Umhverfisstofnun var lögð niður 31. desember 2024. Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi.

Stök frétt

Í gær, þann 29. desember, fóru landverðir frá Umhverfisstofnun í sína árlegu eftirlits- og rannsóknarferð ásamt fulltrúum frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrustofu Suðvesturlands og Veðurstofunni. Markmið ferðarinnar var að yfirfara tækjabúnað á eyjunni, svo sem jarðskjálftamæla, hreinsa og yfirfara sólarrafhlöður og myndavélar.

Við eftirlitið kom í ljós að mikið plastrusl er til staðar á eyjunni. Frekari rannsóknir verða gerðar til að skoða þetta nánar, og voru tekin hreiður sem sýni til að greina magn plasts og annars rusls í þeim. Skoðuð voru snið til að telja dauða fugla og hreiður, og sprunga í eyjunni var mæld.

Töluvert af fuglum var við og í eyjunni, þar á meðal skarfar, æðarfugl, súlur, snjótittlingar og haftyrðlar, sem greinilega voru á matseðli fálkans sem sveimaði um. Ekki er hægt að fara í þennan rannsóknarleiðangur nema í svartasta skammdeginu þegar súlan heldur ekki til í eyjunni.

Skjálftahrina hafði verið um morguninn á svæðinu, en sérfræðingar Veðurstofunnar mátu hana ekki hættulega leiðangursmönnum, enda var hún búin þegar lagt var af stað í birtingu. Önnur skjálftahrina átti sér stað meðan á ferðinni stóð, en þeir sem staddir voru í eyjunni urðu ekki varir við hana.

Eldey var friðlýst árið 1974 og er hún 77 metra há þverhnípt klettaeyja suður af Reykjanesi. Í Eldey er ein stærsta súlubyggð í heiminum, og á sumrin er eyjan þakin súlum. Óheimilt er að fara í eyjuna án leyfis Umhverfisstofnunar, og til verndar fuglalífi eru skot bönnuð nær eyjunni en 2 km.

Leiðangursmenn voru fluttir til og frá eyjunni með þyrlu Landhelgisgæslunnar, og fá þeir bestu þakkir fyrir.