Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Mynd: Natalia Arkusha

Í lok ágúst fann Brynja Jóhannsdóttir, meinatæknir, haustlyng (Erica tetralix L.) á Felli í Mýrdal. Þetta er óneitanlega all merkur fundur, ekki síst fyrir þær sakir, að þessarar tegundar er getið í gömlum plöntuskrám frá Íslandi.

Í grasasafni háskólans í Kaupmannahöfn er eitt eintak af haustlyngi, sem er merkt frá Íslandi og þar stendur, að Thorarensen hafi safnað. Engar frekari upplýsingar eru á örkinni og því hefur verið talið, að hér sé um einhvern misskilning að ræða. Umrætt eintak er um 30 cm á hæð, og er greinilega afskorið neðst í sverði.

Enda þótt plantan sé tæpir 30 cm á hæð, er líklegt, að plantan hafi ekki risið nema um 15-20 cm frá jörðu eftir vaxtarlagi að dæma eða verið álika há og eintökin í Mýrdal.

Enn hefur hvorki tekizt að rekja, hver þessi Thorarensen var né hvort plantan sé frá Íslandi. Þá er alveg ókannað, hvort þessi maður hafi safnað fleiri plöntum, en ef svo væri, gæti það gefið hugmynd um hvar hann hefði fundið haustlyngið. Sennilegt er, að eintakinu hafi verið safnað einhvern tíma í upphafi nítjándu aldar, því að plöntunnar er getið í skrá frá 1820 (Mörch 1820).

Ýmsum ráðum er unnt að beita til þess að komast að því, hvort plantan hafi vaxið á Íslandi. Meðal annars á eftir að athuga, hvort einhverjar jarðvegsagnir loði við plöntuna, en þær gætu gefið sterka vísbendingu um uppruna hennar.

Heimild: Ágúst H. Bjarnason