Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Losun þrávirkra lífrænna efna (POPs)

Photo by Jeremy Goldberg on Unsplash

Á Íslandi losna þrávirk lífræn efni (POP, persistent organic pollutants) aðallega við bruna á úrgangi, bruna á eldsneyti og vegna framleiðsluiðnaðar. Ísland hefur skuldbundið sig til að draga úr losun á eftirfarandi þrávirkum lífrænum efnum:

  • Díoxín/fúrön – PCDD/PCDF
  • Fjölhringja arómatísk vetniskolefni – PAH4 o Benzo(a)pyrene – B(a)po Benzo(b)fluoranthene – B(b)f o Benzo(k)fluoranthene – B(k)f o Indeno(1,2,3-cd)pyrene – IPy
  • Hexaklóróbensen – HCB
  • Pólíklórbífenýlsambönd – PCBs

Díoxín/fúran - PCDD/PCDF

Losun á díoxíni/fúrani á Íslandi hefur dregist saman um meira en 90% frá árinu 1990. Ástæðan er að mestu minnkun á opnum bruna á úrgangi frá 1990-2004. Losun díoxíns á Íslandi er fyrst og fremst frá eftirfarandi uppsprettum:

  • Bruni sóttnæms sjúkrahússúrgangs og opinn bruni á úrgangi: Miklar breytingar hafa orðið á meðhöndlun úrgangs frá árinu 1990. Er það ein helsta ástæðan fyrir miklum samdrætti í losun á tímabilinu. Það sem hefur haft mest áhrif á díoxínlosunina frá úrgangi er eftirfarandi:

                - Opinn bruni á úrgangi sem var algengur utan höfuðborgarsvæðisins hefur dregist saman. Nú á opinn bruni á úrgangi sér varla stað. Síðasta staðnum með opnum bruna var lokað árið 2010.

                - Undanfarin ár hefur smærri brennslustöðvum verið lokað. Nú er einungis ein stærri sorpeyðingarstöð starfrækt.

                - Losun frá áramótabrennum hefur farið minnkandi síðan 1990 þar sem færri brennur eiga sér stað og eftirlitið með þeim er betra. Leiðbeiningar um brennur frá árinu 2000 fela í sér takmörk á stærð, brennslutíma og efnisnotkun.

                - Heildarmagn úrgangs sem er brenndur hefur minnkað.

  • Rafmagn og húshitun: Bruni á sorpi til varmamyndunar viðgekkst á árunum 1993-2012 með tilheyrandi díoxínlosun. Aðrar uppsprettur innan orkugeirans undanfarin ár eru fólksbílar og fiskiskip en sú losun fer minnkandi.
  • Málmiðnaður: Losun frá málmiðnaði hefur aukist yfir tímalínuna og er nú ein stærsta uppspretta díoxínlosunar á Íslandi. Hafa ber þó í huga að heildarlosun díoxín er mun lægri en hún var í upphafi tímabilsins.
 

Fjölhringja arómatísk vetniskolefni - PAH4

Losun PAH4 (samheiti yfir BaP, BbF, BkF, og IPy) hefur dregist mikið saman frá 1990. Samdráttinn má að mestu rekja til fækkunar sorpbrennslustöðva og hertari reglna um sorpbrennslu. Losun PAH4 á Íslandi er fyrst og fremst frá eftirfarandi uppsprettum:

  • Opinn bruni á úrgangi: Mikill samdráttur hefur orðið á PAH4 losun frá opnum bruna á úrgangi þar sem eldri brennslustöðvum og opnum brunastöðvum hefur verið lokað. Sjá nánar í umfjöllun fyrir ofan um losun díoxíns.
  • Málmiðnaður: Frá árinu 1990 hefur PAH4 losun frá iðnaði aukist vegna meiri framleiðslu, hvort tveggja á áli og járnblendi.
  • Vegasamgöngur: Losun PAH4 frá vegasamgöngum hefur meira en tvöfaldast frá árinu 1990 vegna aukins kílómetrafjölda í akstri og þar með aukinni eldsneytisnotkun.
  • Eldsvoðar: Losunin hefur haldist nokkuð stöðug yfir tímalínuna en sveiflast í takt við fjölda eldsvoða ár hvert.
  • Steinefnaiðnaður: Talsverð PAH4 losun átti sér stað vegna sementsframleiðslu við bruna á kolum þar til framleiðslu var hætt árið 2012.
 

Hexaklóróbensen - HCB

Losun HCB hefur sveiflast töluvert frá 1990. Flest ár frá 1990 voru flugeldrar stærsta uppspretta HCB losunar á Íslandi. Hertar reglur varðandi magn HCB í flugeldum hafa leitt til mikils samdráttar í losun frá 2012. Losun HCB á Íslandi er fyrst og fremst frá eftirfarandi uppsprettum:

  • Flugeldar: Ein stærsta uppspretta HCB losunar á Íslandi frá árinu 1990, þrátt fyrir að losunin einskorðist við áramót.
  • Bruni á sóttnæmum sjúkrahúsúrgangi: Bruni sóttnæms sjúkrahússúrgangs er helsta uppspretta HCB losunar á Íslandi undanfarin ár.
  • Fiskiskip: Samdráttur í losun er að mestu vegna minni eldsneytisnotkunar fiskiflotans. Losun jókst þó á tímabilinu 1990-1996 þar sem hluti flotans sigldi óvenjulangt til veiða. Frá árinu 1996 hefur losun farið minnkandi með sveiflum sem endurspeglast í breytingum á aflamagni, fiskistofnum og öðrum náttúrulegum þáttum ásamt endurnýjun skipa og bættri orkunýtni.
  • Álframleiðsla: Aðaluppspretta HCB losunar í iðnaði var sementsframleiðsla til ársins 2004, þegar verksmiðja sem endurvinnur ál tók til starfa. Tekið skal fram að HCB losun er einungis reiknuð fyrir endurvinnslu áls, ekki aðra álframleiðslu þar sem losunarstuðlar eru ekki fáanlegir fyrir þá framleiðslu.
  • Opinn bruni á úrgangi: Mikill samdráttur hefur verið á HCB losun frá opnum bruna á úrgangi þar sem eldri brennslustöðvum og opnum brunastöðvum hefur verið lokað. Sjá nánar í umfjöllun fyrir ofan um losun á díoxíni.

 

Pólíklórbífenýlsambönd - PCB

Losun PCB hefur dregist verulega saman frá 1990. Samdráttinn má að mestu rekja til fækkunar sorpbrennslustöðva og hertari reglna um sorpbrennslu. Losun PCB á Íslandi er fyrst og fremst frá eftirfarandi uppsprettum:

  • Bruni á sóttnæmum sjúkrahúsúrgangi: Bruni úrgangs er helsta uppspretta PCB losunar á Íslandi undanfarin ár, þar sem losun annarra flokka hefur dregist mikið saman.
  • Fiskiskip: Losun hefur sveiflast til í samræmi við sveiflur í aflamagni, fiskistofnum og öðrum náttúrulegum þáttum ásamt endurnýjun skipa og bættri orkunýtni. Mikill munur er á losun PCB eftir því hvort skipaolía eða svartolía er notuð. Notkun svartolíu á fiskiskip hefur verið bönnuð frá upphafi árs 2020 og við það lækkaði PCB losun frá fiskiskipum mikið. Nú eru fiskiskip næststærsta uppspretta PCB losunar.
  • Opinn bruni á úrgangi: PCB losun frá opnum bruna á úrgangi var ráðandi þáttur í losun árið 1990. Opinn bruni á úrgangi viðgekkst til ársins 2010, þó hann hafi verið mjög lítill frá 2004. Þá opnaði sorpeyðingarstöð sem skýrir minni losun frá 2004.
  • Steinefnaiðnaður: Talsverð PCB losun átti sér stað vegna sementsframleiðslu við bruna á kolum þar til framleiðslu var hætt árið 2012.
  • Hitaveitur: Hitaveitur sem nýttu sorpbrennslu sem orkugjafa voru starfræktar milli 1993 og 2013 sem leiddi til töluverðrar losunar.