Landvarðanámskeið

Landvarðarnámskeið Náttúruverndarstofnunar fer fram 30. janúar 2025 - 2. mars 2025. Námskeiðið er kennt í fjarnámi, fyrir utan eina staðlotu sem jafnframt er vettvangsferð.

Námskeiðið spannar 110 kennslustundir sem raðast niður á 5 vikur á tímabilinu 30. janúar til  2. mars 2025. Þar sem nemendur velja á milli tveggja helga sem staðlotu, en frí er þá helgi sem ekki verður valin. 

Nemendur sem ljúka landvarðarnámskeiði ganga fyrir um landvarðastörf í þjóðgörðum og öðrum friðlýstum svæðum.
Náttúruverndarstofnun hefur yfirumsjón með námskeiðinu en kennarar koma jafnframt víðar að.

Kristín Ósk Jónasdóttir, sérfræðingur hjá Náttúruverndarstofnun, er umsjónarmaður námskeiðsins,  sér um námskeiðið, undirbúning og fleira ásamt kennurum sem koma að helstu þáttum námskeiðsins.  

Markmið

Markmið námskeiðsins er að tryggja framboð af hæfum landvörðum til starfa á friðlýstum svæðum. Kennt er samkvæmt námskrá Náttúruverndarstofnunar og reglugerðar um landverði, nr. 190/2019.

Starf að námi loknu

Allmargir landverðir eru ráðnir til starfa á friðlýstum svæðum ár hvert. 

Þeir sem ljúka landvarðarnámskeiði öðlast rétt til að starfa sem landverðir og ganga þeir að öllu jafna fyrir við ráðningar í störf landvarða. Eftirspurn eftir landvörðum og framboð reyndra landvarða ræður mestu um hve margir nýútskrifaðir fá vinnu. Námskeiðið er því ekki trygging þess að hljóta vinnu á friðlýstum svæðum, en möguleikarnir eru mun meiri.

Umfjöllunarefni

Aðal umfjöllunarefni námskeiðsins eru: 

  • Helstu störf landvarða
  • Náttúruvernd og stjórnsýsla náttúruverndarmála
  • Verðmæti friðlýstra svæða, náttúra, menning og saga
  • Gestir friðlýstra svæða
  • Mannleg samskipti
  • Náttúrutúlkun, fræðsla á friðlýstum svæðum, bóklegt og verklegar æfingar
  • Náttúruvernd, verkfærin okkar
  • Vinnustaður landvarða
  • Öryggisfræðsla

Mynd: Landvarðanámskeið Náttúruverndarstofnunar fer fram 30. janúar - 2. mars 2025.

Kennsla, stundaskrá

Námskeiðið verður kennt milli  kl. 17 og 21, fimmtudaga og föstudaga og þrjár helgar milli kl. 9 og 14. 

Staðlota er á námskeiðinu frá miðvikudegi til sunnudags. Val verður á milli tveggja helga, annarsvegar frá 12. – 16. febrúar eða 19. – 23. febrúar og er mætingarskylda í staðlotuna. Þá helgi sem ekki er valin, er frí. 

Nemendur skulu gera ráð fyrir nokkurri heimavinnu eftir að kennslu lýkur dag hvern. 

Námskeiðið verður að öllu leyti kennt í fjarnámi ef frá er talinn staðlotan, sem jafnframt er vettvangsferð.

Staðsetning námskeiðs

Námskeiðið mun allt fara fram á námsvef. Þar munu fyrirlestrar, vinnustofur og umræður fara fram en jafnframt munu öll námsgögn verða þar að finna. 

Námskeiðið byggir á fyrirlestrum á vef, ásamt umræðum í litlum hópum og heimaverkefnum. Heimaverkefni geta verið allt frá 15 mín og upp í nokkra klukkutíma í vinnslu. 

Mynd: Viltu vinna á fallegasta vinnustaðnum - náttúru Íslands?

Nemendur

Nemendum af öllu landinu gefst kostur á að taka þátt.  

Lágmarksfjöldi þátttakenda til að námskeið verði haldið er 25 og hámarksfjöldi 72. 

Fólk með áhuga á útivist, náttúru og náttúruvernd er hvatt til að sækja um á námskeiðið. Mikilvægt er að landverðir búi að góðri samskiptahæfni og hafi ánægju af að vinna með fólki.

 

Námskeiðsgjöld

Námskeiðsgjöld árið 2025 eru 155.000 kr og er allur kostnaður við vettvangsferð innifalinn í verðinu. 

Námskeiðsgjald skal greiða áður en námskeiðið hefst. 

Námskeiðið er styrkhæft hjá mörgum starfsmenntunarsjóðum. 

Leiðbeinendur, val og reynsla

Leiðbeinendur eru reynslumiklir starfsmenn og landverðir, jafnt Náttúruverndarstofnunar sem annarra stofnana.

Lögð er áhersla á leiðbeinendur með víðtæka reynslu og þekkingu á starfsemi verndarsvæða og störfum landvarða. Margir þeirra hafa kennt árum saman á landvarðarnámskeiðum. 

Mynd: Landverðir sinna fjölbreyttum verkefnum á friðýstum svæðum.

Mat á frammistöðu nemenda

Nemendur taka þátt í öllum hópverkefnum sem lögð verða fyrir. Þar með töldum umræðuverkefnum.

Jafnframt skila allir nemendur vinnubók með öllum þeim verkefnum sem verða lögð fyrir á námskeiðinu.

Standast þarf mat til að útskrifast.

Hér skal tekið fram að námskeiðið er kennt á íslensku og þurfa nemendur að vera færir um að skila verkefnum á íslensku bæði í ræðu og riti.

Skráning

Opnað verður fyrir umsóknir 2. janúar 2025 kl. 10. Sótt verður um með Íslykli eða rafrænum skilríkjum hér

Skráð er á námskeiðið eftir röð umsókna.

Hámarksfjöldi nemenda á landvarðarnámskeiði eru 72. Lágmarksfjöldi nemenda er 25 og fellur námskeiðið niður ef tilskilinn fjöldi næst ekki.

Skráningafrestur er til 7. janúar 2025 en vert er að benda á að námskeiðið hefur fyllst mjög hratt undandarin ár.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um námskeiðið veitir Kristín Ósk Jónasdóttir í síma 591 2000 eða á netfanginu kristinosk@ust.is.  

Mynd: Friðlýst svæði á Íslandi