Stök frétt

Drög að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Ingólfshöfða eru  komin í kynningu og verður opinn kynningarfundur vegna málsins 10. október n.k. í Hofgarði í Öræfasveit klukkan 17:00. Umhverfisstofnun hvetur áhugasama að mæta á fundinn.

Undanfarið hafa fulltrúar Umhverfisstofnunar, rétthafar lands og fulltrúi sveitarfélags Hornafjarðar unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir friðlandið í Ingólfshöfða. Drög að áætluninni er hér með lögð fram til kynningar.

Ingólfshöfði var friðlýstur sem friðland árið 1974. Hann er 76 metra hár klettahöfði suður af Hofsnsesi í Öræfum, um 1200 metra langur og 750 metra breiður. Markmið friðlýsingarinnar er að varðveita og viðhalda náttúrulegu ástandi svæðisins og þá ekki síst því fuglalífi sem finnst í höfðanum. Í höfðanum verpa meðal annars lundi og fýll auk þess sem þéttleiki skúma er áberandi. Sjófuglabyggðinni í Ingólfshöfða fylgir einstakt smádýrasamfélag og þrífast þar tegundir eins og mordýr sem ekki hafa fundist annars staðar á landinu.

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Ingólfshöfða er ætlað að vera stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við rétthafa lands og sveitarfélag. Áætlunin er hugsuð sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins og markmiðið með gerð hennar er að leggja fram stefnu um verndun Ingólfshöfða og hvernig viðhalda beri verndargildi svæðisins í bestri sátt. Í áætluninni er lögð fram stefnumótum til 10 ára, ásamt aðgerðaáætlun til fimm ára.  Hér má sjá stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Ingólfshöfða auk auglýsingar um friðlýsingu svæðisins sem gerð var árið 1974.

Sem fyrr segir fer 10. október n.k fram opinn kynningarfundur í Hofgarði í Öræfasveit þar sem áhugasömum gefst tækifæri til að spyrja spurninga og koma með ábendingar og athugasemdir varðandi áætlunina. Fundurinn hefst klukkan 17:00 og stendur til klukkan 19:00.

Frestur til að skila inn athugasemdum og ábendingum er til 25.okt nk. Hægt er að skila inn athugasemdum á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða með því að senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Nánari upplýsingar veitir Þórdís Björt Sigþórsdóttir, thordis.sigthorsdottir@umhverfisstofnun.is eða í síma 591-2000.

(Mynd: Wikimedia Commons)