Þjónusta vistkerfa

Manneskjan nýtir sér ýmiss konar þjónustu sem vistkerfi náttúrunnar veita, svo sem náttúruauðlindir og ýmis náttúruleg ferli. Þessi svokallaða þjónusta vistkerfa er mikilvæg og ómissandi enda byggist afkoma okkar á náttúruauðlindunum. Flokka má þjónustu vistkerfa í fjóra flokka: vörur, stýriþjónustu, stuðningsþjónustu og menningartengda þjónustu. Vörur eru m.a. nauðsynlegar lífrænar og ólífrænar náttúruauðlindir, allt frá mat, hreinu lofti og vatni yfir í eldsneyti og byggingarefni. Menningartengd þjónusta felur m.a. í sér tækifæri til útivistar og aðlaðandi eiginleika náttúrulegs umhverfis. Flóknari stýri- og stuðningsþjónusta felur m.a. í sér frævun nytjaplantna og annarra plantna, hringrás næringarefna og flóðavarnir sem votlendi býður upp á. Öll slík þjónusta skiptir miklu máli fyrir matvælaframleiðslu og varðveislu náttúrulegs umhverfis. Virk vistkerfi viðhalda einnig mikilvægum hringrásum næringarefna og framleiðni jarðvegar.

Þjónusta vistkerfa er aðgengileg án endurgjalds í peningum. Í meginatriðum á hún að vera í allra þágu, en þegar betur er að gáð skiptist ávinningurinn af henni ekki jafnt á milli fólks í mismunandi heimshlutum. Þjónustan er einnig viðkvæm, umfang hennar er takmarkað og háð athöfnum okkar. Ef við mengum til dæmis vatnið höfum við ekki lengur hreint vatn til ráðstöfunar og ef við þurrausum jarðveg fyrir ræktað land getum við ekki lengur ræktað matjurtir. Ef við eyðum búsvæðum frævandi skordýra minnkar matarforði okkar sjálfra þar sem slíkt bitnar á nytjaplöntum. Stærsta verkefnið sem við eigum nú fyrir höndum er að upplýsa fólk betur um mikilvægi þjónustu vistkerfa með því að benda á hvað gerist ef hún verður ekki lengur fyrir hendi eða verður fyrir umtalsverðum skakkaföllum. Framtíð skordýrafrævunar er þýðingarmikið dæmi um þetta.

Upplýsingablað um þjónustu vistkerfa