Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Hraunfossar, Borgarbyggð

Hraunfossar, mynd: Jóhannes Birgir Jensson

 

Hraunfossar og Barnafoss

Hraunfossar og Barnafoss voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1987. Hraunfossar eru fagrir lindarfossar sem falla undan Hallmundarhrauni niður í Hvítá. Barnafoss er skammt ofan við Hraunfossa í stórbrotnu umhverfi. Fossinn er þekktur fyrir brýr og steinboga sem áin hefur markað í bergið.

Stærð náttúruvættisins er 36,1 ha.

Sjáðu þrívíddarkort af svæðinu.

Aðgengi

Hraunfossar og Barnafoss er í uppsveitum Borgarfjarðar í Hálsasveit. Um 45 mínúta akstur er úr Borgarnesi fram að Hraunfossum og Barnafoss. Hraunfossar og Barnafoss er einn af vinsælustu áningarstöðum á Vesturlandi.

Göngustígar um svæðið eru fínir og vel afmarkaðir og útsýnisstaðir vel skilgreindir. Á Hraunfossum og Barnafoss er ágætis aðgengi fyrir hjólastóla á hluta svæðisins. Salerni eru á svæðinu og gott upplýsingaskilti um helstu staði í nágrenni. Svæðið er aðgengilegt allt árið og með heilsárslandvörslu. Umhverfisstofnun hefur umsjón með svæðinu.

Umgengisreglur

  • Mannvirkjagerð og jarðrask, svo og aðrar breytingar á svæðinu eru háðar leyfi Umhverfisstofnunar.
  • Umferð um friðlýsta svæðið er öllum heimil, enda sé góðrar umgengni gætt.
  • Akstur utan vega og merktra ökuslóða er óheimill.
  • Óheimilt er að skerða gróður, trufla dýralíf eða raska jarðmyndunum.

Öllum er heimil för um svæðið. Göngum vel um og berum virðingu fyrir náttúrunni og öðrum gestum.

Um náttúruvættið

Fyrir utan fossana þá er mikil náttúrufegurð, hraun, birkikjarr og svo auðvitað Hvítáin sjálf. Hvítá er síbreytileg, litur árinnar breytist í takt við veðurfar s.s úrkomu og hitastig. Hvítá fer allt í það að vera nánast eins og tær bergvatnsá í að vera beljandi jökulá. Umhverfið er jafnframt síbreytilegt eftir árstíðum og má líkja því við að svæðið skipti um föt sumar, vetur, vor og haust. Við Barnafoss má sjá steinboga og ummerki um flóð s.s skessukatla. Ofan af göngubrú má sjá hvernig Hvítá rennur í gegnum þrengingar í einum meginál. Þar sést líka vel hvernig ný og gömul jarðlög mætast.