Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Helgustaðanáma

Helgustaðanáma er gömul silfurbergsnáma í landi Helgustaða í Fjarðabyggð sem var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Helgustaðanáma er ein frægasta silfurbergsnáma í heimi en þar var silfurberg grafið úr jörðu frá því á 17. öld og fram á fyrri hluta 20. aldar. Enskt heiti silfurbergs er Iceland spar og er náttúrufyrirbærið kennt við Ísland á fjölmörgum tungumálum. 

Úr Helgustaðanámu kemur mest af því silfurbergi sem er að finna á söfnum víða um heim en einhver stærstu og tærustu eintök silfurbergs í heiminum hafa fundist í námunni. Silfurberg er sérlega tærir kristallar af steindinni kalsít en bergið gegndi veigamiklu hlutverki í þróun margvíslegra rannsókna á eiginleikum ljóss. Þær rannsóknir leiddu til mikilvægra uppgötvana á sviði eðlis-, efna- og jarðfræði á 19. og 20. öld. Mikið hefur verið um brottnám silfurbergs úr námunni á síðustu árum en silfurbergið er friðlýst og er stranglega bannað að nema það brott.