Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Framkvæmd og skipulagning vöktunar

Helsti tilgangur vöktunar vatnshlota samkvæmt stjórn vatnamála er að afla gagna til að meta ástand þeirra. Í tilfelli yfirborðsvatnshlota skal meta efnafræðilegt og vistfræðilegt ástand. Í tilfelli grunnvatnshlota er efnafræðilegt ástand og magnstaða metin. Mikilvægt er að vakta þá gæðaþætti sem samþykktir hafa verið til að segja til um ástand vatnsins samkvæmt lögum um stjórn vatnamála.

Þegar hefja á starfsemi eða framkvæmdir skal gera áhrifamat á vatnshlot og skipuleggja vöktun þess í kjölfarið.

Skipulagning vöktunar

Við skipulagningu vöktunar er mikilvægt að þekkja áhrif starfsemi eða framkvæmda á vatnshlot. Tíðni vöktunar, val á vöktunarstöðum og val á gæðaþáttum þarf að vera í samræmi við þau áhrif sem vænta má.

Gera þarf staðbundnar vöktunaráætlanir fyrir hvert vatnshlot sem á að vakta. Í lýsingunni skulu vera upplýsingar um vatnshlotið sem á að vakta:

  • Heiti og númer vatnshlots
  • Umhverfismarkmið vatnshlotsins
  • Hver framkvæmir sýnatökuna
  • Dagsetning sýnatöku
  • Í hvaða tilgangi vöktun fer fram
  • Hvaða gæða- og matsþættir eru vaktaðir
  • Yfirlitsmynd yfir vöktunarsvæði og vöktunarstaði
  • Listi yfir sýnatökustaði hnitsettir með WGS84 (sama og Google map notar)
  • Fjölda sýnatökustöðva
  • Fjöldi sýna
  • Tíðni vöktunar
  • Ýmis ítaratriði (ljósmyndir, lýsing á aðstæðum, veðuraðstæður osfrv.)
  • Hvert niðurstöðum vöktunar er skilað

Leiðbeiningar við sýnatökur

Við vöktun vatnshlota er mjög mikilvægt að:

  • Notast sé við viðurkennda aðferðafræði við alla framkvæmd vöktunar.
  • Fylgja þeim leiðbeiningum sem hafa verið gefnar út.

Þannig er hægt að tryggja áreiðanleika gagna og samanburðarhæfni niðurstaðna. Leiðbeiningar við sýnatökur eru byggðar á samevrópskum stöðlum og hafa verið aðlagaðar að íslenskum aðstæðum.

Hér fyrir neðan eru leiðbeiningar sem nota skal við sýnatökur á líffræðilegum og eðlisefnafræðilegum gæðaþáttum strandsjávar, straumvatna og stöðuvatna. Athugið að samskonar sýnatökuaðferðir er hægt að nota fyrir sýnatökur í árósavatni.

Kynning um stjórn vatnamála og tilgangi vöktunar vegna laga um stjórn vatnamála (fræðslufundur haldinn í maí 2023)

Kynning á ástandsflokkun vatnshlota (fræðslufundur haldinn í maí 2023)

Leiðbeiningar um sýnatökur á liffræðilegum og eðlisefnafræðilegum gæðaþáttum í strandsjó ásamt upptökum af fræðslufundi

  • Leiðbeiningar um söfnun sýna til mælinga á blaðgrænu a og næringarefnum í sjó
  • Leiðbeiningar um söfnun sýna til greininga á botnlægum sjávarhryggleysingjum á mjúkum botni
  • Leiðbeiningar fyrir vettvangskönnun á botnþörungum á hörðum botni í strandsjó

Leiðbeiningar um sýnatökur liffræðilegum og eðlisefnafræðilegum gæðaþáttum í straum- og stöðuvötnum

  • Leiðbeiningar um söfnun vatnssýna og mælingar með handmælum á eðlisefnafræðilegum gæðaþáttum í straum- og stöðuvötnum
  • Leiðbeiningar um söfnun sýna til greininga á hryggleysingjum og söfnun á púpuhömum rykmýs í straum- og stöðuvötunu
  • Leiðbeiningar um söfnun sýna til mælinga á blaðgrænu a í straum- og stöðuvötnum, auk mælinga á blaðgrænu a með handmæli
  • Leiðbeiningar fyrir gróðurkönnun í stöðuvötnum

Leiðbeiningar um sýnatökur forgangsefna í vatni

Leiðbeiningar um eftirlitsmælingar og vöktun vegna fráveitu