Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Skerjafjörður, Garðabæ

Skerjafjörður innan bæjarmarka Garðabæjar var friðlýst sem búsvæði árið 2009. Markmið með friðlýsingunni er að vernda lífríki á strönd, í fjöru og grunnsævi Skerjafjarðar. Einnig er markmið með friðlýsingunni að vernda útivistar- og fræðslugildi svæðisins sem felst í auðugu lífríki og möguleikum til útivistar við ströndina.

Skerja­fjarðar­svæðið er undirstaða afar fjölbreytts fuglalífs allan ársins hring og er svæðið mikil­vægur viðkomustaður farfugla og fargesta sem hér hafa  viðdvöl á leið sinni til og frá norðlægum varp­slóðum. Fjörur og leirur svæðisins eru lífríkar, þar eru miklar þangfjörur og grunnsævi er með auðugu botndýralífi. Skerjafjarðarsvæðið í heild sinni hefur alþjóðlegt verndargildi vegna fuglategunda, svo sem rauðbrystings og margæsar og einnig er svæðið mikilvægt vegna marhálms, en plantan hefur takmarkaða útbreiðslu hér á landi og er ein aðalfæðutegund margæsar. Fræðslugildi svæðisins er hátt með tilliti til lífríkis og aðgengi að svæðinu er gott, en strandlengjan er vinsæl til útivistar og fjörðurinn til skemmtisiglinga.

Við ákvörðun um friðlýsinguna var höfð hliðsjón af samningnum um vernd villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu (Bern 1979) sbr. Stjórnartíðindi C 17/1993, samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Ríó de Janeró 1992) sbr. Stjórnartíðindi C 3/1995 og samþykkt um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf (Ramsar 1971) sbr. Stjórnartíðindi C 1/1978.

Stærð búsvæðisins er 427,5 ha.

Myndin sýnir margæs.