Umhverfisstofnun var lögð niður 31. desember 2024. Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi.

Fuglar

Meðalhitastig jarðarinnar hækkaði um 0,74°C á tímabilinu 1906–2005. Meðalhlýnunin var meiri á norðlægum breiddargráðum og greinilegri á landi en í sjó. Vorið kemur fyrr á mörgum svæðum auk þess sem jurta- og dýrategundir eru smám saman að færa sig norður á bóginn og líka upp á við í fjalllendi. Slík áhrif koma oft fljótt fram meðal fugla. Þar sem fuglar eru einnig rannsakaðir víða gerir þetta þá að góðum umhverfisvísum fyrir hlýnandi veðurfar.

Rannsókn unnin fyrir loftslagsatlas yfir evrópska varpfugla sem nýlega kom út gefur til kynna að í lok aldarinnar gætu fuglasvæði hafa færst um u.þ.b. 550 km norðaustur á bóginn og þeim gæti hafa fækkað um fimmtung. Tegundir verða að aðlaga sig, færa sig á ný svæði eða hverfa. Flutningsfjarlægðir gætu vel styst og margir fuglar munu halda sig lengur á varpsvæðum sínum. Fleiri fuglar munu eyða vetrinum á norðlægum svæðum og sumir núverandi farfuglar gætu orðið staðfuglar eða staðfuglar að hluta og gætu um leið brugðist fljótt við breytingum á veðurskilyrðum og framboði á fæðu. Grænfinkum (Carduelis chloris, sjá mynd) sem eyða vetrinum í Finnlandi hefur til dæmis fjölgað um leið og þeim sem flytja sig til vetursetu í Þýskalandi hefur fækkað í samræmi við það. 

Samkvæmt loftslagslíkönum gætu nokkrar fuglategundir með tímanum horfið með öllu af Norðurlöndunum. Gert er ráð fyrir að yfir 20 tegundir hverfi af Finnlandi – um tíundi hluti allra varptegunda – auk þess sem margar tegundir sem nú verpa á landinu öllu kunni þegar fram líða stundir að verpa eingöngu í Norður-Finnlandi. Í Danmörku er gert ráð fyrir að um 35–40 tegundir hverfi á næstu 80 árum, en gert er ráð fyrir að svipaður fjöldi nýrra tegunda flytjist til Danmerkur. Þau svæði í Evrópu þar sem flestar tegundir varpfugla verða munu færast frá austurhluta Mið-Evrópu í átt að Eystrasaltsríkjunum og Suður-Finnlandi.

Þeir fuglar sem loftslagsbreytingar ógna helst eru norðurheimskauts- og háfjallategundir eins og ísmáfurinn (Pagophila eburnea) og lóuþrællinn (Calidris alpina undirt. alpina). Þessar tegundir eru háðar búsvæðum á norðurheimskautinu eða í Alpafjöllunum, sem verða sífellt sjaldgæfari eftir því sem loftslagsbreytingar halda áfram, hafís Norðuríshafsins og freðmýrar bráðna og túndruvistkerfi breytast í barrskóga. Í staðinn koma tegundir að sunnan en norðurheimskauts- og háfjalla¬tegund-irnar gætu horfið fyrir fullt og allt.

Ný finnsk rannsókn sýnir að fuglar norðlægra skóga, mýra og heiða eins og norðmeisan (Parus cinctus) og dvergsnípan (Lymnocryptes minimus) eru í sérstakri útrýmingarhættu, þar sem loftslagslíkön sýna að þau munu tapa mestu af búsvæðum sínum vegna loftslagsbreytinga og Norðuríshafið myndar náttúrulegan tálma gegn flutningum tegundanna norður á bóginn.

Upplýsingablað um fugla