Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Höfundur myndar: Ólafur Arnar Jónsson

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra opnaði Surtseyjarstofu í Vestmannaeyjum í dag. Surtseyjarstofa er gestastofa fyrir friðlandið Surtsey. Þar er að finna fróðleik um friðlandið og heimsminjasvæðið Surtsey, skrifstofu Umhverfisstofnunar í Vestmannaeyjum og Surtseyjarsýning sem byggð er á sýningu Náttúrufræðistofnunar Íslands frá árinu 2007.

Surtsey var friðlýst árið 1965 í þágu rannsókna og náttúruverndar á meðan eldvirkni var enn í gangi. Markmið friðlýsingarinnar var að tryggja náttúrulega þróun eyjarinnar án áhrifa mannsins og ber vott um mikla framsýni stjórnvalda á þeim tíma. Í nær hálfa öld hefur vísindamönnum gefist einstakt tækifæri til að fylgjast með myndun og mótun Surtseyjar, landnámi dýra og plantna, þróun lífríkis og vistkerfa. Vöktun og rannsóknir vísindamanna, ásamt friðun eyjarinnar, hafa gert Surtsey einstaka á heimsvísu og í júlí 2008 var hún skráð á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna.

Umhverfisstsofnun hefur umsjón með friðlandinu og Surtseyjarstofu. Surtsey var tilnefnd á heimsminjaskrána á árinu 2007, en þá voru jafnframt liðin 40 ár frá því að Surtseyjareldum lauk. Af því tilefni setti Náttúrufræðistofnun Íslands upp sýningu í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík og nefndist hún „Surtsey - jörð úr ægi“. Sýningin byggði á rannsóknum og gagnasöfnun vísindamanna frá upphafi Surtseyjarelda 1963 til ársins 2006. Sýningin hefur nú verið flutt heim til Vestmannaeyja og aðlöguð að sýningarrými Surtseyjarstofu.

Í Surtseyjarstofu er hægt að nálgast allar fáanlegar upplýsingar um Surtseyjargosið, landmótun og þróun lífs í eyjunni. Vestmannaeyjar eru þekktar fyrir einstakt náttúrufar og í Surtseyjarstofu geta innlendir og erlendir ferðamenn jafnt og skólanemar á öllum aldri kynnst einstakri myndunarsögu eyjanna og náttúrufari í Surtsey.