Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur fengið svifryksmæli að láni frá Kópavogsbæ og var hann settur upp við Heimaland, rétt austan við Seljaland þann 30. apríl sl. Hér er um að ræða fullkomna mælistöð sem greinir styrk SO2, H2S, PM10 og PM2.5 í andrúmslofti.

Vegna öskufalls frá eldgosinu í Eyjafjallajökli hefur Umhverfisstofnun nú sett upp þrjá svifryksmæla í nágrenni öskufallssvæðanna. Á sumardaginn fyrsta var settur upp mælir í Vík í Mýrdal, daginn eftir var settur upp mælir á Hvolsvelli sem fenginn var að láni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og nú síðast mælistöð Kópavogsbæjar sem er við Heimaland eins og áður var sagt.

Niðurstöður loftgæðamælinga

Á Hvolsvelli hafa almennt mælst lág gildi, eða um 10µg/m3, en þó hefur áhrifa eldgossins gætt þar a.m.k. tvisvar. Aðfaranótt 24. apríl var nokkuð hár toppur sem rakinn var til öskufalls og annar toppur að kvöldi 27. apríl. Fylgjast má með mæligildum á http://www.loft.rvk.is merkt Færanleg mælistöð.

Svifryksmengun við Heimaland hefur einnig almennt verið lág frá upphafi mælinga og sólarhringsmeðaltöl eru langt undir heilsuverndarmörkum (50µg/m3). Lítið sem ekkert greinist þar af SO2 eða H2S. Sjá má mæliniðurstöður á vefslóðinni http://kort.vista.is merkt HHK færanleg umhverfisstöð.

Svifryksmengun er almennt hærri í Vík heldur en á Heimalandi og á Hvolsvelli, jafnvel þó ekki sé öskufall. Nokkuð er um fok á ösku þegar fer að hvessa en einnig mælast saltagnir í særoki sem svifryk og hluti þess sem er að mælast í Vík er líklega ættað úr hafinu. Til dæmis má nefna að um kl. 17 29. apríl greindist svifrykstoppur. Þá var hæg suðaustanátt, ekkert öskufall en allnokkurt brim. Telja má víst að mælirinn greini áhrif seltu. Loftgæði eru þó þokkaleg að undanskildum nokkrum toppum og þá geta einstaklingar með astma fundið fyrir einkennum. Fylgjast má með mæligildum á http://kort.vista.is.

Samantekt

Þeir mengunartoppar sem hafa mælst í Vík og á Hvolsvelli eru svipaðir og við Grensásveg í Reykjavík á þurrum vetrardögum í hægu veðri. Ekki hafa komið toppar þar sem ástæða hefur verið að nota grímu en þó er fólki sem viðkvæmt fyrir t.d. með öndunarfærasjúkdóma ráðlegt að vera ekki utandyra að nauðsynjalausu meðan topparnir ganga yfir.

Sólarhringsmeðaltöl svifryks í Vík, á Hvolsvelli og við Heimaland eru sem hér segir:

Dagsetning

Vík í Mýrdal

Sólarhringsmeðaltal (µg/m3)

Hvolsvöllur

Sólarhringsmeðaltal (µg/m3)

Heimaland

Sólarhringsmeðaltal (µg/m3)

23. apríl

62

-

-

24. apríl

95

173

-

25. apríl

73

39

-

26. apríl

42

7

-

27. apríl

112

48

-

28. apríl

42

12

-

29. apríl

56

8

-

30. apríl

54

9

-

1. maí

79

13

6

2. maí

84

13

7

3. maí

89

14

8