Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Úttekt á tollafgreiðslu plöntuverndarvara 2017

Tilgangur og markmið:

 

  • Að nota upplýsingar um tollafgreiðslu til að leggja mat á það hve mikið af plöntuverndarvörum berast til landsins á hverju ári.
  • Að athuga hvort tollflokkun sé hugsanlega ábótavant, leiðrétta og leiðbeina hlutaðeigandi fyrirtækjum um tollflokkun þannig að upplýsingar um tollafgreiðslu plöntuverndarvara gefi raunsanna mynd af því hve mikið er sett af þessum vörum á markað hér á landi.

Framkvæmd og helstu niðurstöður:
Í úttektinni var athyglinni beint að plöntuverndarvörum í eftirfarandi tollflokkunum:

  • 3808.9100: Skordýraeyðir; Sveppaeyði
  • 3808.9300: Illgresiseyðir, spírunareyðir og efni til að stjórna plöntuvexti

Gögn frá Tollstjóra um tollafgreiðslu ásamt gögnum frá Umhverfisstofnun um tolláritanir voru nýtt til að taka saman upplýsingar um það hve mikið af plöntuverndarvörum voru settar á markað á árinu 2017. Einnig var notast við upplýsingar úr eftirlitsverkefni Umhverfisstofnunar þar sem fylgst var með tollafgreiðslu undir ákveðnum tollskrárnúmerum, þar á meðal þeim sem plöntuverndarvörur falla undir. Samkvæmt úttektinni fengu 4 fyrirtæki tollafgreiddar plöntuverndarvörur á árinu sem skiptust niður á 54 sendingar.
Alls voru tollafgreidd 11,6 tonn af plöntuverndarvörum á árinu 2017  og hefur magnið því dregist saman um 10% á milli áranna 2016 og 2017. Gögn sem Umhverfisstofnun hefur tekið saman um tollafgreiðslu á plöntuverndarvörum fyrir árin 2009-2017 sýna reyndar þá þróun að innflutningur þessara vara hefur dregist saman á tímabilinu og er nú aðeins um fjórðungur af því sem var 2009. Talsverðar sveiflur er þó milli ára, en megin ástæðan fyrir þeim er sú, að teknar eru inn stórar sendingar af vörum sem nokkur ár tekur að selja. Af plöntuverndarvörum sem fluttar voru inn árið 2017 reyndust 70% af þeim vera illgresiseyðar og 30% skordýra- og sveppaeyða þannig að illgresiseyðar eru því enn stærsti hluti plöntuverndarvara á markaði líkt og á fyrri árum.

Samdráttur í framboði á plöntuverndarvörum á markaði hér á landi gæti átt sér nokkrar skýringar og eru þrjár þær líklegustu nefndar hér að neðan. Fyrst er þar til að taka að leyfum fyrir þessum vörum hefur fækkað umtalsvert frá því að efnalögin tóku gildi árið 2013 og nokkrar vörur því með öllu horfnar af markaði. Þá hefur það áhrif að bændur hafa í auknum mæli tekið upp líffræðilegar varnir eða aðrar aðgerðir í plöntuvernd, sem ekki byggjast á notkun efna. Loks kann skýringin að liggja í því að áhugi á notkun plöntuverndarvara hafi dregist saman sem afleiðing af aukinni umræðu um skaðsemi þeirra gagnvart heilsu og umhverfi.
Upplýsingar sem aflað er á þennan hátt nýtast til þess að reikna út áhættuvísa sem settir eru fram í Aðgerðaráætlun um notkun varnarefna 2016-2031. Samkvæmt aðgerðaráætluninni skal innflutningur á plöntuverndarvörum ekki nema meiru en 12 tonnum alls á ári og sýna niðurstöður verkefnisins að því markmiði var náð á árinu 2017.
Líkt og í eftirlitsverkefnum fyrri ára kemur enn í ljós að nokkuð er um ranga tollflokkun á plöntuverndarvörum og þá algengast að sveppaeyðar séu settir í rangan flokk. Við úrvinnslu gagnanna var þetta leiðrétt í þeim tilfellum sem augljóst var að tollflokkunin væri röng og verða hlutaðeigandi fyrirtæki upplýst um málið.