Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Ísland fór 17% umfram losunarheimildir sínar á Kýótó tímabilinu / Mynd: Þórdís Björt

Umhverfisstofnun hefur framkvæmt uppgjör á losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir seinna tímabil Kýótó-bókunarinnar. Það nær frá 2013-2020. Uppgjöri Íslands vegna Kýótó-bókunarinnar er því lokið. 

Umframlosun um 17%

Ísland fékk úthlutað 15.327.217 losunarheimildum fyrir losun árin 2013-2020. Til viðbótar fékk Ísland 4.299.126 bindingareiningar sem hægt var að nota á móti losun. 

Samtals voru þetta því 19.626.344 losunarheimildir sem jafngildir jafnmörgum tonnum CO2-ígildum í losun.

Losun á beinni ábyrgð Íslands á tímabilinu reyndist 23.030.117 tonn CO2-ígildi eða  17% umfram losunarheimildir (3.403.774 tonn CO2-ígildi).

 

 

Losunarheimildir frá Slóvakíu

Íslenska ríkið keypti losunarheimildir fyrir mismuninum af Slóvakíu. Þær voru millifærðar á reikning Íslands þann 31. ágúst 2023.

ESB óskaði eftir rúmlegu uppgjöri

Þann 4. september 2023 framkvæmdi Umhverfisstofnun uppgjörið fyrir hönd Íslands þar sem gerðar voru upp 23.030.200 losunarheimildir. 

Gerðar voru upp 83 heimildum fleiri en okkur bar skylda til. Ástæðan þess er sú að ESB óskaði eftir því að þau aðildarríki sem gætu, myndu námunda upp að næsta hundraði í uppgjörinu sínu. Það væri til að tryggja að losunarheimildir í heildaruppgjöri ESB væru alveg örugglega nægilega margar.

Sameiginlegar skuldbindingar

Fyrir seinna tímabil Kýótó-bókunnarinnar gerði Íslands tvíhliðasamning við ESB um að vera með þeirra aðildarríkjum í skuldbindingum á þessu tímabili. Það þýðir að ESB auk Íslands þurftu sameiginlega að standast ákveðnar skuldbindingar en ekki hvert og eitt aðildarríki. 

Samkvæmt reglum Kýótó bókunarinnar bar öllum ríkjum sem undir hana féllu að gera upp losun sína vegna seinna tímabilsins 2013-2020 fyrir 9. september 2023.

Hvað er Kýótó-bókunin?

Kýótó-bókunin er bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sem samþykkt var í japönsku borginni Kýótó í lok árs 1997. 

Markmið rammasamningsins var meðal annars að að koma í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af mannavöldum, og tryggja þannig að matvælaframleiðslu í heiminum væri ekki stefnt í hættu og að efnahagsþróun geti haldið áfram á sjálfbæran máta. Einnig var það markmið samningsins að stuðla að alþjóðlegri samvinnu um aðlögun að loftslagsbreytingum.

Hlutverk Umhverfisstofnunar

Umhverfisstofnun er landstjórnandi skráningarkerfis íslenska ríkisins skv. lögum um loftslagsmál og ber þar af leiðandi ábyrgð á að framkvæma uppgjör vegna losunar á beinni ábyrgðar Íslands. 

Næsta uppgjör árið 2027

Næsta uppgjör Íslenska ríkisins mun svo fara fram árið 2027 þegar gert verður upp fyrri hluti Parísartímabilsins 2021-2025.