Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur nú hlotið vottun á gæða og umhverfisstjórnunarkerfi sínu og er fyrsta opinbera stofnunin sem fær slíka faggilda vottun.   Um er að ræða vottun á gæðastjórnunarkerfi skv. ISO 9001:2008 og umhverfisstjórnunarkerfi skv. ISO 14001:2004. Stofnunin er ákaflega stolt af árangrinum en innleiðing kerfanna tveggja hófst á vormánuðum 2009.

Verkefni Umhverfisstofnunar eru bæði mjög fjölbreytt og viðamikil  og hefur stofnunin ávallt lagt ríka áherslu á vönduð og ábyrg vinnubrögð.  Gæðastjórnunarkerfið mun veita þeirri stefnu bæði aðhald og stuðning. Jafnframt er kerfinu ætlað að tryggja bætta þjónustu Umhverfisstofnunar við almenning, fyrirtæki og stofnanir.

Undanfarin ár hefur mikið umbótastarf farið fram á stofnuninni og er vottun gæðakerfisins mikilvægur áfangi í því starfi, en jafnframt traustur grunnur að áframhaldandi gæðastarfi. Einnig hefur verkefnum  stofnunarinnar fjölgað ört undanfarin misseri sem ber með sér töluverða áskorun í að mæta væntingum almennings og stofnana um bætta þjónustu á niðurskurðartímum.

Vottunin nær einnig til umhverfisstjórnunarkerfis stofnunarinnar. Umhverfisstofnun telur mikilvægt að vera leiðandi fyrir aðrar ríkisstofnanir í að stýra og lágmarka áhrif starfseminnar á umhverfið. Stofnunin hefur bæði sett sér umhverfisstefnu og markmið til að fylgja henni eftir en starfið í byrjun hefur aðallega falist í bættri flokkun úrgangs, fræðslu til starfsmanna til að draga úr pappírsnotkun og orkunotkun, og skráningu á grænu bókhaldi sem endurspeglar áhrif starfseminnar á umhverfið. Umhverfisstefnan er endurskoðuð reglulega og ný markmið sett.

 

Vottunin nær til eftirfarandi verkefna Umhverfisstofnunar:
 - Umhverfisvöktun, beiting þvingunarúrræða, vöktun á vatni og andrúmslofti
 - Mengunarvarnareftirlit, veiting starfsleyfa fyrir mengandi starfsemi
 - Hollustuhættir og öryggi á opinberum stöðum
 - Upplýsingar, fræðsla, menntun og leiðbeiningar um umhverfismál
 - Umsagnir um mat á umhverfisáhrifum
 - Mat á öryggis- og fylgiblöðum vegna markaðsetningar á vöru
 - Greining á umhverfislöggjöf Evrópusambandsins
 - Stjórn lífríkis- og veiðimála
 - Umhverfismerki vöru og þjónustu
 - Vöktun á afmarkaðri notkun erfðabreyttra lífvera og örvera
 - Samræming heilbrigðiseftirlits

 

Þann 5. október 2011 fékk Umhverfisstofnun vottun á tvö stjórnkerfi; annars vegar gæðastjórnunarkerfi skv. ISO 9001:2008 og hins vegar umhverfisstjórnunarkerfi skv. ISO 14001:2004. Vottunin var framkvæmd og gefin út af breskri vottunarstofu ISOQAR sem hefur UKAS faggildingu. Vottunarstofan varð fyrir valinu að undangengnu mati á fimm vottunarstofum hérlendis sem og erlendis. Matið byggðist á gæðum, vottunum og verði.