnar frá jólasveinunum...
  • Suðusúkkulaðiplata með uppskrift að heitu kakói sem má hita eftir leikskóla/skóla.
  • Fræ eða rúsínur í lítilli krukku svo hægt sé að gefa fuglunum.
  • Ef að bakaðar eru piparkökur á heimilinu er góð hugmynd að jólasveinninn gefi eitt og eitt piparkökuform sem má nota í baksturinn. 

 

Jólaföt

Jólakötturinn er löngu dauður og lifnar ekki aftur við á næstunni. Íslendingar kaupa rúmlega 17 kg af vefnaðarvöru árlega, sem er um þrisvar sinnum meira en meðal-jarðarbúi!

Það er algjör óþarfi að kaupa sér sérstök jólaföt ár eftir ár, og jafnvel fleiri en einn umgang. Hér eru nokkur góð ráð um spariföt og jólafatnað:

Sérstök jólaföt

Sum eiga sérstök jóla- eða áramótaföt sem þau nota ár eftir ár. Hér er lykilatriði að vanda valið og kaupa fatnað sem hentar okkur, er tímalaus og samræmist okkar persónulega stíl.

Kaupum notað

Það er oftast lítil áþján á sparifatnaði og oft hægt að finna fatnað sem er eins og nýr á nytjamörkuðum og fataloppum.

Látum fötin ganga

Það hversu lítið sparifatnaður slitnar á sérstaklega við í tilfelli barnafata, þar sem jólafötin eru notuð örfáa daga ársins en eru yfirleitt orðin of lítil að ári liðnu. Látið spariföt ganga á milli barna og haldið skiptimarkað barnasparifata á vinnustöðum.

Sleppum óþarfa

Það hefur færst í aukana á Íslandi að öll fjölskyldan sé í samstæðum jólanáttfötum, eða að öll eignist nýja, fyndna jólapeysu á hverju ári. Þarna má beita gagnrýninni hugsun, væri hægt að sleppa þessu og minnka þannig textílsóun, eða leita á nytjamarkaði eftir jólapeysum?

 

Jólatré

Það er hægt að fara ýmsar umhverfisvænar leiðir við val á jólatré, til dæmis er hægt að skreyta pottaplöntur eða búa til tré úr einhverju sem þegar er til á heimilinu.  

Á Íslandi gildir að ef við ætlum að kaupa lifandi tré þá ætti það að vera ræktað á Íslandi og best er ef það hefur verið ræktað nálægt okkur og sé liður í grisjun skógarins.  

Hægt er að kaupa erlend tré en ókosturinn við þau er að í einhverjum tilfellum eru þau ræktuð á stórum plantekrum og notað til þess töluvert af eitri og efnum til að auka vöxt þeirra. Þessi tré þarf líka að flytja um langan veg til Íslands sem kostar eldsneyti og veldur losun gróðurhúsalofttegunda. 

Margnota tré getur verið betri kostur séu þau notuð í tugi ára, þá eru umhverfisáhrifin frá framleiðslu þeirra orðin minni en losunin frá ræktun og förgun lifandi trjáa.

Hér þarf að athuga að flest plasttréin eru framleidd í Asíu og unnin, eins og annað plast, úr olíu, framleiðslan er orkufrek og flytja þarf trén um langan veg til Íslands. Þegar trjánum er hent verður það svo að plastúrgangi sem misgott getur verið að endurvinna, ef tréð er í fyrsta lagi flokkað til endurvinnslu. 

 

Fyrirlestur um umhverfisvænni jól