Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Launa- og jafnlaunastefna

Umhverfisstofnun vill vera eftirsóttur vinnustaður þar sem launakjör eru svipuð eða betri en hjá sambærilegum stofnunum. 
 
Stofnunin vill að allir starfsmenn njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf, óháð kynferði. Í því skyni verður innleitt jafnlaunakerfi til að tryggja jafnrétti og jafna stöðu allra kynja á vinnustaðnum. 
 
Stofnunin hefur, í samstarfi við kjarafélög, innleitt verklag og skilgreint viðmið við ákvörðun launa þar sem hver og einn fær greitt fyrir starf sitt samkvæmt verðmæti þess óháð kyni eða öðrum ómálefnalegum ástæðum. 
 
Launaákvörðun. Laun starfsmanna eru annars vegar ákvörðuð í miðlægum kjarasamningum ríkisstarfsmanna og hins vegar í stofnanasamningum hlutaðeigandi kjarafélaga og Umhverfisstofnunar. Lögð er áhersla á að launakerfið sé sveigjanlegt og að ákvarðanir um launaröðun séu teknar með málefnalegum og gegnsæjum hætti. 
 
Stofnanasamningar. Mánaðarlaun byggja á starfs- og persónubundnum þáttum. Starfsbundnir þættir vísa í grunnröðun starfa og formlega framhaldsmenntun sem krafist er, auk sértækrar ábyrgðar í starfi, s.s. umsjón með starfsstöð eða teymisstjórn.  Grunnröðun starfs byggir á viðeigandi stofnanasamningi og starfslýsingu starfsmanns. Persónubundnir þættir eru formleg viðbótarmenntun umfram grunnröðun starfs, sérstök þekking eða færni sem nýtist í starfi, markaðs- eða eftirspurnarálag og/eða mikilvæg fagreynsla. 
 
Starfslýsingar. Starfslýsingar kveða á um umfang og eðli starfs og hvaða menntunar og hæfni það krefst. 
 
Endurmat á launaákvörðun. Samkvæmt stofnanasamningum geta starfsmenn sent mannauðsstjóra ósk um endurmat á launaröðun. Ákvarðanir um launabreytingar eru teknar af forstjóra, viðkomandi sviðsstjóra og mannauðsstjóra. Forsendur launaákvarðana eru í samræmi við launauppbyggingu hjá stofnuninni og byggja ávallt á málefnalegum sjónarmiðum. 
 
Launablöð. Hver starfsmaður fær launablað þar sem forsendur launaröðunar eru tilgreindar í samræmi við kjara- og stofnanasamninga. 
 
Vottað jafnlaunakerfi. Stofnunin hefur innleitt vottað jafnlaunakerfi sem byggir á jafnlaunastaðlinum ÍST 85 og skjalfest það. Stofnunin mun viðhalda og bæta stöðugt stjórnun þess í samræmi við kröfur staðalsins. Vottun hefur farið fram. Stofnunin framkvæmir árlega launagreiningar í samræmi við jafnlaunastaðalinn. 
 
Aðrar launagreiningar. Stofnunin gerir árlega athugun á því hvort launaröðun samræmist stofnanasamningum. Leitað verði leiða til að bera saman laun hjá Umhverfisstofnun og sambærilegum stofnunum innan sömu samninga. Niðurstöður verða kynntar starfsfólki. 
 
Óútskýrður launamunur. Stofnunin mun bregðast við óútskýrðum launamun með stöðugum umbótum og eftirliti. 
 
Innri úttektir. Árlega verða framkvæmdar innri úttektir og haldnir rýnifundir stjórnenda þar sem hlítni við viðeigandi lög, reglur og kjarasamninga er staðfest. 
 
Kynning. Launa- og jafnlaunastefna stofnunarinnar verður kynnt árlega fyrir starfsmönnum, auk þess sem hún er aðgengileg á ytri vef stofnunarinnar. 

Forstjóri ber ábyrgð á launa- og jafnlaunastefnu, innleiðingu hennar og eftirfylgni, ásamt sviðsstjórum og mannauðsstjóra. 

Gæðastjóri, í umboði yfirstjórnar, viðheldur jafnlaunastaðalnum í samræmi við gæðastaðalinn ÍST 85.

Stefnan staðfest af yfirstjórn 4. september 2023.