Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Fólkvangur í Glerárdal

Hluti Glerárdals var friðlýstur sem fólkvangur þann 6. júní 2016. Glerárdalur ber þess merki að vera mótaður af jöklum og eru þar fjölbreyttar berggerðir. Auk þess má þar finna steingerðar plöntuleifar, surtarbrand og kísilrunninn trjávið.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda Glerárdal og aðliggjandi fjalllendi til útivistar fyrir almenning, náttúruskoðunar og fræðslu. Friðlýsingin verndar auk þess land sem er að mestu ósnortið með fjölbreyttum jarðmyndunum og gróðurfari, og er þannig stuðlað að varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni og breytileika jarðmyndana.

Fólkvangur í Glerárdal er 74,4 km2 að stærð.

Fólkvangar eru svæði sem eru friðlýst af frumkvæði sveitarfélaga. Megin markmiðið með friðlýsingu fólkvanga er að vernda landsvæði til útivistar og almenningsnota og skal verndunin taka mið af því að auðvelda almenningi aðgang að náttúru og tengdum menningarminjum í nánd við þéttbýli til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu.

Gönguleiðir, kort og skilti

Náttúru- og menningarminjar

Jarðminjar

Glerárdalur er mótaður af jöklum á löngum tíma og grafinn í berggrunn frá jarðsögutímabilinu míósen. Berggrunnurinn einkennist af um 10 milljón ára gömlum basalthraunlögum en nálægð við forna megineldstöð veldur því að berggerðirnar eru fjölbreyttar, einkum ofarlega í dalnum. Má þar nefna súrt og basískt gosberg, súrt djúpberg og fjölda bergganga. Steingerðar plöntuleifar finnast á svæðinu, surtarbrandur og kísilrunninn trjáviður. Berggrunnurinn er einkum aðgengilegur með árfarvegum og í fjallahlíðum en hann er að stórum hluta hulinn jökulruðningi frá ísaldarlokum. Hlíðar dalsins eru jafnframt skriðuorpnar. Efst í dalnum er urðarjökull, Lambajökull, sem ásamt fleiri smájöklum prýða landslagið.

Gróður og dýralíf

Gróðurfar í Glerárdal er nokkuð fjölbreytt, bæði hvað varðar tegundir og gróðurlendi og setja mólendi og votlendi svip sinn á dalinn.

Ríflega helmingur dalsins telst vera gróinn, þ.e. með meira en 10% gróðurþekju. Innst í dalnum er moslendi ríkjandi ásamt starmóa næst ánni. Moslendi er einnig áberandi ofarlega í hlíðum neðan mela og skriða. Neðar og um miðbik dalsins eru lyngmóar ríkjandi og votlendi fer vaxandi. Utar í dalnum er votlendi ríkjandi, einkum mýrlendi. Miklir flóar eru í sunnanverðum dalnum í Súlumýrum. Sjá nánar í skýrslu Náttúrufræðistofnunar.

Ofan við 1.000 m hæð yfir sjó hafa fundist um 87 tegundir háplantna við Glerárdal og telst það mikil fjölbreytni í háfjallagróðri.

Fuglalíf er nokkuð fjölbreytt í Glerárdal. Árið 2012 var gerð könnun á fuglalífi á svæðinu og sáust þá 21 tegund fugla. Þúfutittlingur reyndist vera algengasti varpfuglinn, en þar á eftir spói, heiðlóa og tjaldur. Athygli vakti að í Glerárdal verptu 38 heiðagæsapör sem þykir óvenjulegt svo nærri sjó. Ein tegund á válista sást í könnuninni, straumönd, en ekki var hægt að staðfesta varp (Arnór Þórir Sigfússon, 2012. Fuglar á Glerárdal, Greinargerð, VERKÍS, verknúmer 12123001. Unnið fyrir Fallorku).

Gagnlegar upplýsingar

Fólkvangurinn er í Glerárdal, ofan Akureyrar. Áningarstaðir eru á tveimur stöðum, annars vegar við Hlíðarfjallsveg og hins vegar við friðlandsmörk sunnan Glerár. Fjölmargar gönguleiðir eru um fólkvanginn sem sjá má á korti.

Umgengnisreglur

  • Óheimilt er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega innan marka fólkvangsins. Þó er heimilt að aka vélknúnum ökutækjum á snævi þakinni og frosinni jörð svo fremi sem ekki skapist hætta á náttúruspjöllum.
  • Ferðir á hestum um fólkvanginn eru leyfðar á stikuðum leiðum. Heimilt er að nota hross við smölun, en óheimilt er að fara með hrossarekstra um fólkvanginn.
  • Umferð loftfara sem truflað gæti gesti og dýralíf er óheimil nema með leyfi Umhverfisstofnunar (hefðbundið að- og brottflug frá flugvelli, leitar- og björgunarflug undanskilið).
  • Óheimilt er að spilla gróðri og trufla dýralíf.
  • Ekki má sleppa framandi lífverum innan fólkvangsins, þar með talið að rækta framandi plöntutegundir.
  • Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir.
  • Allar framkvæmdir, þar með talið mannvirkjagerð og aðrar breytingar á landi, eru háðar leyfi Akureyrarkaupstaðar og Umhverfisstofnunar.
  • Sauðfjárbeit er heimil innan fólkvangsins.
  • Losun jarðefna, sorps og úrgangs er óheimil innan fólkvangsins.
  • Meðferð skotvopna er óheimil innan fólkvangsins að því undanskildu að heimilt er að veiða rjúpu í samræmi við reglur sem settar eru þar um.

Rannsóknir og skýrslur