Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Hákon Ásgeirsson er einn af útvörðum íslenskrar náttúru hjá Umhverfisstofnun. Hann er sérfræðingur á Suðurlandi með skrifstofu á Hellu. Garðyrkjufræðingur og blómaskreytir að mennt. Hákon er einnig  náttúrufræðingur og nálægt því að klára mastersgráðu í umhverfis- og auðlindafræði. Meginverkefnin á sumrin eru að hafa umsjá með friðlýstum svæðum. Stjórnsýslustörf eru einnig viðamikill þáttur í störfum Hákonar. Skógafoss og Dyrhólaey eru á meðal þekktustu staðanna sem hann sinnir. Skógafoss er álíka fjölfarið svæði og Gullfoss og leitun að öðrum eins ferðamannastraumi.

Fjölgun vetrarferðamanna

Það sem breyst hefur í starfi landvarða á Suðurlandi sem og á fleiri stöðum innanlands er fjölgun vetrarferðamanna. Ágangur sem þeim fylgir er ný áskorun á viðkvæmum svæðum. Enginn fastur landvörður hefur verið á vegum Umhverfisstofnunar á Suðurlandi á veturna en á því er að verða breyting. Auk Dyrhólaeyjar og Skógafoss sinna Hákon og fleiri landverðir Umhverfisstofnunar friðlandinu að Fjallabaki þar sem Landmannalaugar eru stærsti ferðamannastaðurinn yfir sumartímann.  Heilsárferðaþjónustu þarf að mæta með heilsárslandvörslu. Mæðir mikið á þessum svæðum, auk þess sem ráðist hefur verið í ýmsar framkvæmdir.

Ástríða landvörðum sameiginleg

Þegar við hittumst á skrifstofu Hákonar í stjórnsýsluhúsinu á Hellu kemur fljótt á daginn að vinna og áhugamál fer saman hjá Hákoni. Hann brennur fyrir náttúruvernd og segir að sér líði eins og svo mörgum öðrum landvörðum best úti í náttúrunni. Hákon hefur einnig mikinn áhuga á störfum landvarða úti í heimi og hefur sótt ýmsar ráðstefnur. Hann er í tengslum við landverði út um allan heim.

„Það sem er áhugavert við starf landvarðarins er að þeir sem starfa við landvörslu gera það af ástríðu fremur en að fara bara í vinnuna að morgni dags af gömlum vana. Ég held að ástríða fyrir náttúrunni og verndun hennar keyri okkur flest áfram,“ segir Hákon.

Vægi upplýsinga ómetanlegt

Hann segir almikilvægast í starfi landvarðarins að ná til fólksins og tengjast því þannig að áhugi almennings aukist á mikilvægi náttúrunnar. „Að fræða og upplýsa. Það er mest gefandi að miðla upplýsingum sem geta kannski í besta falli bætt umgengni gestanna við náttúruna og breytt því til batnaðar hvernig við hugum að samspili manns og náttúru.“

Sterk rök fyrir ósnortnum víðernum

Stundum örlar á því í íslenskri umræðu og pólitík, að þótt mengun og rask fylgi oft iðnaðarframkvæmdum þá skapi raskið störf. En Hákon bendir á að það skapi ekki síður störf og sé ekki síður arðbært að leyfa náttúrunni að njóta vafans þegar um ræðir ósnortin víðerni landsins. „Það eru mjög sterk efnahagsleg rök fyrir því að halda víðernunum ósnortnum. Þess vegna þarf að verðmeta íslenska náttúru, meta virðið í þeirri eign sem hún er. Sumir segja að það sé ekki hægt en ég held að það sé mjög mikilvægt að reyna eftir föngum að fá verðmiða á þessi auðævi okkar því það er fyrst og fremst út af náttúrunni og þeirri upplifun sem fylgir því að ferðast um landið sem ferðaþjónusta er orðin mikilvægasta atvinnugrein landsins,“ segir Hákon.

Eins og fjallageit við fossinn

Eftir gott spjall fær upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar að ferðast með Hákoni að Skógafossi þar sem margt er um manninn. Hann er ekki fyrr stiginn út úr bílnum en hann fer að tína rusl af jörðinni. Þegar hann skýst upp allbrattan göngustíginn hægra megin við fossinn verður sá sem hér skrifar að hafa sig allan við til að halda í við landvörðinn. Hákon er frár á fæti og fimur eins og fjallageit.

Sú spurning kviknar upp á hæðinni hvernig það gangi að vera annars vegar skrifstofumaður og skriffinnur en hlaupa þess á milli upp fjöll, hreinsa burt klósettpappír, stika gönguleiðir og veita gestum og gangandi upplýsingar í hvaða veðri sem er?

„Mér finnst þetta fullkomin blanda og hún gerir starfið mjög áhugavert.  Stundum líður mér best við tölvuna en stundum líður mér best úti á mörkinni. Galdurinn er að þetta tvennt spili vel saman. Við þurfum að vera út um hvippinn og hvappinn á sumrin em veturmir fara meira í stjórnsýsluna,“ svarar Hákon og er aftur rokinn af stað.

Nær að halda bílunum í burtu

Eitt af því sem vekur athygli þegar farið er um landið er að bílastæði eru löngu sprungin víða og úr sér gengin. Mikill fjöldi bíla er við Skógafoss og fleiri staði. Þegar við ræðum þau mál bendir Hákon á að til dæmis í Slóveníu séu nú ýmis verkefni í gangi undir heitinu „Cars out“. „Þeir eru að reyna að koma bílunum burt frá viðkvæmum svæðum á sama tíma og við erum enn dálítið upptekin við að koma bílunum inn í náttúruperlurnar. Kannski ættum við frekar að leggja áherslu á að halda bílunum fyrir utan og sjá til þess að greiðara verði að ganga inn á svæðin,“ segir Hákon.

Er við ökum síðar um daginn framhjá Dyrhólaey,“ segir hann. „Það væri mjög einfalt að halda bílum fyrir utan Dyrhólaey svo eitt dæmi sé nefnt.

Rafmagnsvagn sem lausn?

Á hringferð upplýsingafulltrúa Umhverfisstofnunar um landið nýverið blasti við umferðaröngþveiti við bílastæðið á Djúpalónssandi þar sem of margar rútur höfðu safnast saman á pínulitlu bílastæði. Um skeið tepptist þar öll umferð. Þurftu ferðalangar að sýna æðruleysi þegar hvorki gekk né rak og allt sat fast í hálfa klukkustund. Þessi vandi er ekki bundinn við þjóðgarðinn í Snæfellsnesi heldur hafa víða skapast vandræði í sumar. Hákon nefnir sem hugmynd að fjöldi fólks gæti hæglega gengið frá þjóðveginum að Djúpalónssandi eða farið jafnvel með rafmagnsvagni niður að sjónum, Djúpalóni og fleiri perlum í stað þess að troðast á bíl inn á svæðið. Það sem flækir þó bílastæðamál við Djúpalónsand og víðar er að einkaland liggur að bílastæðinu. „Umferð bíla er víða mikið vandamál í dag, enda hefur hún sums staðar margfaldast,“ segir Hákon.

Erfiðast að veita undanþágu frá utanvegaakstri

Þegar liðið er á daginn ræðum við leyfisveitingar vegna kvikmyndatöku. Margar óskir berast Umhverfisstofnun árlega þar sem farið er fram á heimildir til að aðhafast á friðlýstum svæðum. „Einhverjar erfiðustu leyfisveitingarnar eru að mínu mati utanvegaakstur, til dæmis þegar teknar eru upp bílaauglýsingar. Ef myndatakan hefur listrænt gildi sem kallar á að ekið sé utanvegar ber okkur skylda til að taka óskina fyrir en þá aðeins að raskið sem þessu fylgir sé afturkræft og trufli ekki dýralíf er okkur heimilt að veita leyfi með ströngum skilyrðum.“

Eitt dæmi er stórt verkefni þar sem tökur fóru fram í nágrenni við Heklu. „Þá veittum við leyfi fyrir töku á svörtum sandi af því að þar var hægt að slóðadraga að tökum loknum og færa umhverfið í fyrra horf. En það er umdeilt hjá almenningi að við séum að berjast gegn utanvegaakstri en séum á sama tíma að veita leyfi.“

Líkt og fleiri landverðir telur Hákon þó að hlutfallslega aki færri ferðamenn utanvegar en áður. Megi að hluta til þakka þann árangur aukinni fræðslu og upplýsingagjöf.

(Texti: BÞ)