Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Arsen

Arsen (e. arsenic, As) er eitt af frumefnum jarðar. Efnasambönd þess eru ýmist ólífræn eða lífræn og geta báðir hópar myndast í náttúrunni og við athafnir manna. Mismunandi er á milli arsen efnasambanda hversu skaðleg þau geta verið en almennt eru ólífræn arsen efnasambönd talin mjög eitruð lífverum, einkum vatnalífverum.

Hvar er líklegt að finna þau?

  • Gagnvörðu timbri (fúavörn) frá árunum 1950 – 2004
  • Reyk frá kopar- og blýbræðslustöðvum
  • Innan í raftækjum
  • Steinefnaáburði
  • Tóbaki og tóbaksreyk
  • Rafgeymum
  • Ýmsum matvælum
  • Uppstoppuðum dýrum
  • Gömlu skordýraeitri

Hvernig komast þau inn í líkamann?

  • Í gegnum fæðuna
  • Með innöndun
  • Með upptöku í gegnum húð
  • Til fósturs í gegnum fylgjuna

Hvernig geta þau haft áhrif á heilsu?

  • Aukið líkur á ýmsum krabbameinum
  • Aukið líkur á húðsjúkdómum
  • Aukið líkur á efnaskiptaskjúkdómum
  • Aukið líkur á sykursýki
  • Aukið líkur á hjarta- og æðasjúkdómum
  • Eiturhrif á æxlun (t.a.m. hætta á fæðingu andvana barns, lækkun á fæðingarþyngd nýbura, hætta á ungbarnadauða)
  • Frávik á þroska og mögulegur taugafræðilegur skaði á fóstrum og ungabörnum

Hvernig er hægt að draga úr útsetningu fyrir efnunum?

  • Forðast reykingar og innöndun af tóbaksreyk.
  • Velja umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu.
  • Við úreldingu vara er mikilvægt að koma þeim í réttan farveg hjá móttökuaðilum. Við urðun geta efnin lekið út í jarðveginn.

Nánari umfjöllun um arsen

Arsen (e. arsenic) er eitt af frumefnum jarðar og finnst í grjóti, jarðvegi, vatni, lofti, plöntum og dýrum. Arsen er málmleysingi og flokkast arsen efnasambönd sem lífræn eða ólífræn og geta báðir flokkar myndast í náttúrunni og við athafnir manna. Lífræn arsen efnasambönd innihalda arsen ásamt kolefni og öðrum frumefnum. Ólífræn arsen efnasambönd innihalda arsen ásamt öðrum frumefnum en eru án kolefnis. Mismunandi er á milli arsen efnasambanda hversu skaðleg þau geta verið en almennt eru ólífræn arsen efnasambönd mjög eitruð lífverum, einkum vatnalífverum, og eru líklegri til að valda heilsufarsvandamálum.

Mörg ólífræn arsen efnasambönd eru flokkuð sem krabbameinsvaldar og leiddi það til ýmissa takmarkana á notkun þeirra í vörum. Almennt er talið að börn séu næmari fyrir snertingu við arsen heldur en fullorðnir, en það er einnig persónubundið hversu vel líkaminn okkar brýtur niður og fjarlægir arsen úr líkamanum.

Áður fyrr var timbur gagnvarið með svokallaðri CCA þrýstimeðferð þar sem króm (C), kopar (C) og arsen (A) var þrýst inn í viðinn. Slíkt timbur var takmarkað hér á landi árið 2004 en um er að ræða timbur sem kemur fúavarið í innflutningi en ekki hefðbundin fúavörn sem hægt er að versla út í búð og bera á sjálfur með pensli. Efnin munu halda áfram að leka úr gömlu CCA meðhöndluðu timbri næstu árin, en CAA meðhöndlað timbur flokkast sem spilliefni og því verður að skila á endurvinnslustöð sem slíku. Það má ekki brenna slíkt timbur þar sem efnin mynda eitraðan reyk, ryk og ösku.

Arsen og arsen efnasambönd eru takmörkuð og/eða bönnuð í nokkrum reglugerðum hér á landi og innan EES. Vert er að nefna hér nokkrar þeirra:

ATH - Arsen getur komið fyrir í ýmsum matvælum en sú umfjöllun verður ekki rakin hér. Ef áhugi er á fróðleik og leiðbeiningum varðandi arsen í mat þá bendum við á Ráðleggingar vegna arsens í matvælum á síðu Matvælastofnunar. Að auki er hægt að skoða ráðleggingar frá Matvælastofnun Danmerkur vegna ólífrænna arsen efnasambanda á dönsku og Álit á arseni í mat frá Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) á ensku.

 

Ítarleg umfjöllun hjá systurstofnunum og öðrum alþjóðastofnunum

Upplýsingar um arsen á heimasíðu lífvöktunarverkefnis Evrópusambandsins (e. HBM4EU):

Almennt um arsen á norsku á heimasíðu Miljøstatus sem er ritstýrt af Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet).

Almennt um arsen á sænsku á heimasíðu Karolinska Institutet.

 

Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 3. apríl 2024.