Lengra svar: Hvernig menga bílar?

Mengun vegna bíla er margskonar og er gott að skoða hana út frá lífsferli þeirra. Til að framleiða bíla þarf alls konar málma og önnur efni. Gröftur eftir þessum efnum í námum getur valdið grunnvatnsmengun þar sem þungmálmar og önnur skaðleg efni komast í grunnvatnskerfi í nálægð við námurnar.

Plast er einnig mikið notað við framleiðslu á bílum og er plast yfirleitt búið til úr jarðefnaeldsneyti. Framleiðsla jarðefnaeldsneytis getur valdið mikilli losun gróðurhúsalofttegunda og annars konar loftmengun, t.d. losun svifryks. Það sama gildir svo við notkun bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti því við bruna á bensíni og dísil olíu verða til ýmsar gróðurhúsalofttegundir og svifryk sem er losað út í andrúmsloftið. Það eru aðallega þrjár gróðurhúsalofttegundir sem verða til við bruna á jarðefnaeldsneyti og eru þær koldíoxíð (CO2), metan (CH4) og glaðloft (N2O). Þessar lofttegundir hafa mis mikil gróðurhúsaáhrif en samanlögð áhrif þessara gróðurhúsalofttegunda eru táknuð sem CO2-ígildi eða CO2-íg.

Við notkun bíla, óháð því hvaða orku þeir ganga fyrir, eyðast dekk þeirra smám saman og plastagnir af þeim safnast saman á ýmsum stöðum í nágreni við vegi og rata oft út í sjó með vatni sem rennur þangað.

Þegar bílum er fargað við enda lífstíma þeirra er einnig hætta á að ákveðin mengun eigi sér stað en þó fer það eftir því hvernig þeir eru meðhöndlaðir. Stundum er þeim urðað og þá er hætta á að ýmiss konar efni leki úr þeim og berist í grunnvatn eða út í sjó en stundum eru þeir endurunnir að hluta og þá getur verið að endurvinnsluferlið valdi einhvers konar loftmengun.

Hér og hér má finna upplýsingar um lífsferilsgreiningu á bílum þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda. Slík gögn gefa ágæta mynd af því hvernig hlutfall losunar dreifist yfir lífsferil bíla (framleiðsla, notkun, förgun) og hver munurinn er milli tegunda bíla (bensín bílar, rafbílar, o.s.frv.).

Vegna þess hve fjölbreytt mengun vegna bíla getur verið er erfitt að segja til um hvernig bílamengun á Íslandi er í samanburði við önnur lönd en hér er að finna excel skjal með samanburði á losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum og bílum í nokkrum löndum árið 2021. Undir losun frá vegasamgöngum (súluritið með appelsínugulu súlunum) fellur losun vegna allra farartækja sem ferðast á vegum (fólksbílar, flutningsbílar, rútur, mótorhjól, o.s.frv.). Undir losun frá bílum (súluritið með bláu súlunum) fellur eingöngu losun vegna bíla. Á appelsínugula súluritinu má sjá að losun vegna vegasamgangna árið 2021 var u.þ.b. 2,33 tonn CO2-íg. á hvern íbúa á Íslandi sem er meira en í Noregi, Danmörk og Svíþjóð en tæplega helmingi minna en í Bandaríkjunum. Hins vegar, ef við lítum einungis á losun vegna bíla (bláa súluritið) árið 2021 var hún u.þ.b. 1,48 tonn CO2-íg. á hvern íbúa á Íslandi sem er töluvert meira en í öllum hinum löndunum sem sýnd eru á grafinu. Þetta bendir til þess að mengun í formi gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum, og þá sérstaklega bílum, sé hlutfallslega mikil á hvern íbúa á Íslandi miðað við mörg önnur lönd í heiminum.

Bílaeiga á Íslandi er einnig mjög mikill í samanburði við flest önnur lönd í heiminum eins og sést út frá gögnum Our World in Data hér. Bílaeiga segir ekki endilega til um hversu mikið Íslendingar nota bílana sína í samanburði við aðrar þjóðir en þetta er mælikvarði sem ágætt er að miða við.

Bílaeiga segir heldur ekki til um hversu mikil losun gróðurhúsalofttegunda er vegna bíla því eftir því sem hlutfall bíla sem ganga ekki fyrir jarðefnaeldsneyti eykst þá minkar losun gróðurhúsalofttegunda vegna notkun þeirra. Samkvæmt bráðabirgðatölum Umhverfisstofnunar árið 2022 var losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi vegna vegasamgangna 926 þúsund tonn CO2-ígilda sem er um 33% þeirrar losunar sem fellur undir beina ábyrgð Íslands. Hér er að finna áhugaverðar upplýsingar frá Our World in Data um losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna, en hér er þó ekki skilgreint milli vegasamgangna og annara samgangna svo sem flugvéla og skipa.

Veður hefur lítil sem engin áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda vegna bíla heldur helst slík losun aðallega í hendur við hversu miklu eldsneyti er brennt. Hins vegar getur veðurfar haft áhrif á það hversu hratt CO2 helst í andrúmsloftinu. Sæm dæmi þá veldur veðurfarið á Norðurslóðum því að CO2 leysist hraðar upp í sjónum vegna þess hve mikið hann ýfist í þeim mikla vindi sem er á þessum slóðum. Þetta er ein ástæða þess að súrnun sjávarins er hraðari hér á Norðurslóðum heldur en á suðlægari slóðum.

Ein skilvirkasta lausnin til að draga úr mengun vegna bíla er að nýta aðrar vistvænni samgöngur svo sem almenningssamgöngur, virka ferðamáta (ganga, hjóla, o.s.frv.) og örflæði (s.s. rafskútur). Einnig geta deilibílakerfi dregið úr heildarmengun vegna bíla.

Erfitt er að alhæfa um hvers vegna fólki finnst nauðsynlegt að eiga bíl eða hvers vegna fólk kýs oft frekar að nota bíl frekar en almenningssamgöngur en ýmsar ástæður geta verið fyrir því. Sem dæmi má nefna að sumum finnst ákveðin þægindi falin í því að nota bíl umfram aðra ferðamáta, stundum er bíll hraðskreiðasti fararmátinn, og stundum er nær ómögulegt að komast á leiðarenda án þess að nota bíl. Bættar almenningssamgöngur og hugarfarsbreytingar gætu að einhverju leyti vegið upp á móti ofangreindum ástæðum.

 

(Síðast uppfært: 11.10.2023)