Stök frétt

Auður H. Ingólfsdóttir, sviðsstjóri á sviði loftslags og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun.

Loftslagsdagurinn 2024 fór fram þann 28. maí í Hörpu. Það var samhljómur allra þátttakenda að staðan í loftslagsmálum á Íslandi sé alvarleg en aðgerðir og lausnir í sjónmáli veiti von. 

„Verkefnið er brýnt. Náttúran er í húfi – samfélög um allan heim eru í húfi“ sagði Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar í opnunarávarpi sínu. 

Loftslagsdagurinn er lykilviðburður á sviði loftslagsmála á Íslandi. Þar koma saman fulltrúar stjórnvalda, atvinnulífsins, vísinda, fjölmiðla, almennings og fleiri. 

Horfa á upptöku af Loftslagsdeginum

Hvernig viljum við nýta sætið okkar við borðið?

Ísland er um það bil 17 sinnum minna og helmingi fámennra en Alaska, eitt fylkja Bandaríkjanna. Þrátt fyrir smæð höfum við sæti við borðið á alþjóðavettvangi. Ísland hefur sjálfstæða rödd og tækifæri til að hafa áhrif langt umfram stærð, ólíkt fylkjum eins og Alaska eða stórum borgum um allan heim. 

Þetta kom fram í erindi Auðar H. Ingólfsdóttur, sviðsstjóra á sviði loftslags og hringrásarhagkerfis. Hún sagði frá samtali sínu við leiðtoga frá Alaska sem fannst Ísland öfundsvert af möguleikanum á að hafa áhrif og að þrýsta á breytingar á alþjóðavettvangi.

„Hvernig viljum við nýta sætið okkar? Viljum við vera fyrirmynd og innblástur? Eða litla landið á öllum undanþágunum?“ sagði Auður. 

Chanee Jónsdóttur Thianthong fór yfir stöðu losunar á Íslandi.

Losun á Íslandi jókst um 1% - ærin verkefni framundan

Heildarlosun Íslands jókst um tæplega 1% milli áranna 2021 og 2022. 

  • Samfélagslosun Íslands stóð í stað
  • Losun frá landnotkun jókst um tæplega 1%
  • Losun frá staðbundnum iðnaði jókst um tæplega 2%

Þetta kom fram í erindi Chanee Jónsdóttur Thianthong, sérfræðings í teymi losunarbókhalds hjá Umhverfisstofnun, sem fór yfir nýjustu tölur um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

Chanee sýndi að Ísland þarf að leggja verulega hart að sér á næstu árum til að ná markmiðum um samdrátt í losun og standast alþjóðlegar skuldbindingar.  

Samfélagslosun 2005 - 2022:

147 nýrra aðgerða að vænta

Ný aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum mun líta dagsins ljós á næstu vikum. Hún felur í sér 147 aðgerðir sem verða stjórntæki stjórnvalda til að ná markmiðum Íslands í loftslagsmálum. Aðgerðirnar munu tengjast inn í alla anga samfélagsins. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Elín Björk Jónasdóttir, sérfræðingur í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, fóru yfir stöðuna á aðgerðaáætluninni.  

Elín Björk Jónasdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson svara spurningum um væntanlega aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

Atvinnulífið löngu hafið sína vegferð

Atvinnulífið er virkur þátttakandi í að leita leiða til að draga úr losun.

Samtök atvinnulífsins hafa sýnt frumkvæði og gefið út Loftslagsvegvísa atvinnulífsins í samstarfi við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Vegvísarnir eru tillögur um aðgerðir og úrbætur sem snúa að atvinnulífinu og stjórnvöldum til að stuðla að því að loftslagsmarkmið Íslands náist. Hugrún Elvarsdóttir, verkefnastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins, fór yfir verkefnið í erindi sínu.

Fyrirtæki eins og Marel hafa gengið skrefinu lengra og tekið upp SBTi (e. Science Based Targets initiative). Það eru vísindaleg viðmið sem veita fyrirtækjum skýran ramma við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við markmið Parísarsáttmálans um að halda hlýnun jarðar innan við 1,5 gráðu. SBTi viðmiðin tryggja að fyrirtækin setji sér „alvöru markmið í loftslagsmálum“ eins og fram kom í erindi Þorsteins Kára Jónssonar, forstöðumanns sjálfbærni og samfélagstengsla hjá Marel.

Fyrirtæki og frumkvöðlar sem stunda nýsköpun í loftslagsmálum þurfa að finna stuðning til að styðja við eldmóðinn. Það kom skýrt fram í erindi Kára Helgasonar, forstöðumanns rannsókna og nýsköpunar hjá Carbfix sem benti á að „loftslagsvandinn verður ekki leystur í frítíma fólks“.

Kári Helgason fjallaði um áskoranir í nýsköpun í loftslagsmálum.

Er gleði lykillinn?

Birgitta Steingrímsdóttir, sérfræðingur í teymi hringrásarhagkerfis, fjallaði um aðgerðir einstaklinga í loftslagsmálum. Hún fór yfir það hvernig gleðin getur hjálpað einstaklingum að halda dampi.

Getum við fundið eitthvað sem veitir okkur gleði og er jafnframt gott fyrir umhverfið? Þannig getum við haft jákvæð áhrif og verið fyrirmyndir fyrir fólkið í kring. Með því að vera fyrirmyndir tekst okkur smátt og smátt að breyta viðteknum venjum og viðhorfi í umhverfis- og loftslagsmálum.

Birgitta Steingrímsdóttir og Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, fundarstjóri, stíga dans.

Loftslagsdagurinn mikilvægur púlsmælir

Loftslagsdagurinn fór nú fram í þriðja sinn. Hann hefur fyrir löngu sannað gildi sitt sem mikilvægur púlsmælir á stöðu Íslands í loftslagsmálum.

Þrjú hundruð þátttakendur voru skráðir til leiks í Hörpu þar sem mun færri komust að en vildu. Um hundrað og sextíu áhorfendur fylgdust með í beinu streymi.

Þema dagskránnar í ár voru aðgerðir í loftslagsmálum. 

Fundarstjóri var Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, sérfræðingur í teymi hringrásarhagkerfis, hjá Umhverfisstofnun.

Það var frábær þátttaka í Loftslagsdeginum 2024.

 

Tengt efni

 

Ljósmyndir: Gunnar Sverrisson