Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Höfundur myndar: Guðrún Lára Pálmadóttir

Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir staðfesti verndaráætlun þjóðgarðsins Snæfellsjökuls með undirritun þann 15. júní og opnaði við sama tækifæri Undirheima Vatnshellis.

Verndaráætlun

Markmið verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn Snæfellsjökul er að tryggja vernd náttúru- og menningarminja. Í þessu felst m.a. að náttúra þjóðgarðsins fái að þróast eftir eigin lögmálum eins og kostur er um leið og almenningi er gert kleift að njóta þess sem svæðið hefur upp á að bjóða. Fleiri ferðamönnum fylgir aukið álag á náttúruna og eykur það þörfina á skipulagi vegna verndunar innan þjóðgarðsins.

Vatnshellir

Vatnshellir er í suðurhlíðum Purkhólahrauns. Hellirinn er um 100 m að lengd og er hátt til lofts og vítt til veggja. Þjóðgarðurinn hefur unnið að því í samstarfi við sjálfboðaliða að bæta aðgengi að hellinum s.l. vetur og í vor. Skýli hefur verið byggt yfir opið niður í hellinn og hringstigi lagður niður. Með skýlinu er komið í veg fyrir að snjór safnist fyrir op hellisins og jafnframt gert kleift að loka hellinum en umferð um hann verður aðeins leyfð með leiðsögn. Er það gert til að vernda hellinn sem best og koma í veg fyrir frekari skemmdir á honum

Fjölmargir hafa lagt á sig ómælda sjálfboðavinnu við framkvæmdirnar en hugmyndasmiður verkefnisins er Árni B. Stefánsson hellakönnuður sem ásamt Hjörleifi Stefánssyni arkitekt ýtti verkinu úr vör og kveikti áhuga heimafólks á því. Meðlimir í Lionsklúbbi Nesþinga ásamt fleirum hafa unnið við hellinn en Umhverfisstofnun og Snæfellsbær hafa lagt fjármuni í verkið.

Fastar ferðir með leiðsögn landvarða verða á miðvikudögum, laugardögum og sunnudögum kl. 14 og þarf að skrá sig í ferðirnar á Gestastofu þjóðgarðsins í síma 436 6888, netfang snaefellsjokull@umhverfisstofnunt.is en takmarkaður fjöldi fer niður í hellinn samtímis.