Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Höfundur myndar: Ólafur A. Jónsson

Akstur utan vega virðist vera vaxandi vandamál á Íslandi. Margbrotin náttúra Íslands, sem er lítt snortin miðað við mörg þéttbýlli ríki, er eitt helsta aðdráttarafl þeirra sem ferðast um landið. Landið er víða viðkvæmt fyrir ágangi og gáleysislegur akstur getur valdið skemmdum á náttúrunni sem eru ár eða jafnvel áratugi að jafna sig.

Umhverfisráðuneytið hefur unnið aðgerðaráætlun gegn akstri utan vega til þriggja ára, undir heitinu Ávallt á vegi.

Utanvegaakstur er náttúruverndarmál. Skemmdir á landinu eyðileggja upplifun okkar af náttúrunni og rýra framtíðarmöguleika okkar á nýtingu landsins t.d. í ferðaþjónustu. Markmið átaksins er að draga úr náttúruspjöllum af völdum utanvegaakstri. Lagt verður í aukna vinnu á næstu árum til að sporna gegn akstri utan vega, m.a. með eftirfarandi aðgerðum:

  • Lagaramminn verður endurskoðaður og gerður skýrari
  • Merking leiða utan hins hefðbundna vegakerfis verður bætt
  • Ráðist verður í lagfæringar á skemmdum
  • Löglegir vegir verða rétt skráðir á opinberum kortagrunnum, sem auðvelt verður að nálgast
  • Unnið verður að lokun ósamþykktra slóða
  • Leitað verður leiða til að bæta aðstöðu fyrir vélhjólafólk og akstursíþróttir
  • Eftirlit verður hert, sérstaklega á viðkvæmum svæðum
  • Átak verður gert í fræðslu, m.a. fyrir unga ökumenn og ferðamenn
  • Unnið verður með ferðaþjónustu og útivistarhópum til að skapa aukna sátt um umferð útivistarfólks

Töluvert er um skemmdir í nágrenni höfuðborgarinnar s.s. á Reykjanesskaganum og á  Hengilsvæðinu. Að Fjallabaki, á Snæfellsnesi, Héraðssandi og víðar eru svæði þar sem slæm för eftir utanvegaakstur sjást og  þarfnast lagfæringar. Vandinn nær einnig til viðkvæmra svæða sem fáir sækja heim og í fyrra var t.d. akstur utan vega stöðvaður í Þjórsárverum.

Lagaramminn virðist ekki vera nægilega skýr. Í málum þar sem ákært hefur verið vegna utanvegaaksturs hafa dómstólar stundum talið ákvæði laga of óljós til sakfellingar. Refsingar eru of vægar að mati margra og virðast ekki hindra ítrekuð brot.

Landskemmdir vegna utanvegaaksturs eyðileggja upplifun ferðamanna og geta skert möguleika ferðaþjónustunnar. Ráðist verður í átak í lagfæringum á landskemmdum og hefst það á þessu ári.

Ferðamenn telja sig ekki alltaf örugga um að vera á löglegum vegi vegna skorts á merkingum og ónákvæmum kortum. Ábendingar um kort og kortagrunna sem innihalda villandi upplýsingar um vegi og slóða berast reglulega. Aðeins lítill hluti vega og slóða á hálendinu eru stikaðir.

Beina þarf fræðslu til sem flestra hópa. Vinna þarf fræðsluefni fyrir markhópa svo sem erlenda ferðamenn, ökunema, grunn- og framhaldsskólanema, félög jeppa- og vélhjólamanna, veiðimenn ofl. Samráðshópur um fræðslumál hefur starfað undanfarin misseri og m.a. gefið út bæklinga og fræðsluefni sem dreift er í bílaleigubíla. Skilti með upplýsingum um áhrif aksturs utan vega hafa verið sett upp þar sem ekið er inn á miðhálendið.

Auka þarf eftirlit með utanvegaakstri. Efla þarf skráningu tilvika til að glöggva sig frekar á umfangi vandans og hvernig miðar í viðleitni til úrbóta. Auka þarf fræðslu fyrir eftirlitsaðila s.s. lögreglu og landverði. Samræma þarf viðbrögð landvarða og lögreglu við brotum. Sérstaklega verður hugað að friðlýstum svæðum í því sambandi.

Bæta þarf aðstöðu vélhjólafólks til ferðalaga og akstursíþrótta og greina þarfir þeirra til að stunda sína útivist. Umhverfisstofnun og Landgræðsla geta veitt sveitarstjórnum ráðgjöf um hentug svæði fyrir akstursíþróttir. Þarfir útivistarhópa, s.s. göngufólks, hestamanna, vélhjólamanna og jeppamanna eru oft ólíkar og þarf að vinna með slíkum hópum og aðilum í ferðaþjónustu til að skapa aukna sátt um ferðaleiðir og útivist í anda náttúruverndar.

Ávallt á vegi - aðgerðaráætlun gegn akstri utan vega (pdf skjal)