Stök frétt

Innflutningur á plöntuverndarvörum var 13,9 tonn árið 2023 og dróst saman um 5% miðað við árið á undan. Þar af voru illgresiseyðar og stýriefni 66% og skordýra- og sveppaeyðar 34%. 

 

Mynd 1: Tollafgreiðsla á plöntuverndarvörum 2014-2023

 

Sveiflur í innflutningi

Innflutningur á plöntuverndarvörum sveiflast talsvert milli ára. Meginástæður þess eru að fluttar eru inn stórar sendingar af vörum sem tekur nokkur ár að selja eða að upp koma vandamál í plöntuvernd sem kalla á aukna notkun plöntuverndarvara til að koma í veg fyrir tjón eða uppskerubrest.

Áhættuvísar fyrir notkun plöntuverndarvara

Á hverju ári tekur Umhverfisstofnun saman upplýsingar um markaðssetningu og notkun plöntuverndarvara. Upplýsingarnar byggja á eftirlitsverkefnum stofnunarinnar og eru meðal annars nýttar til þess að reikna út áhættuvísa.

Áhættuvísarnir eru ákveðin markmið sem stjórnvöld hafa sett varðandi innflutning á plöntuverndarvörum. Þeir eru settir fram í Aðgerðaáætlun um notkun plöntuverndarvara 2016-2031. Samkvæmt Aðgerðaáætluninni skal innflutningur á plöntuverndarvörum ekki nema meiru en 12 tonnum á ári. Ljóst er að því markmiði var ekki náð á árinu 2023.

Þegar meta á áhrif plöntuverndarvara á heilsu og umhverfi gefur magn virkra efna mun betri vísbendingar um raunverulegt álag heldur en heildarmagn af vörum sem sett er á markað. Þar sem styrkur virku efnanna í plöntuverndarvörum liggur alltaf fyrir er hægt að reikna út hve ákveðið heildarmagn af vörum samsvarar miklu magni að virkum efnum. Sé það reiknað út fyrir innflutning ársins 2023 kemur í ljós að innflutningur á virkum efnum nam 1597 kg og er það 32% samdráttur frá fyrra ári.

 

Mynd 2: Tollafgreiðsla á plöntuverndarvörum 2009-2023 í kg af virkum efnum

Innflutningur á plöntuverndarvörum mældur í kg af virkum efnum hefur smám saman dregist saman frá 2009, þó svo að innflutningur hafi aukist lítillega aftur á undanförnum þremur árum. Áhættuvísir vegna innflutnings á plöntuverndarvörum í kg af virku efni er 3000 kg af virku efni á ári samkvæmt Aðgerðaáætlun um notkun varnarefna 2016-2031. Frá árinu 2017 hefur innflutningur verið undir þessum áhættuvísi þrátt fyrir að hafa ekki verið undir áhættuvísi vegna heildarmagns innfluttra plöntuverndarvara nema hluta þess tímabils. Mikill samdráttur hefur verið í innflutningi á plöntuverndarvörum til almennrar notkunar undanfarin ár.

Notendaleyfisskyldar vörur

Við sölu á notendaleyfisskyldum vörum þurfa einstaklingar að framvísa gildu notendaleyfi sem gefið er út af Umhverfisstofnun. Notendaleyfisskyldar vörur eru plöntuverndarvörur og útrýmingarefni ætluð til notkunar í atvinnuskyni en ekki til sölu til almennings. Möguleg hætta getur stafað af meðferð þeirra á heilsu og umhverfi og því nauðsynlegt að notendur þessara vara hafi aflað sér þekkingar á öruggri meðferð þeirra.

Söluaðilar notendaleyfisskyldra vara halda skrá yfir afhendingu þeirra. Upplýsingar úr eftirlitsverkefni Umhverfisstofnunar með söluskrám notendaleyfisskyldra vara sýna að af alls 133 kaupendum notendaleyfisskyldra plöntuverndarvara voru 112 (84%) með notendaleyfi í gildi, en í tilfelli 21 viðskiptavinar (16%) var ekki hægt að rekja sölu til notendaleyfis í gildi, þegar kaupin áttu sér stað, út frá framlögðum gögnum seljanda. Alls voru 112 sem keyptu útrýmingarefni á árinu 2023 og var hægt að rekja allar nema eina af þeim sölum til notendaleyfis í gildi þegar kaupin áttu sér stað. Þetta eru heldur verri niðurstöðu en árið á undan.

Stofnunin hefur áréttað við söluaðila notendaleyfisskyldra vara, sem skiluðu inn gögnum sem sýndu að ekki var í öllum tilfellum gengið úr skugga um að kaupendur væru með notendaleyfi í gildi, að þeir ræki lagaskyldur sínar hvað þetta varðar.  

Eftirlitsverkefni Umhverfisstofnunar: