Stök frétt

Askja Mynd: Ronan Furuta á Unsplash

1. Umhverfisstofnun (áður Náttúruvernd ríkisins) og Ferðafélag Akureyrar hafa haft með sér samstarf til margra ára á svæðinu norðan Vatnajökuls. Samstarfið hefur jafnan gengið vel fyrir sig en á stundum, eins og eðlilegt er í samstarfi aðila, hefur verið áherslumunur varðandi starfsemina. Þegar slíkt kemur upp hafa mismunandi skoðanir verið ræddar og leiðir fundnar af stjórn Ferðafélagsins og forstöðumönnum ofangreindra stofnana.

2. Á síðasta ári fór spenna mjög vaxandi milli landvarða stofnunarinnar og stjórnarmanna Ferðafélags Akureyrar. Ágreiningurinn var margháttaður, en það hefur komið fram hjá yfirlandverði í tengslum við þetta mál að hún hafi talið að verklag ætti að vera með öðrum hætti en hún var ráðin til. Svo langt gekk að yfirlandvörður endursendi verklýsingar þær sem Ferðafélag Akureyrar hafði látið landvörðum í té til leiðbeiningar, að ósk forstöðumanns Náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar, með þeim orðum að þeir væru starfsmenn Umhverfisstofnunar en ekki Ferðafélagsins. Forstöðumaður Náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar gaf yfirlandverði munnleg fyrirmæli um að henni og öðrum landvörðum bæri að fylgja verklagsreglum sem fram voru settar og allan ágreining ætti að bera undir hann í stað þess að landverðir væru að deila við Ferðafélag Akureyrar, en það gekk því miður ekki eftir.

3. Þann 18. febrúar héldu stjórn Ferðafélags Akureyrar og Umhverfisstofnun fund til að ræða samskiptin og þá árekstra sem komið höfðu fram á síðasta sumri. Á þeim fundi var það samdóma álit að samskiptin gætu ekki gengið fram með þeim hætti sem verið hafði. Á nefndum fundi setti Ferðafélag Akureyrar fram ósk um að þeir starfsmenn sem unnið höfðu á umræddu svæði síðasta ár myndu ekki vinna þar áfram. Á sama fundi upplýsti Umhverfisstofnun að hún myndi halda áfram með þá vinnu sem hafin var á árinu 2003 við að færa ákvörðun um ráðningu landvarða á þeim svæðum sem næst eru þjóðgörðunum til þjóðgarðsvarða. Ferðafélag Akureyrar óskaði eftir að fá að vera með í starfsviðtölunum vegna landvörslu í Herðubreiðarlindum og Öskju og var það samþykkt. Starfsmenn voru ráðnir samkvæmt tillögu þjóðgarðsvarðar án athugasemda forstöðumanns eða forstjóra.

4. Fánamálið: Árið 2002 drógu landverðir Náttúruverndar ríkisins fána í hálfa stöng í Herðubreiðarfriðlandi og ríkissjónvarpið sagði frá því í fréttum. Þáverandi forstjóri Náttúruverndar ríkisins gerði strax athugasemd við yfirlandvörð og minnti hana á þá starfskyldu að draga ætíð upp fána að húni og að taka ekki þátt í mótmælum í nafni stofnunarinnar. Haustið 2002 var farið yfir málið á fundi sem stofnunin hélt með landvörðum og lögð áhersla á að starfsmönnum beri að sinna starfsskyldum og taka ekki þátt í mótmælum í nafni stofnunarinnar. Sumarið 2003 reistu starfsmenn eigin fánastöng og drógu fána í hálfa stöng. Umhverfisstofnun hafði ekkert við það að athuga meðan ljóst var að starfsmenn væru að gera slíkt í eigin tíma, í eigin nafni og sem einstaklingar, samhliða því að þeir uppfylltu þær starfsskyldur sínar að draga fána á starfsstöðvum stofnunarinnar að húni. Hið síðastnefnda var ekki gert og yfirlandvörður fór í viðtal við sjónvarpið, kynnt sem yfirlandvörður og starfsmaður Umhverfisstofnunar. Í framhaldi af fréttinni var yfirlandverði sent bréf og henni boðið að tjá sig um atburðinn og koma með skýringar á honum. Stofnunin lauk málinu síðan gagnvart yfirlandverði með þeim orðum að háttalag yfirlandvarðar hafi verið ámælisvert og ósamrýmanlegt starfi því sem hún hafði með höndum. Stofnunin taldi hins vegar m.a. með hliðsjón af því að þrátt fyrir að starfsreglur hafi verið ákaflega ljósar að hennar mati mætti líta á háttalagið í ljósi þess að viðkomandi starfsmaður hefði getað misskilið þær. Viðkomandi starfsmaður var því ekki áminntur. Í raun var í ljósi forsögunnar beitt vægustu úrræðum sem unnt er að beita í máli sem þessu. Í framhaldi af málinu hafa verið unnar skýrari starfsreglur þannig að ljóst sé hverjar starfsskyldur landvarða eru. Fánamálinu er lokið af hálfu Umhverfisstofnunar og það sneri eingöngu að starfsmanni sem gegndi starfi yfirlandvarðar enda aðrir ekki málsaðilar. Hið svokallaða fánamál var að sönnu hluti af þeim ágreiningi sem upp kom í friðlandinu milli Ferðafélagsins, Umhverfisstofnunar og landvarða en sneri ekkert að þeim landverði sem fékk ekki vinnu.

5. Árið 2003 voru fimm starfsmenn í Herðubreiðafriðlandi og Öskju. Þrír sóttu um vinnu hjá stofnuninni og tveir voru ráðnir og vísast þar til þess að það eru þjóðgarðsverðir sem sjá um val á starfsmönnum á svæðin næst þjóðgörðunum og fagstjóri á skrifstofu í Reykjavík gerir tillögur um starfsmenn á öðrum svæðum.

6. Líkt og sjá má að ofan snýst málið um með hvaða hætti stjórnendur Umhverfisstofnunar og Ferðafélags Akureyrar sem eru í samstarfi taka á ágreiningi og hvernig þeir ætla að reyna að leysa samskiptamál. Stjórnendur verða að hafa þann rétt að geta valið saman starfmenn sem þeir telja að að unnið geti sem hópur. Ennfremur er það sjálfssögð skylda starfsmanna að fylgja þeim starfsreglum sem þeim eru settar. Allt tal um skoðanakúgun er gjörsamlega út í hött eins og berlega kemur fram í gögnum málsins.

 

Reykjavík 26. maí 2004.

Davíð Egilson                  Árni Bragason