Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Ár hvert ber ríkjum sem eru aðilar að loftlagssamningi Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) að skila ítarlegum upplýsingum um losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu þeirra, sem og um þróun og horfur á að ríkin standist skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum og Kyoto-bókuninni. Skýrslur ríkjanna eru ítarlega yfirfarnar ár hvert af sérstökum úttektarteymum sem skrifstofa samningsins tilnefnir. Teymin skila svo skýrslum um helstu niðurstöður úr úttekt á bókhaldinu ásamt tillögum að úrbótum sem þurfa þykir. Á nokkurra ára fresti kemur einnig úttektarteymi til landsins og gerir enn nákvæmari úttekt (in-country review) og stendur sú úttekt yfir í viku.

Dagana 28. ágúst til 2. september mun úttektarteymi á vegum loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna koma til Íslands og taka út losunarbókhald Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu þeirra á árunum 1990-2015, er skilað var í upphafi árs 2017. Úttektin mun fara fram á Umhverfisstofnun, sem hefur yfirumsjón með og ber ábyrgð á gerð bókhaldsins, en fjölmargir munu koma að vinnunni og má þar helst nefna Landbúnaðarháskóla Íslands, Skógræktina, Landgræðslu ríkisins og Orkustofnun.