Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Hvað er framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár?

Á framkvæmdaáætlun eru skráðar þær náttúruminjar sem Alþingi hefur ákveðið að setja í forgang um friðlýsingu eða friðun næstu fimm árin.  

Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár er einn hluti náttúruminjaskrár sem ráðherra skal gefa út eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.

Náttúruminjaskrá skiptist í:

  • A-hluta sem er skrá yfir friðlýst og friðuð svæði
  • B-hluta sem er framkvæmdaáætlun til næstu fimm ára um friðlýsingar og friðun
  • C-hluta sem er skrá yfir aðrar mikilvægar náttúruminjar sem ástæða þykir til að friðlýsa eða friða

Framkvæmdaáætlun er sambærileg því sem vísað var til sem náttúruverndaráætlun í eldri náttúruverndarlögum. Náttúruminjaskrá er unnin samkvæmt ákvæðum VI. kafla laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Hvernig eru tillögur að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár unnar?

Náttúrufræðistofnun Íslands, ásamt fagráði, hefur það hlutverk að gera tillögur um minjar sem ástæða þykir til að setja á framkvæmdaáætlun. Stofnunin skilar tillögum sínum til þess ráðherra sem fer með umhverfismál sem svo felur Umhverfisstofnun að meta nauðsynlegar verndarráðstafanir fyrir hvert svæði/tillögu og kostnað við þær.

Jafnframt ber Umhverfisstofnun að kynna þessar tillögur í Lögbirtingablaði, á vefmiðlum og með öðrum hætti eftir því sem við á. Tillögurnar skal jafnframt senda sveitarstjórnum, náttúruverndarnefndum sveitarfélaga og náttúrustofum til umsagnar og öðrum opinberum aðilum og hagsmunasamtökum eftir því sem ástæða þykir til. Einnig skal senda tillöguna þeim aðilum sem eiga sérstakra hagsmuna að gæta vegna hennar, þ.e. til landeigenda og rétthafa lands.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum skal ekki vera skemmri en átta vikur.

Að kynningartíma loknum tekur Umhverfisstofnun saman umsögn um allar athugasemdir sem berast stofnuninni á kynningartíma og sendir til ráðherra umhverfismála.

Þeir aðilar sem senda inn athugasemdir verða einnig upplýstir um umsögn Umhverfisstofnunar. 

Í ráðuneyti umhverfismála er svo unnin þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár sem auglýst er í fjórar vikur í Samráðsgátt Stjórnarráðsins. Í kjölfarið leggur ráðherra umhverfismála þingsályktunartillöguna fram á Alþingi. Gildistaka áætlunarinnar er háð samþykki Alþingis.

Þegar framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár hefur verið samþykkt af Alþingi er komin forgangsröðun stjórnvalda um þær náttúruminjar sem eru í forgangi við undirbúning friðlýsingar eða friðunar, eftir því sem við á. 

Skoða upplýsingar um feril og vinnslu friðlýsinga 

Hvað þýðir þetta fyrir landeigendur?

Það að landsvæði sé skráð á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár felur í sér að þá gilda um svæðið tilteknar reglur eða réttaráhrif skv. náttúruverndarlögum.

  • Réttaráhrifin felast fyrst og fremst í því að sýna þarf sérstaka aðgæslu gagnvart vistgerðum, vistkerfum og tegundum á náttúruminjaskrá til að koma í veg fyrir að náttúruleg útbreiðslusvæði eða búsvæði minnki og verndarstaða þeirra versni.
  • Forðast skal að raska minjunum sem skráðar eru á framkvæmdaáætlunina. 
  • Ef fyrirhugað er að fara í framkvæmdir sem gætu haft rask í för með sér þarf leyfi sveitarfélags sem þarf að afla umsagna frá Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúruverndarnefnd sveitarfélagsins nema fyrir liggi samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnirnar liggja fyrir. Ráðherra umhverfismála er heimilt að setja á tímabundið bann við framkvæmdum eða nýtingu sem skaðað getur verndargildi minjanna.
  • Jafnframt á ríkissjóður Íslands forkaupsrétt að jörðum og öðrum landeignum sem eru að hluta eða öllu leyti á náttúruminjaskrá að þeim aðilum frágengnum sem veittur er forkaupsréttur með jarðalögum.
  • Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár er bindandi fyrir skipulagsáætlanir sveitarfélaga og skulu þau, þegar við á, samræma gildandi skipulagsáætlanir innan fjögurra ára frá samþykkt hennar.

Hvað þýðir það að svæði fari inn á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár?

Bann við framkvæmdum

Ráðherra umhverfismála er heimilt að kveða á um tímabundið bann við framkvæmdum eða nýtingu sem skaðað getur verndargildi náttúruminja sem teknar eru á framkvæmdaáætlun. Bannið gildir í þrjá mánuði. Ráðherra er heimilt að ítreka bannið með sérstakri ákvörðun og gildir það þar til friðlýsing eða friðun tekur gildi, en þó ekki lengur en í 1 ár (37. gr., 2. mgr.).

Forðast rask

Forðast ber að raska svæðum eða náttúrumyndunum sem skráðar hafa verið á B- hluta náttúruminjaskrár nema almannahagsmunir krefjist þess og annarra kosta hafi verið leitað (37. gr., 3. mgr.).

Leyfisskylda

Skylt er að afla framkvæmdaleyfis, eða eftir atvikum byggingarleyfis, sbr. skipulagslög og lög um mannvirki, vegna framkvæmda sem hafa í för með sér slíka röskun (sbr. hér að ofan) (37. gr., 3. mgr.).

Umsagnaskylda

Áður en leyfi er veitt, skv. ofangreindu, skal leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir liggja fyrir. Við afgreiðslu umsókna um leyfi skal gæta ákvæða 4.-6. mgr. 61. gr. um sérstaka vernd (37. gr., 3. mgr.).

Aðgæsluskylda

Sýna skal sérstaka aðgæslu gagnvart vistgerðum, vistkerfum og tegundum á náttúruminjaskrá til að koma í veg fyrir að náttúruleg útbreiðslusvæði eða búsvæði minnki og verndarstaða þeirra versni (37. gr., 4. mgr.).

Forkaupsréttur

Ríkissjóður skal hafa forkaupsrétt að jörðum og öðrum landareignum sem eru að hluta eða öllu leyti á náttúruminjaskrá að þeim aðilum frágengnum sem veittur er forkaupsréttur með jarðalögum.

Samræming skipulaga sveitarfélaga

Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár er bindandi við gerð skipulagsáætlana. Sveitarstjórnir skulu, þegar við á, samræma gildandi svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir framkvæmdaáætluninni innan fjögurra ára frá samþykkt hennar 

Hvernig er hægt að koma athugasemdum um tillögu að framkvæmdaáætlun á framfæri?

Tillaga að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár verður kynnt m.a. á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Hægt verður að senda inn athugasemdir með:

  • Á heimasíðu Umhverfisstofnunar
  • Með tölvupósti á netfangið ust@ust.is
  • Bréfpósti á heimilisfangið Umhverfisstofnun, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík

Einnig verður hægt að skila athugasemdum á kynningartíma þingsályktunartillögunnar á Samráðsgátt Stjórnarráðsins.

Hvað gerist í kjölfar þess að Alþingi samþykkir framkvæmdaáætlunina?

Þegar framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár hefur verið samþykkt af Alþingi hefur Umhverfisstofnun það hlutverk að setja þær náttúruminjar sem þar eru skráðar í forgang við undirbúning friðlýsingar eða friðunar eftir því sem við á.

Upplýsingar um undirbúning friðlýsinga.

Hvaða hlutverk hefur Umhverfisstofnun við tillögu að framkvæmdaáætlun?

Umhverfisstofnun ber að gera mat á nauðsynlegum verndarráðstöfunum og kostnaði við þær. Í því felst m.a. að meta hvaða verndaraðgerðir geta átt við fyrir hvert svæði og hvaða innviða gæti verið þörf á þ.m.t. landvörslu. 

Umhverfisstofnun ber jafnframt að kynna þau svæði sem til greina kemur að setja á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Að kynningartíma loknum vinnur Umhverfisstofnun umsögn um innkomnar athugasemdir og skilar til ráðherra umhverfismála. Jafnframt ber Umhverfisstofnun að gera þeim aðilum sem senda inn athugasemdir grein fyrir umsögn sinni til ráðherra.