Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Menning og saga

Margir hafa í gegnum tíðina haft áhuga á að beisla afl Gullfoss og lá nærri þegar erlent félag eignaðist fossinn. Sigríður í Brattholti barðist fyrir verndun Gullfoss og hafði sigur að lokum. Hennar er minnst af náttúruunnendum fyrir afrekið.

Kaflarnir hér að neðan segja frá lífi og verkum Sígriðar í Brattholti.

Sigríður Tómasdóttir í Brattholti

Sigríður var fædd í Brattholti 24. febrúar 1871 og bjó þar alla sína ævi. Brattholt var afskekkt, þangað komu helst ferðalangar á leið að Gullfossi. Sigríður og systur hennar fylgdu oft gestum að Gullfossi og þær lögðu fyrsta stíginn niður að fossinum. Viðhorf fólks, sem oft hafði gert sér langa ferð til að skoða Gullfoss og njóta hans, hljóta að hafa haft áhrif á Sigríði. Sigríður fór ekki í skóla en var vel lesin. Hún gekk að öllum verkum bæði úti og inni. Sigríður var listræn, góður teiknari, mikil hannyrðakona og teiknaði og saumaði myndir af blómum og dýrum. Sigríður fór oft í löng ferðalög, bæði í smalamennsku til fjalla og í kaupstaðarferðir, ýmist gangandi eða á hestum.

Sigríður lést í Hafnarfirði árið 1957 hátt á 87. aldursári og var jarðsett í Haukadal.

Sigríðar er fyrst og fremst minnst fyrir afskipti af málefnum Gullfoss. Henni var reistur minnisvarði við fossinn árið 1978.


Baráttan um fossinn

Um aldamótin 1900 fóru menn að sækjast eftir yfirráðum fallvatna hérlendis til raforkuframleiðslu og iðnaðar, oft í umboði erlendra fyrirtækja.

Snemma árs 1907 falaðist Englendingur nokkur eftir Gullfossi. Hann bauð 50.000 krónur. Það jafngilti fimmtíuföldu brunabótamati hússins í Brattholti.

„Ég sel ekki vin minn.“ sagði Tómas í Brattholti, faðir Sigríðar. Haustið 1907 voru samþykkt lög um að einungis menn og félög með heimili á Íslandi gætu eignast fossa landsins nema til kæmu sérstök leyfi og skilyrði. Lögin urðu til þess að menn uggðu lítt að sér en fossabröskurum tókst að komast yfir marga stærstu fossa og mestu fallvötn landsins þrátt fyrir lögin. Þegar Gullfoss féll í hendur manna sem voru umboðsmenn erlendra aðila reis Sigríður, bóndadóttirin í Brattholti, öndverð gegn nokkrum ríkustu og voldugustu mönnum landsins til að fá samninginn um Gullfoss ógiltan.

Sigríður lagði oft nótt við dag til að fylgja máli sínu eftir. Hún fór í langferðir yfir fjallvegi og óð stórár hvenær árs sem var og í Reykjavík gekk hún á milli embættismanna. Allt kom fyrir ekki. Dómur féll Brattholtsfjölskyldunni í óhag.

Árið 1928 hætti leigan fyrir fossinn að berast og gekk þá leigusamningurinn til baka.

Sveinn Björnsson, forseti Íslands 1944-1952: 

„Nú hófst barátta Sigríðar um að varðveita Gullfoss, og leitaði hún nú til mín sem lögfræðings. Vildi hún reyna að fá ónýtta samninga þá, er faðir hennar hafði gert eða kaupa réttindin til baka. Þegar engar tilraunir í þessa átt tókust, tók hún þann kost að fá föður sinn til þess að neita að taka við árlegu gjaldi fyrir leigu á fossinum. En allt kom fyrir ekki, árgjaldið var boðið fram á löglegan hátt. Þá hótaði hún því, að við fyrstu skóflustunguna, sem gerð yrði til virkjunar, mundi hún kasta sér í fossinn og sjá svo, hvort mönnum þætti gæfulegt að halda áfram.

En þessu lauk öllu á annan veg. Erlendu mennirnir, sem náð höfðu leiguréttinum á Gullfossi, misstu smátt og smátt áhuga á vatnsvirkjun hér á landi. Þar kom, að árgjöldin hættu að greiðast. Lauk því svo, að leigusamningurinn féll úr gildi. Nú hefir ríkissjóður eignast Gullfoss, að því er mér skilst í því skyni að varðveita hann, eins og hann er, sem fagurt náttúrufyrirbrigði. Og sennilega mun okkur Íslendingum aldrei fara svo aftur, að almenningsálitið rísi ekki upp á móti því, að farið verði að hrófla við Gullfossi af manna höndum svo eindregið, að ekki þyki fært. Mun þá barátta Sigríðar í Brattholti ekki hafa verið alveg til ónýtis, og hún á það skilið, að hennar sé jafnan minnst fyrir landvörn sína.“

Einar Guðmundsson í Brattholti

Einar var fæddur 4. nóvember 1904 og var tekinn í fóstur í Brattholti ungur drengur. Einar keypti Brattholt af Sigríði Tómasdóttur árið 1939. Íslenska ríkið keypti Gullfoss af Einari og eigendum austan árinnar árið 1945. Einar gaf ríkissjóði landið næst Hvítá og Gullfossi árið 1974.

Einar skrifaði Náttúruverndarráði:

Náttúruverndarráð!

Samkvæmt Náttúruminjaskrá er friðlýsing Gullfoss og umhverfis hans í undirbúningi. Í sambandi við þetta vil ég eigandi að jörðinni Brattholti, sem land á næst Gullfossi taka fram eftirfarandi: Ég er reiðubúinn að afhenda til friðunar af landi mínu með Hvítá svo mikið, sem ráðið telur æskilegt að friðlýst sé og samkomulag verður um.

Ef Náttúruverndarráð vill sinna þessu óska ég eftir svari, sem fyrst.

Virðingarfyllst,

Brattholti 15.10. 1975

Einar Guðmundsson

Einar afhenti Náttúruverndarráði hluta Brattholts, 11. desember 1976 án annarra kvaða en að landið yrði girt fyrir árslok 1977, og að það yrði einlega notað í samræmi við anda náttúruverndarlaga. Menntamálaráðherra undirritaði auglýsingu um friðland við Gullfoss 9. mars 1979.

Einar lést 27. september 1985.

Í þúsundir ára hefur vatn runnið þessa farvegi, glatt Sigríði í Brattholti með fegurð sinni og mikilleik, ógnað ferðamönnum, fátækum sem ríkum, vætt fætur Ragnheiðar Brynjólfsdóttur, drekkt Jóni Gerrekssyni, Skálholtsbiskupi, hulið dularfullar ókindur.

,,Því er nú mjög á lofti haldið, og vissulega með veigamiklum rökum, að í fossum landsins búi nokkuð af framtíð okkar þjóðar, er byggist á þeim verðmætum, sem mæld eru í kílówattstundum. En þar við liggur einnig brot af framtíðarhamingju þjóðarinnar, að hún gleymi því ekki, að í fossum landsins búa einnig verðmæti, sem ekki verða metin til fjár, en mælast í unaðsstundum.”

Úr fjölriti nr. 2. Fossar á Íslandi, (1978)

(Stjórnunar- og verndaráætlun) Blómleg byggð var áður á austurbakka Gullfoss og eru til skrár um sjö bæi sem farnir eru í eyði en voru á svæði sem kallaðist einu nafni Hvítárhvammar. Hafa Heklugos og uppblástur líklega átt sinn þátt í að byggð lagðist að mestu af ofan Gullfoss.

Menningarminjar eru innan friðlands. Er aðallega um að ræða vegi (Kjalveg), hlaðna grjótgarða og fjárhús. Eru flestar þessara minja við Hvítárgljúfur, nálægt Brattholti.