Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Neysluvenjur

Við þurfum að hafa í huga að öll neyslan okkar hefur áhrif á jörðina okkar, framleiðsla, flutningar, geymsla og förgun á öllum þessum hlutum. Öll neysla losar gróðurhúsalofttegundir og önnur mengunarefni og því skiptir miklu máli að í hvert skipti sem við ætlum að kaupa eitthvað, að við hugsum okkur um og veltum fyrir okkur hvort við raunverulega þurfum á þessu að halda. Að sleppa því að kaupa poka, eina peysu í viðbót, kertastjaka eða aðrar óþarfa vörur er eitt það mikilvægasta sem við getum gert til að draga úr umhverfisáhrifum okkar.

Hagstofa Íslands hefur tekið saman tölur yfir magn einstaklingsbundinnar neyslu á mann á Íslandi en þær sýna að neysla Íslendinga var 14% yfir meðaltali ESB ríkja árið 2016 þar sem fram kom að þjóðin er sú áttunda neysluhæsta meðal landanna 37. 

Ekki kaupa ný tæki, húsgögn og hluti nema að athuga fyrst hvort þú getir endurnotað eitthvað, látið gera við eða fengið lánað. Hversu oft ert þú að nota borvélina þína, saumavélina, sláttuvélina, háþrýstiþvottagræjuna, tjaldið, slípirokkinn… Það er sennilega hægt að halda endalaust áfram. Við höfum vanið okkur á að við þurfum öll að eiga allt, af hverju er það? Viljum við ekki trufla fjölskyldu okkar og nágranna? Er það skylda okkar að eiga allt sem við mögulega þurfum einhvern tíma að nota á lífsleiðinni? Alls ekki nefnilega, hvernig væri nú að treysta nágrannaböndin og spyrja, má ég fá orfið þitt lánað og ég get lánað þér sláttuvélina? Pabbi á örugglega borvél, fæ hana bara lánaða þegar ég þarf á fimm ára fresti að hengja eða festa eitthvað upp. Hvað með að athuga frekar með leigumarkað í stað þess að eyða pening, tíma, plássi og auðlindum í að kaupa enn eitt tækið?

Nokkur góð ráð

  • Spyrja sig fyrst hvort þú þurfir raunverulega á þessum hluta að halda
  • Ef við þurfum að kaupa vörur að þá eigum við að skoða hvort hægt sé að kaupa vörur sem hafa haft minni neikvæð áhrif á umhverfið við framleiðslu. Slíkar vörur eru t.d. umhverfisvottaðar, lífrænar og siðgæðisvottaðar.
  • Kaupa frekar vandaðri vörur sem hafa lengri endingartíma.
  • Spyrja verslunaraðila hvort ekki sé hægt að fá vandaðri vörur eða umhverfisvottaðar. Með því að gera það getum við haft áhrif á vöruúrval og vöruþróun.