Umhverfisstofnun var lögð niður 31. desember 2024. Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi.

Haförninn

Haförninn (Haliaeetus albicilla), einn stærsti fugl í Norður-Evrópu er kominn aftur. Saga arnarins er gott dæmi um að með verndar-aðgerðum má bjarga tegundum frá útrýmingu. Fyrir 200 árum verpti haförninn víðs vegar um Vestur-Evrópu, en í lok 19. aldar hvarf hann vegna ofsókna. Um miðja 20. öld var erninum aftur næstum útrýmt og þá í Norður-Evrópu og stafaði það aðallega af uppsöfnun og notkun eiturefna í umhverfinu.

Útrýming hafarnarins á 19. öld og á fyrri hluta 20. aldar var að öllu leyti af mannavöldum. Fram til ársins 1905 voru greidd verðlaun fyrir að skjóta haförn á Íslandi og í Noregi var það gert allt fram á sjöunda áratuginn. Á Íslandi drapst örninn einnig vegna þess að hann át eitruð hræ sem lögð voru út til að eyða refum. Árið 1964 voru þessar aðferðir bannaðar og varð það erninum til lífs.

Upplýsingablað um haförninn