Viðunandi hreinsun

Notast skal við viðunandi hreinsun þegar þéttbýli losar:

  • Minna en 2.000 pe. í ferskvatn og ármynni.
  • Minna en 10.000 pe. í strandsjó.

Með hreinsun skólpsins skal tryggt að viðkomandi svæði uppfylli umhverfismörk og gæðamarkmið sem um það gilda í stað losunarmarka sem gilda fyrir skólplosun fyrir þéttbýli yfir þessum mörkum. Viðunandi hreinsun getur verið allt frá grófhreinsun til ítarlegrar hreinsunar eftir því hversu viðkvæmur viðtakinn er.

Hreinsunarkröfur

Í fylgiskjali 1.A. eru sett fram gæðamarkmið sem fara skal eftir til að draga úr mengun vegna losunar á skólpi. Kröfur þessar eiga alltaf við þegar um er að ræða losun um útrásir í viðtaka. Um er að ræða einu hreinsunarkröfur sem settar eru fram fyrir viðunandi hreinsun skv. reglugerð en heilbrigðisnefnd getur sett frekari kröfur í starfsleyfi þurfi slíkt.

Fyrrnefnd gæðamarkmið eru þau að við útrásir þar sem fráveituvatn er leitt í viðtaka sem ekki njóta sérstakrar verndar skuli hvergi vera:

  • Set eða útfellingar.
  • Þekjur af rotverum (bakteríur og sveppir).
  • Olía eða froða.
  • Sorp eða aðrir aðskotahlutir.
  • Efni sem veldur óþægilegri lykt, lit eða gruggi.

Hér þarf því hreinsun á fráveituvatni sem í það minnsta kemur í veg fyrir að framangreindir þættir séu losaðir út í viðtakann og gætu safnast þar upp. Hér væri því eðlilegt að beita a.m.k. grófhreinsun þar sem úrgangur og annað væri síað frá.