Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Vegir, slóðar og vetrarakstur

Á Íslandi er stórt og mikið vegakerfi, sem samanlagt teygir sig tugþúsundi kílómetra um landið. Það er hinsvegar ekki alltaf ljóst hvar má keyra og hvar ekki. Sumir vegir eru með takmarkaða umferð (t.d. fyrir smalamennsku eða þjónustuvegir), á meðan aðrir eru aflagðir slóðar og óheimilt að aka þá. Samkvæmt náttúruverndarlögum er Vegagerðinni gert að halda skrá í stafrænum kortagrunni yfir vegi í náttúru landsins þar sem umferð er heimil.

Til vega teljast þjóðvegir, sveitarfélagsvegir og einkavegir og eru þeir skilgreindir í vegalögum. Er það hlutverk sveitarfélaga að skrá vegi í aðalskipulag sitt, sem síðan rata í vegaskránna. Hvort vegir rati í vegaskrá og akstur á þeim heimilaður ræðst af því hvort akstur á þeim sé líklegur til að raska viðkvæmum gróðri, valda jarðvegsrofi, hafa neikvæð áhrif á landslag, víðerni og ásýnd lands eða hafa að öðru leyti í för með sér náttúruspjöll. Einnig er horft til þess hvort um greinilegan og varanlegan veg sé að ræða, hvort löng hefð sé fyrir akstri á honum og hvort umferð á tilteknum vegi skuli takmarka við ákveðnar gerðir ökutækja, viss tímabil, náttúrufarslegar aðstæður eða við akstur vegna ákveðinna starfa.

Vetrarakstur og akstur á snjó

Heimilt er að keyra utan vega á jöklum eða snævi þakktri jörð, svo framarlega sem augljóst er að umferð valdi ekki náttúruspjöllum. Snjóþekjan þarf því að vera traust. Ákveðin svæði eru þó undanskilin þessu og er vetrarakstur þar óheimill í náttúruverndarskyni. Vetrarakstur vélknúinna ökutækja er óheimill á eftirfarandi svæðum:

  • Á votlendissvæðum í Þjórsárverum
  • Á afmörkuðum svæðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs (sjá upplýsingar hér)
  • Friðlandinu á Hornströndum