Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Undanfarin áramót hefur mengun frá flugeldum fengið nokkra athygli og umfjöllun. Milli jóla og nýárs fyrir síðustu áramót þegar starfsmenn Umhverfisstofnunar sáu veðurspána fyrir áramótin varð ljóst að ef spáin gengi eftir mætti búast við talsvert mikilli loftmengun.  Strax á fyrsta vinnudegi milli jóla og nýárs var farið í að undirbúa frekar mælingar á loftmengun um áramótin, umfram þær mælingar sem eru í gangi alla daga ársins. Umhverfisstofnun á svifrykssafnara sem er sérhannaður til að taka ryksýni til efnagreininga og hefur sá safnari verið staðsettur á mælistöð Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis á Norðurhellu í Hafnarfirði. Umhverfisstofnun óskaði eftir því við Nýsköpunarmiðstöð Íslands að undirbúa síur og sjá um sýnatöku á þessari mælistöð um áramótin. Veðurspáin gekk eftir og metgildi mældust á mælistöðinni við Dalsmára þar sem hæsta  tíu mínútna meðaltal fór í 4.500 µg/m3.

Eftir vel heppnaða sýnatöku með svifrykssafnara Umhverfisstofnunar komu starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar, sem hafa áratuga reynslu af ýmisskonar umhverfismælingum, fram með þá hugmynd að það mætti reyna að gera efnagreiningar á filterborðum í sjálfvirkum loftgæðamælistöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Þótt þeir séu ekki hannaðir til að safna sýnum til efnagreiningar var mengunin það mikil að reynandi þótti að taka sýni af þeim líka. Alls voru því efnagreind sýni frá sjö mælistöðvum á höfuðborgarsvæðinu um áramótin og er gerð grein fyrir þeim niðurstöðum í skýrslu hér neðst í fréttinni.

Skýrslan sýnir greinilega hækkun á mörgum efnum og sker nýársdagur sig úr á öllum mælistöðvum, mismikið þó eftir stöðvum og efnum. Þótt svifrykið sjálft sé eini mæliþátturinn sem er yfir heilsuverndarmörkum varð mikil hækkun á mörgum efnum. Ljóst er að svifrykið um áramótin síðustu var mun verra fyrir heilsu fólks en t.d. göturyk sem oft er vandamál á höfuðborgarsvæðinu.  Áramótasvifryk er mun fínna, það er málmríkt, kolefnisríkt, brennisteinsríkt og klórríkt og í því mælast efni eins og bensó(a)pyren.

Sjá skýrslu hér