Stök frétt

Höfundur myndar: r Jóhannesson - Nýsköpuna

Strax og umfang og eðli gossins í Eyjafjallajökli var ljóst ákvað Umhverfisstofnun að setja upp svifryksmæli á áhrifasvæði öskufalls og var hann settur upp við Hæðargarð rétt hjá Kirkjubæjaklaustri að kvöldi þann 16. apríl. Kirkjubæjarklaustur er nokkuð austan við mesta öskufallið og vitað var að hærri gildi myndu mælast nær Eyjafjallajökli og undir Eyjafjöllum. Tilgangur mælinga var að afla upplýsinga um loftgæði í útjaðri svæðis þar sem gætti beins öskufalls og að veita upplýsingar um loftgæði þar, og þar með að hluta til nær gosstöðvunum. Ástæður þess að tækið var ekki sett upp nær voru einkum óvissa um umfang öskufalls og áhrif þess á dýrt tækið, að sjá hversu langt áhrifin næðu, og að með mælingu þar mætti allavega segja að loftgæði væru verri nær.

Í lok apríl var mælirinn færður til Víkur í Mýrdal auk þess sem Umhverfisstofnun fékk lánaða tvo mæla til viðbótar, annars vegar mælistöð í eigu Kópavogsbæjar sem var sett upp við Heimaland suðvestan af gosstöðinni, og hins vegar færanleg mælistöð Reykjavíkurborgar sem var sett upp á Hvolsvelli. Fjórða mælistöðin er væntanleg til landsins og mun líklega verða staðsett við Raufarfell skammt austan við eldsstöðina en til bráðabirgða hefur verið settur þar upp gamall mælir sem ekki mælir rauntímagildi. Auk svifryks greinir stöðin við Heimaland fleiri loftmengunarefni, s.s. SO2 og H2S. Fylgjast má með mælingum við Heimaland og Vík í Mýrdal á slóðinni kort.vista.is. og á Hvolsvelli á slóðinni www.loft.rvk.is (færanleg mælistöð).

Auk framangreindra mælistöðva rekur Umhverfisstofnun tvær mælistöðvar í Reykjavík (sjá loft.ust.is), eina á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði og eina á Akureyri (þessar tvær eru ekki sem stendur beintengdar netinu). Einnig má sjá mælingar á styrk SO2 og H2S á Norðlingaholti og í Hveragerði (www.heilbrigdiseftirlitid.is) á vegum Orkuveitu Reykjavíkur.

Eftirfarandi er samantekt loftgæðamælinga Umhverfisstofnunar frá því að mælingar hófust 16. apríl til og með 16. maí 2010.

Sólahringsmeðaltöl á Hvolsvelli, Heimalandi og Vík í Mýrdal í maí hafa verið sem hér segir:

Dags.

Hvolsvöllur

Heimaland

Vík í Mýrdal

 

Sólarhringsmeðaltal (µg/m3)

Sólarhringsmeðaltal (µg/m3)

Sólarhringsmeðaltal (µg/m3)

1.maí

13

6

79

2.maí

13

7

84

3.maí

14

8

89

4.maí

5

4

-

5.maí

13

5

-

6.maí

22

18

418

7.maí

13

14

1226

8.maí

27

97

718

9.maí

-

45

63

10.maí

-

20

119

11.maí

11

23

799

12.maí

19

14

437

13.maí

6

5

457

14.maí

154

15

30

15.maí

481

407

174

16.maí

31

70

98

Heilsuverndarmörk eru miðuð við sólarhringsmeðaltalið 50µg/m3 en til viðmiðunar má nefna að Reykjavíkurborg hefur lýst loftgæðum þannig að ef sólarhringsmeðaltalið er undir 50µg/m3 þá eru loftgæði góð. Athuga þarf að einstök klukkutímagildi geta verið vel yfir 50µg/m3 jafnvel þó að sólahringsmeðaltalið nái ekki 50µg/m3. Ef mælingar eru 50 til 100µg/m3 þá eru loftgæðin miðlungs og einstaklingar með undirliggjandi hjarta- og/eða lungnasjúkdóma geta fundið fyrir einkennum en fari þau yfir 100 µg/m3 þá eru loftgæðin sögð léleg og heilbrigðir einstaklingar geta farið að finna fyrir einkennum þegar gildið fer yfir 150µg/m3.

Kirkjubæjarklaustur

Niðurstöður mælinga á Kirkjubæjarklaustri eru að þar var alla jafna styrkur svifryks um og undir 50µg/m3. Hins vegar komu fram þrír toppar sem settu sólarhringsgildin yfir 50 µg/m3 (heilsufarsmörk) í tvo daga.

1.   Fyrsti svifrykstoppurinn kemur á tímabilin milli kl. 6 og 8 þann 19. apríl. Þá er vindstyrkur u.þ.b 6m/sek. Hér er því um að ræða fok á ösku sem þegar hefur fallið.

2.   Næsti svifrykstoppur kemur einnig 19. apríl milli kl. 18 og 22 og er hér um að ræða hæsta mælda styrkinn.  Þá er vindstyrkur ríflega 11 m/sek. Aftur talin skýr merki um fok á ösku.

3.   Þriðji svifrykstoppurinn greinist að kvöldi 20. apríl.Vindur er mun hægari en í fyrri skiptin en samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu var öskufall á Kirkjubæjarklaustri á þessum tíma og mistur yfir. Hér er um að ræða bein áhrif af öskufalli.

4.   Athygli vakti að þann 21. apríl fór vindhraði upp í 10 m/sek, en því fylgdi ekki svifrykstoppur. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu var 1 cm jafnfallinn snjór yfir um morguninn og virðist hér vera áhrif þess að blotnað hefur í öskunni og hún ekki farið af stað þegar hreyfði vind.

Vík í Mýrdal

Fyrstu dagana í maí voru loftgæði miðlungs á Vík í Mýrdal en svifryk þá daga hefur einkum verið vegna uppfoks á ösku og saltagnir frá sjónum. Dagana 4.-5. maí var mælir á Vík bilaður en tókst að koma honum í lag seinnipartinn 5. maí. Öskufall var þó til staðar um morguninn og nokkuð öskufjúk fram eftir degi og loftgæði því ekki góð. Einnig var öskufall á fimmtudaginn 6. maí en á föstudaginn 7. maí voru mjög há gildi vegna öskufalls og fengust þá hæstu gildi sem mælst hafa á Íslandi. Daginn eftir var ástandið nokkuð skárra en þó langt yfir heilsuverndarmörkum. Ástandið hefur nánast haldist þannig að mestu síðan 8. maí að undanskildum þremur dögum, þá 9., 14., og 16. maí, en þá daga voru samt sem áður einstaka toppar sem voru vel yfir mörkunum. Hægt er að fylgjast með mælingum á Vík í Mýrdal á www.kort.vista.is.

Hvolsvöllur og Heimaland

Fram til 14. maí voru sólarhringsgildi á Hvolsvelli og Heimalandi að mestu undir heilsuverndarmörkum en þá var vindáttin þannig að mesta öskufallið var suðaustan af eldstöðinni.  Það sýnir að búast megi við ryktoppum jafnvel þótt vindur standi ekki beint af eldstöðinni. Aska sem hefur fallið áður fer að fjúka um leið og vind hreyfir að ráði.

 Föstudaginn, 14. maí var sýnilegt öskufall á Hvolsvelli. Fram eftir degi mældist engin hækkun á styrk svifryks þar sem það rigndi samfara öskufallinu. Svifrykið binst vatni (og þar af leiðandi rigningu) og hélt það svifrykinu niðri fram eftir degi sem leiddi til lægra gilda en ætla mátti. Þegar stytti upp og askan þornaði ruku mæligildi hins vegar fljótt upp. Daginn eftir (15. maí) mátti sjá hærri gildi enda var ekki rigning á svæðinu eins og daginn áður. Fylgjast má með mælingum frá Hvolsvelli á www.loft.rvk.is (merkt færanleg mælistöð).

 Laugardaginn 15. maí var öskufall í fyrsta skipti á Heimalandi eftir að mælingar hófust og þá voru gildin mun hærri en áður hafði verið á því svæði. Mælingar frá Heimalandi má einnig sjá á www.kort.vista.is.