Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English
Norður Melrakkaslétta
Mynd: Bromr - wikimedia
Kynningarfundur
Kynningarfundur um tillögu að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár fyrir landeigendur á svæðinu fór fram þann 12. janúar 2024. Fundurinn var stafrænn.
Horfa á upptöku frá fundinum
Skoða glærur frá fundinum
Um svæðið
Sveitarfélag: Norðurþing
Möguleg stærð: 181 km2
Norður Melrakkaslétta er láglend frá sjó inn til lands. Á svæðinu er nokkuð um lífrík votlendissvæði og vötn. Með ströndinni að norðan eru víkur þar sem grynningar og flæðireinar eru áberandi, með leirbornum hnullunga- og malarbotni. Brimsemi er lítil innst í víkunum, en mun meiri allra yst.
Lífríki er allfjölbreytt og fuglalíf ríkulegt, einkum við ströndina, þar sem er fjöldi sjávarlóna, vatna og víka. Fjörurnar eru mikilvægar á fartíma fyrir fargesti einkum rauðbrysting, sanderlu, sendling og tildru. Þá er svæðið alþjóðlega mikilvægar vetrarstöðvar fyrir sendling. Meðal mikilvægustu varpsvæða æðarfugls og kríu og einnig eru allstórar álku- og súlubyggðir.
Nyrst á svæðinu eru fjöruspildur við Skálaneslón, Oddsstaðalón, Skinnalón og Neslón. Þar eru klóþangsfjörur, klóþangsklungur og fjölskrúðugt lífríki, auk gulþörungaleiru innst í Neslóni. Einnig eru út- og landselalátur innan svæðisins.
Votlendissvæðin (>20.000m2), vötn og tjarnir (>1.000m2), sjávarfitjar og leirur á svæðinu falla undir ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga um sérstaka vernd.
Svæðið er hluti af alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði Melrakkasléttu.
Staðreyndarsíða Náttúrufræðistofnunar Íslands um Melrakkasléttu en svæðið er hluti þess.
Tillaga að svæði á framkvæmdaáætlun
Undanskildar tillögunni eru eftirtaldar jarðir:
- Harðbakur 1 lnr. 154161
- Harðbakur 2 lnr. 154162
- Sigurðarstaðir lnr. 154211
- Brúnir lnr. 154145
- Núpskatla lnr. 154194
Þar sem hnitsett jarðamörk ofangreindra jarða liggja ekki fyrir eru þær ekki aðgreindar sérstaklega á meðfylgjandi korti. Frekari afmörkun mun þurfa að fara fram í samstarfi við hlutaðeigandi aðila ef farið verður í friðlýsingu og/eða friðun svæðisins.
Mögulegar verndarráðstafanir
1. Vegna ríkulegs fuglalífs og líffræðilegs fjölbreytileika svæðisins er möguleg friðlýsing svæðisins sem friðlands skv. 49. gr. náttúruverndarlaga.
Með friðlýsingu sem friðlands er áhersla á vernd lífríkis og tegund lífvera sem eru sjaldgæfar eða í hættu samkvæmt útgefnum válistum eða til að vernda lífríki sem er sérstaklega fjölbreytt eða sérstætt. Í auglýsingum um friðlýsingu, sem eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda, er m.a. kveðið á um markmið friðlýsingar, umsjón, umferð og umgengni, tilhögun verndar, landnotkun og mannvirkjagerð ofl.
Friðlýsing er unnin í samstarfshópi sem skipaður er fulltrúum frá Umhverfisstofnun, sveitarfélagi, landeigenda og annarra eftir þörfum.
Sambærilegt friðlýst svæði eru friðlöndin Blikastaðakró – Leiruvogur og Varmárósar í Mosfellsbæ.
2. Önnur verndarráðstöfun fyrir svæðið er friðun vistgerðanna og fuglanna skv. 56. gr. náttúruverndarlaga.
Friðun vistgerða felur m.a. í sér sérstaka aðgæsluskyldu, forðast rask, framkvæmdaleyfisskyldu og mótvægisaðgerðir vegna mögulegs rasks. Í auglýsingu um friðun, sem er birt í B-deild Stjórnartíðinda, er kveðið á um umfang friðunar og þær takmarkanir sem af henni leiðir. Sambærileg friðun er til fyrir æðplöntur, mosa og fléttur frá árinu 2021 en ekki er til sambærileg friðun fyrir fugla.
3. Friðlýsing og friðun
Við frekari ákvörðun verndarráðstafana fyrir svæðið væri það hlutverk ofangreinds samstarfshóps að greina hvar hvor aðferðin eigi við út frá verndargildi og vinna að viðeigandi svæðisskiptingu.
Mögulegar takmarkanir/innviðir
Ekki er þörf á að takmarka þá landnotkun og hlunnindanýtingu sem er nú á svæðinu vegna verndar. Hægt er að svæðisskipta svæðinu eftir því sem við á út frá verndargildi. Á varptíma gæti þurft að takmarka notkun dróna.
Tilnefnt af Náttúrufræðistofnun Íslands vegna:
- Gulþörungaleirur
- Klóþangsfjörur
- Klóþangsklungur
- Æður
- Kría
- Álka
- Himbrimi
- Lómur
- Grágæs
- Rauðbrystingur
- Sanderla
- Sendlingur
- Tildra
Gulþörungaleirur
Verndarstaða: Ekki ákjósanleg – ófullnægjandi
Verndargildi vistgerðar: Miðlungs
Gulþörungaleira einkennist af gulþörungum (Vaucheria spp.). Á haustin þroskast dvalargró sem lifna við á vorin og mynda gróðurþekju sem lítur út eins og þunn, dökkgræn motta á yfirborði leirsins seinni hluta sumars. Á leirum eru gjarnan kjöraðstæður fyrir þörunginn þar sem nokkuð er af áburðarríku lífrænu efni í setinu. Gulþörungaleirur eru oftast í mjög skjólsælum fjörum, innst í fjörðum og víkum, þar sem ferskvatnsáhrifa gætir. Undirlagið er fínn leir og stutt er niður á súrefnissnautt lag.
Yfirleitt er lítið af dýrum í þessum leirum og lífríkið samanstendur nær eingöngu af gulþörungum, ánum og rykmýslirfum.
Upplýsingar um gulþörungaleirur á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands
Klóþangsfjörur
Verndarstaða: Ekki ákjósanleg – ófullnægjandi
Verndargildi vistgerðar: Mjög hátt
Þangfjörur þar sem klóþang er ríkjandi með yfir 30% þekju. Þetta er ein útbreiddasta fjöruvistgerðin og jafnframt sú tegundaauðugasta því klóþang veitir mörgum öðrum lífverum skjól og búsvæði (Agnar Ingólfsson 1990, 2006). Klóþang dafnar best þar sem er gott skjól fyrir brimöldu, fjörubeðurinn harður, lítt hreyfanlegur og það nær góðri festu. Á einstaka stað finnast þó klóþangsfjörur þar sem brimasemi er talsverð. Klóþangsplöntur eru hægvaxta og geta orðið áratuga gamlar. Innan um klóþangið geta aðrar þangtegundir oft verið algengar en í miklu minna magni. Rauðþörungurinn þangskegg er oft mjög áberandi ásæta á klóþangi en finnst ekki við svölustu strendur landsins.
Smádýralíf er mjög auðugt (Agnar Ingólfsson 1990).
Breidd fjörunnar getur verið mismunandi en þar sem hún er víðáttumikil og halli lítill eru fjörupollar oft algengir.
Mikilvæg fæðusvæði fugla, einkum fyrir æðarfugl og vaðfugla á borð við sendling, stelk, tildru og rauðbrysting.
Upplýsingar um klóþangsfjörur á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands
Klóþangsklungur
Verndarstaða: Ákjósanleg – góð
Verndargildi vistgerðar: Mjög hátt
Klóþang er ríkjandi á föstu undirlagi en umhverfis eða inn á milli eru allstórir flákar af fíngerðara seti, oftast leir, þar sem sandmaðkur er algengur. Hlutfallið milli klappa og sets getur verið breytilegt en skiptist oft til helminga. Yfirleitt frekar lítil brimasemi þar sem klóþang þrífst best í skjóli ásamt því að leir safnast frekar fyrir í stilltum aðstæðum.
Mjög mikilvæg fæðusvæði fugla, einkum fyrir æðarfugl, stokkönd og vaðfugla á borð við sendling, stelk, lóuþræl og tildru. Lykilbúsvæði fyrir rauðbrysting.
Upplýsingar um klóþangsklungur á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands
Æður (Somateria mollissima)
Verndarstaða: Í yfirvofandi hættu
Æðarfugl er stór kafönd sem heldur sig nær eingöngu á og við sjó og er algengasta önd Íslands og er 50-71 cm að lengd og um 2 kg. Æðarfugl verpur við ár og vötn í oft stórum og þéttum byggðum í hólmum eða þar sem hann nýtur verndar. Kollan verpur 3-6 eggjum og liggur á í allt að 28 daga og er ungatíminn allt að 75 dagar. Æður er ábyrgðartegund á Íslandi en miðað er við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum.
Upplýsingar um æðarfugl á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands
Kría (Sterna paradisaea)
Verndarstaða: Í nokkurri hættu
Kría er farfugl í flokki þerna og er um 33-35 cm að lengd og um 120 gr. að þyngd. Hún verpur í bæði grónu og gróðursnauðu landi. Hún verpur 1-3 eggjum, liggur á í 20-24 daga og ungatíminn er 21-24 dagar. Varpsvæði kríu er í kringum norður heimskautið en vetrarstöðvar hennar eru í suður Atlantshafi og suður að Suður Ísahafi og allt austur til Ástralíu. Kríuvarp hefur að mestu brugðist vegna sandsílaskorts sunnanlands frá árinu 2005 en Melrakkaslétta er eitt þeirra svæða
Kría er ábyrgðartegund á Íslandi en miðað er við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum. Kría er einnig á lista Bernarsamningsins yfir tegundir sem þarfnast sérstakrar búsvæðaverndar.
Upplýsingar um kríu á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands
Álka (Alca torda)
Verndarstaða: Í yfirvofandi hættu
Álkan er miðlungsstór svartfugl sem er um 37-39 cm að lengd og um 600 gr. að þyngd. Hún verpur í byggðum við sjó, björgum eð í grýttum urðum, í sprungum eða undir steinum en líka á berar syllur. Álka verpur einu eggi og liggur í 35 daga en ungatíminn er 49-70 dagar. Álka er ábyrgðartegund á Íslandi en miðað er við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum.
Upplýsingar um álku á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands
Upplýsingar um álku á fuglavefnum
Lómur (Gavia stellata)
Verndarstaða: Ekki í hættu
Lómur er vatnafugl og er að nokkru farfugl sem svipar til himbrima en er þó mun minni eða 53-69 cm og um 1700 gr. að þynd. Hann verpur tveimur eggjum við vatnsbakka tjarna, vatna og fallvatna og liggur á í 26-28 daga og ungatíminn er 42 dagar. Lómur er á lista Bernarsamningsins yfir tegundir sem þarfnast sérstakrar búsvæðaverndar.
Upplýsingar um lóm á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands
Upplýsingar um lóm á fuglavefnu
Himbrimi (Gavia immer)
Verndarstaða: Í nokkurri hættu
Himbrimi er stór vatnafugl sem verpur við vötn og tjarnir með silungi í allt að 600m hæð yfir sjávarmáli. Himbrimi er 69-91 cm að lengt og 3,5kg að þygd og verpur tveimur eggjum. Hann liggur á í 25-30 daga og ungatíminn er 56-77 dagar. Himbrimi er að nokkru farfugl en Ísland er eini varpstaður í Evrópu en er algengur á meginlandi norður Ameríku og á Grænlandi. Himbrimi er ábyrgðartegund á Íslandi en miðað er við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum. Hann er einnig á lista Bernarsamningsins yfir tegundir sem þarfnast sérstakrar búsvæðaverndar.
Upplýsingar um himbrima á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands
Upplýsingar um himbrima á fuglavefnu
Grágæs (Anser anser)
Verndarstaða: Ekki í hættu
Grágæs er að mestu farfugl og er stærst þeirra gæsa sem verpa eða hafa viðdvöl á Íslandi. Vetrarstöðvar grágæsar erHún er 75-90 cm að lengd og um 3,5 kg. Hún verpur 4-7 eggjum og liggur á í 27-28 daga. Ungatíminn er 50-60 dagar. Varpsvæði grágæsar er aðallega undir 300 m hæð og er hlutfallslega algengust í hrísmýrum og öðru mýrlendi og á grónum áreyrum við stórfljót á norðaustur- og austurlandi og í Breiðafjarðareyjum.
Upplýsingar um grágæs á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands
Upplýsingar um grágæs á fuglavefnu
Rauðbrystingur (Calidris canutus)
Verndarstaða: Ekki í hættu
Rauðbrystingur er meðalstór vaðfugl. Hann er 23-25 cm að lengd og vegur 150 gr. Hann verpur fjórum eggjum og liggur á í 21-22 daga og ungatímin er 18-20 dagar. Hann verpur ekki á Íslandi heldur kemur hér við á leið sinni til varpstöðvanna á Grænlandi og íshafseyjum Kanada og vetrarstöðva í Vestur-Evrópu og Vestur-Afríku. Rauðbrystingur er ábyrgðartegund á Íslandi en miðað er við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum.
Upplýsingar um rauðbrysting á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands
Upplýsingar um rauðbrysting á fuglavefnu
Sanderla (Calidris alba)
Verndarstaða: Ekki í hættu
Sanderla er smár og kvikur vaðfugl. Hún er farfugl og er 20-21 cm að lengd og vegur um 60 gr. Hún heldur til í sandfjörum og leirum í leit að æti. Sanderla verpur ekki hérlendis heldur hefur viðdvöl á leið til varpstöðva á norðaustur Grænlandi og til vetrarstöðva við vestur Evrópu og vestur Afríku. Sanderla er ábyrgðartegund á Íslandi en miðað er við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum.
Upplýsingar um sanderlu á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands
Upplýsingar um sanderlu á fuglavefnu
Sendlingur (Calidris maritima)
Verndarstaða: Í hættu
Sendlingur er dekkstur og einn af minnstu litlu vaðfuglanna. Hann er 20-22 cm að lengd og vegur 80 gr. Hann verpur aðallega til fjalla en einnig á annesjum og hrjóstrum á láglendi. Sendlingur verpur 4 eggjum og liggur á í 21-22 daga og er ungatíminn 21 dagur. Sendlingur er ábyrgðartegund á Íslandi en miðað er við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum.
Upplýsingar um sendling á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands
Upplýsingar um sendling á fuglavefnu
Tildra (Arenaria interpres)
Verndarstaða: Ekki í hættu
Tildra er fremur lítill fjörufugl. Hann er 22-24 cm að lengd og vegur 120 gr. Tildra verpur ekki á Íslandi heldur er far- og vetrargestur og kemur við á Íslandi á leið til varpstöðva sinna á Grænlandi og Norðaustur-Kanada og vetrarstöðva sinna í Vestur-Evrópu og Vestur-Afríku. Tildra er ábyrgðartegund á Íslandi en miðað er við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum.
Upplýsingar um tildru á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands
Upplýsingar um tildru á fuglavefnum