Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Heildarlosun Íslands jókst um tæplega 1% milli áranna 2021 og 2022. Samfélagslosun Íslands stóð í stað og losun frá landnotkun jókst um tæplega 1% milli áranna 2021 og 2022. Losun frá staðbundnum iðnaði á Íslandi, sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (e. ETS), jókst um tæplega 2% á tímabilinu. Þá jókst losun frá alþjóðasamgöngum um 88% á tímabilinu en hefur ekki náð sömu hæð og fyrir heimsfaraldur.

Á tveimur fyrstu árum Parísarsamningsins 2021 og 2022 var samfélagslosun undir árlegri losunarúthlutun Íslands skv. skuldbindingum og nettólosun vegna landnotkunar dróst saman m.v. viðmiðunartímabil. Útlit er því fyrir að Ísland muni standast skuldbindingar sínar um samdrátt í samfélgslosun og nettólosun vegna landnotkunar á árunum 2021 og 2022. Þetta sýna gögn sem eru unnin upp úr landsskýrslu Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda sem nýlega var skilað til Evrópusambandsins (ESB).

gagnvirk vefsamantekt um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi hefur verið gefin út á heimasíðu Umhverfisstofnunar þar sem er að finna helstu upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi ásamt umfjöllun um skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.

 
 

Samfélagslosun Íslands

Samfélagslosun Íslands árið 2022 var 2,8 milljón tonn CO2-íg sem er 1,3% undir árlegri losunarúthlutun Íslands skv. skuldbindingum. Losunin stóð í stað milli áranna 2021 og 2022 en hefur dregist saman um 11% frá árinu 2005. Umfangsmestu losunarflokkarnir undir samfélagslosun Íslands eru vegasamgöngur (33%), landbúnaður (22%) og fiskiskip (17%). Saman telja þeir 72% af samfélagslosun Íslands.
Hlutdeild Íslands, samkvæmt bráðabirgðaútreikningum, í sameiginlegu markmiði ESB, Íslands og Noregs um 55% samdrátt verður að draga úr samfélagslosun um 41% árið 2030 miðað við árið 2005. Þó stendur í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að Ísland muni setja sér sjálfstætt markmið fyrir samfélagslosun um 55% samdrátt árið 2030 miðað við losun ársins 2005 (sjá mynd 3). Nánari umfjöllun um alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og uppfærslu þeirra í tengslum við sameiginleg markmið ESB, Íslands og Noregs er að finna í kafla 2 í samantekt um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

 
Losunarflokkur Breyting Þús. tonn
CO2-íg.
% Skýring
Fiskimjölsverksmiðjur Aukning +57 463 Skerðing á raforku
Vegasamgöngur Aukning +66 8 Aukin eldsneytiskaup
Jarðvarmavirkjanir Aukning +11 6 Náttúrulegur breytileiki
Landbúnaður Samdráttur -16 3 Fækkun sauðfjár
Fiskiskip Samdráttur -88 15 Minni eldsneytiskaup hérlendis
Kælimiðlar Samdráttur -29 18 Útfösun eldri kælimiðla
 

Losun vegna landnotkunar

Losun vegna landnotkunar á Íslandi var 7,8 milljón tonn CO2-íg. árið 2022 og er það um 1% aukning frá árinu 2021. Stærstu uppsprettur losunar vegna landnotkunar eru mólendi (77%), ræktað land (19%) og votlendi (11%). Meirihluti losunar frá landnotkun stafar af framræstu votlendi og er sú losun talin fram bæði undir mólendi og ræktuðu landi eftir aðstæðum. Árið 2022 nam binding skóglendis um 505 þúsund tonnum CO2-íg. og hefur bindingin 17-faldast frá árinu 1990.

 

 

Losun innan viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir (ETS): staðbundinn iðnaður

Árið 2022 var losun frá staðbundnum iðnaði á Íslandi sem fellur undir ETS-kerfið 1,9 milljón tonn CO2-íg. Losunin jókst um tæplega 2% milli áranna 2021 og 2022 og hefur aukist um 120% frá árinu 2005. Þessa 2% aukningu má að mestu leyti rekja til losunar vegna aukinnar kísilmálmframleiðslu en sú losun jókst um tæplega 9% milli 2021 og 2022.

Losunarflokkur Breyting Þús. tonn
CO2-íg.
% Skýring
Kísilmálmur Aukning +41 9 Framleiðsluaukning
 

Losun vegna alþjóðasamgangna

Losun vegna alþjóðasamgangna jókst um 88% milli áranna 2021 og 2022 eftir að öllum takmörkunum var aflétt vegna heimsfaraldurs. Þó hefur losun frá alþjóðasamgöngum í heild ekki náð sömu hæð og fyrir heimsfaraldur. Losunin nam rúmlega 1,0 milljón tonna CO2-íg. árið 2022 á meðan hún var rúmlega 1,5 milljón tonn CO2-íg. árið 2018.

Losunarflokkur Breyting Þús. tonn
CO2-íg.
% Skýring
Alþjóðaflug Aukning +321 77 Aukning ferðamanna
Alþjóðasiglingar Aukning +159 124 Auknar siglingar