Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Hrafna-Flóki og Flókatóftir

Samkvæmt Landnámabók var Flóki Vilgerðarson fyrstur norrænna manna sem hafði vetursetu á Íslandi og þar er honum lýst sem miklum víkingi frá Noregi. Flóki kom í leit að landi sem hann hafði haft spurnir af og var kallað Garðarshólmi. Í Landnámu segir að Flóki hafi haft með sér þrjá hrafna í ferðina sem hann sendi upp af skipi sínu til að gá til lands. Sá fyrsti sem hann sleppti flaug aftur fyrir skipið, annar flaug upp og settist aftur á skipið en sá þriðji hefur séð til lands því hann flaug áfram og fylgdi Flóki átt hans til lands. Flóki var síðar kenndur við hrafna sína og kallaður Hrafna- Flóki.

Samkvæmt sögunni tók Hrafna-Flóki land í Vatnsfirði við Barðaströnd og var lengi talið að hann hafi búið þar sem nú eru Flókatóftir rétt ofan við höfnina á Brjánslæk, utan friðlands. Landnáma segir að Vatnsfjörður hafi á þessum tíma verið fullur af fiski. Flóki og menn hans voru svo uppteknir af veiðum að þeir öfluðu ekki heyja fyrir fé sitt og það drapst því allt um veturinn. Um vorið gekk Flóki upp á fjall eitt og er hann sá norður yfir fjöllin sá hann fjörð fullan af hafís og kallaði hann því landið Ísland sem það hefur síðan heitið. Heimamenn hafa lengi talið að það fjall sé hugsanlega Lónfell. Flóki hélt aftur til Noregs eftir einn vetur í Vatnsfirði og annan í Borgarfirði.  Á Hrafna-Flóki svo að hafa snúið aftur til Íslands og sest að í Skagafriði.

Ef sagan af Flóka í Landnámu er sönn er talið líklegt að hann hafi verið í Vatnsfirði á milli áranna 860-870. Á Flókatóftum er að finna nokkrar rústir og aldursgreiningar Minjastofnunar hafa leitt í ljós að þær eru frá mismundandi tímum. Elsta rústin er frá síðari hluta 9. aldar og passar við þann tíma sem Landnáma segir að Flóki hafi haft vetursetu á þessum slóðum. Flókatóftir voru friðlýstar árið 1930. Þær eru mjög áhugaverður staður að skoða og sjást minjar vel.

Um aldamótin 1900 gróf Snæbjörn Kristjánsson í Hergilsey í tvær dysjar nálægt Brjánslækjarhöfn. Snæbjörn var áhugamaður um dysjar og hauga og leitaði þær uppi áður en lög um fornmenjar tóku gildi árið 1907. Snæbjörn taldi að dysjarnar væru frá tíð Hrafna-Flóka en hann var ekki fræðimaður og er því alls óvíst um aldur þeirra. Í Sögu Snæbjarnar í Hergilsey (útg. 1958) segir svo frá dysjunum við Brjánslækjarhöfn:

Það var eitt sinn um aldamótin, að ég kom að Brjánslæk sem oftar og lenti í Þrælavogi, sem liggur austan við Flókagrundina. Sá ég þá á örlitlu nesi á milli vogsins og grundarinnar tvær uppmjóar þúfur skammt frá mér, og gekk ég þangað. Voru það fornaldardysjar, en svo voru þær uppblásnar, að á hleðslurnar sást sums staðar, var stærri þúfan við höfðalag stærri dysjarinnar, er sneri frá austri til vesturs, þvert á móti því sem nú er grafið í kirkjugörðum. Nú stakk ég ofan af dysinni og kom þegar að hellulaginu; var svo stór hella yfir brjóstinu, að á báða vegu nam hún fullri alin og beit þannig fast út í hleðslurnar, en hellurnar til höfða og fóta námu mér í hné og miðja kálfa. Hinar hellurnar voru heldur litlar og sáust leifar af árefti. 

Ég gróf niður til höfða og fóta en fann ekkert annað en beinamold. En er ég tók upp helluna, sást beinagrindin frá mjöðmum upp að hálsi og ryðrönd niður með líkinu hægra megin; losnaði hún öll sundur, þá er hreyft var og líkast sem skálm hefði verið en ekki sverð, því að hvergi sást votta fyrir hjöltum. En beinin urðu að dufti einu á milli fingra minna. Vottur af birkikolum sást á botninum undir líkinu, en lítið var það, enda hef ég ekki fundið viðarkol í dysjum nema sums staðar. Þegar dysin var fullgrafin, sýndi ég Bjarna prófasti Símonarsyni legstaðinn og þótti honum vandlega um búið. Við töluðum um stærð haugbúans, og kvað ég hann hafa verið á stærð við mig, freklega meðalmann. Þá lagði ég mig niður í dysina, og var hún að öllu hæfileg, því að þegar ég hafði höfuðið fast við höfðahelluna og tærnar beint upp, komu þær hvergi við, en þegar ég rétti fótinn, námu tærnar við helluna. Álitum við því að hér væri um jafnháa menn að ræða. 

Ætla mætti að dysin hefði gengið saman; en svo var ekki, því að undirstöðusteinarnir höfðu verið svo vel felldir saman, að hver beit í annan, en hefði svo verið, þá átti höfða og fótahella að hallast inn í dysina.  Svo var ekki; þær voru lóðréttar og höfðu ekki hreyfzt. 

Hin dysin var lítil, sem fyrir barn væri; henni hreyfði ég ekki við. Við höfðalag var lítil þúfa, og voru báðar þúfurnar að lagi sem sykurtoppar væri og auðsæ grafarmerki. Kom okkur saman um að dysjarnar væru frá tíð Hrafna-Flóka, sem var á Brjánslæk í heilt ár, eftir því sem bezt verður rakið. 

Minnisvarða um Hrafna-Flóka Vilgerðarson sem reistur var af Barðstrendingafélaginu þjóðhátíðarárið 1974 má finna við Hótel Flókalund þar sem útsýni yfir fjörðinn er fagurt.