Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

News in English / Nowości w języku polskim

Ný lög um úrgangsmál þann 1. janúar 2023

Ný lög í úrgangsmálum á Íslandi taka gildi þann 1. janúar 2023 þegar breytingar verða á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, meðhöndlun úrgangs og úrvinnslugjald.

Lagabreytingarnar hafa verið kallaðar einu nafni hringrásarlögin en markmið laganna snýst þó aðallega um að draga úr myndun úrgangs og stuðla að myndun endurvinnslusamfélags hér á landi. Við þurfum að tileinka okkur nýtt viðhorf ef við viljum byggja upp íslenskt hringrásarhagkerfi og hugsa um úrganginn okkar sem auðlind sem við getum endurunnið aftur og aftur, en ekki efni til urðunar. 

Lagabreytingarnar hafa víðtæk áhrif á almenning, sveitarfélög og atvinnulífið í heild sinni og kalla á þátttöku allra aðila við að fylgja breytingunum eftir. En í hverju felast þessar lagabreytingar?

Hvað þýða lagabreytingarnar fyrir almenning?

  • Sama flokkunarkerfi mun gilda um allt land og verður skylt að flokka úrgang í a.m.k. sjö flokka sem eru pappír, plast, lífúrgangur, textíll, málmar, gler og spilliefni.
    • Við heimili verður safnað pappír, plasti og lífúrgangi.
    • Áfram verður blönduðum úrgangi safnað við heimili þar sem ýmislegt endar þar sem á ekki heima í sérsöfnuðum úrgangi, s.s. tyggjó, einnota bleyjur og ryksugupokar.
    • Textíl, málmum, gleri og spilliefnum skal safnað með öðrum hætti, til dæmis á grenndarstöðvum, með sérstökum söfnunardögum eða öðrum átaksverkefnum. Bæta skal sérstaklega söfnun spilliefna og raftækja. Sveitarfélögum ber að útfæra söfnunina á þessum úrgangsflokkum í samþykkt um meðhöndlun úrgangs.
    • Bannað verður að urða eða brenna sérsöfnuðum úrgangi enda er markmiðið að koma honum til endurnýtingar eða endurvinnslu.
  • Sömu merkingar verða notaðar fyrir tunnur og ílát um allt land sem á að einfalda flokkun og gera hana skilvirkari.
    • Notast verður við samnorrænar merkingar sem FENÚR þýddi og staðfærði – sjá hér.
    • Samnorrænu merkingarnar er einnig að finna á mörgum vörum sem sýnir í hvaða flokk umbúðirnar eiga að fara að notkun lokinni.
  • Sveitarfélögin geta farið að innheimta gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs eftir kerfi sem nefnist Borgað þegar hent er.
    • Borgað þegar hent er  gengur þannig fyrir sig að þú borgar minna fyrir meðhöndlun á úrgangi ef þú dregur úr magni hans og flokkar vel til endurvinnslu.
    • Slíkt innheimtukerfi umbunar þeim sem fleygja minna frá sér og flokka. Þeir sem fleygja meira af blönduðum úrgangi og flokka þar af leiðandi illa borga hærra gjald fyrir meðhöndlun úrgangs.

Hvað þýða lagabreytingarnar fyrir atvinnulífið?

  • Vinnustaðir þurfa einnig að flokka sinn úrgang í sjö flokka sem eru pappír, plast, lífúrgangur, textíll, málmar, gler og spilliefni.
    • Líkt og við heimili verður pappír, plasti, lífúrgangi og blönduðum úrgangi safnað við vinnustaði.
    • Vinnustaðir þurfa að koma öðrum sérsöfnuðum úrgangsflokkum, textíl, málmum, gleri og spilliefnum til móttökustöðva eða gera samninga við þjónustuaðila um söfnun þessara úrgangsflokka.
  • Byggingar- og niðurrifsúrgangur skal flokkaður í a.m.k. eftirfarandi flokka samkvæmt nýju lögunum, þ.e. spilliefni, timbur, steinefni, málm, gler, plast og gifs.
    • Væntingar eru um að með aukinni flokkunarskyldu þessa úrgangs muni hann verða nýttur í meira mæli en áður innan byggingargeirans.
  • Úrvinnslugjald verður lagt á fleiri umbúðir sem tryggir það að framleiðendur og innflytjendur vara standa straum af kostnaði við að safna og endurvinna umbúðir.
    • Með innleiðingu laganna munu umbúðir úr gleri, málmum og viði bera úrvinnslugjald. Fram til þessa hafa einungis umbúðir úr pappa og plasti borið úrvinnslugjald.
    • Úrvinnslugjaldið mun standa straum af kostnaði við kaup á flokkunartunnum fyrir þessar umbúðir, söfnun og alla meðhöndlun þeirra til endurvinnslu.
    • Auk þess er ætlast til að úrvinnslugjald standi undir kostnaði við hreinsun á víðavangi og tryggi almenna fræðslu og upplýsingagjöf.

Lögin munu taka gildi um áramótin en innleiðing breytinganna og aðlögun að þeim mun standa yfir allt árið 2023. Mörg sveitarfélög eru langt komin með að aðlaga sín kerfi að lagabreytingunum á meðan önnur eru á skemmri veg komin. Sveitarfélögin veita upplýsingar um stöðu innleiðingar og hvernig fyrirkomulagi verður háttað, s.s. hvenær má búast við því að fjórum flokkum úrgangs verði safnað við heimili.

Lagabreytingarnar eru mikilvægt fyrsta skref í átt að hringrásarhagkerfi og einn liður í því að standa við skuldbindingar okkar í loftslagsmálum. Nú reynir á íslenskt samfélag að framfylgja þeim. Við þurfum að flokka úrgang betur svo hægt sé að endurnýta og endurvinna hann, hringrásarhugsun þarf við hönnun og vöruþróun, rýmka fyrir markaði endurnotkunar og kannski fyrst og fremst, huga alls staðar í ferlinu, hvar er hægt að lágmarka sóun. 

Frétt á ensku / News in English

Frétt á pólsku / Nowości w języku polskim