Stök frétt

Tillaga að breytingu á starfsleyfi urðunarstaðar við Bakkafjörð 


Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir Laxa fiskeldi ehf. sem byggð á matsskýrslu frá 2018 um viðbótar-ársframleiðslu Laxa fiskeldis ehf. á allt að 10.000 tonnum af laxi í sjókvíum í Reyðarfirði. Um er að ræða viðbót við núverandi starfsemi fyrirtækisins í firðinum en á nýjum svæðum utar í firðinum.

Í tillögunni kemur fram að heimilað verði að framleiða allt að 3.000 tonnum af laxi og að hámarki séu 3.000 tonn af lífmassa á hverjum tíma á þeim eldissvæðum sem leyfið fjallar um. Áhættumat Hafrannsóknastofnunar vegna erfðablöndunar leiddi til breytingar á umsókninni og því snýr þessi auglýsing að framleiðslu á allt að 3.000 tonnum á ári af laxi en ekki allt að 10.000 tonnum.

Upphaflega umsóknin er frá árinu 2017 en breytt umsókn var send Umhverfisstofnun þann 30. janúar 2019.

Í umsögn Umhverfisstofnunar um frummatsskýrsluna, sem eins og áður segir, átti við um fyrirætlanir um allt að 10.000 tonna ársframleiðslu, taldi Umhverfisstofnun að burðarþol yrði innan þeirra marka sem sett eru sem forsenda fyrir metnu burðarþoli Reyðarfjarðar upp á 20.000 tonna hámarkslífmassa á hverjum tíma. Áhrif á botndýralíf yrðu talsvert neikvæð undir kvíum en afturkræf og óveruleg í nágrenni eldissvæða ef mótvægisaðgerða yrði gætt. Áhrif á villta laxastofna voru sögð umfram það sem rúmast innan áhættumats Hafrannsóknarstofnunar um sameiginlegt 15.000 tonna hámarkseldi frjórra laxa í Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að umsótt magn var lækkað og því eru væntanleg áhrif á villta laxastofna nú innan gefinna marka. Umhverfisstofnun taldi einnig mikilvægt að athuguð yrðu áhrif framleiðsluaukningarinnar á fugla í CR hættuflokki á nýjum válista NÍ (2017). Þá yrðu mögulega talsvert neikvæð áhrif á sjávarspendýr. Auk þess var bent á áhrif á ásýnd.

Í starfsleyfistillögunni er kveðið á um að vöktunaráætlun verði samkvæmt staðlinum ÍST ISO 12878, hún miðist við vöktun á losun mengunarefna og vistfræðilegar afleiðingar hennar, upplýsingaöflun vegna burðarþolsmats Hafrannsóknastofnunar og taki til vöktunar á áhrifum fiskeldisins á fuglalíf og sjávarspendýr í firðinum.

Tillagan verður ásamt umsókn rekstraraðila og önnur umsóknargögnum eru auglýst opinberlega á vefsíðu Umhverfisstofnunar. Á auglýsingartíma frá 29. ágúst til 27. september 2019 gefst öllum tækifæri til að koma með athugasemdir á þeim tíma áður en ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins verður tekin.

Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 27. september 2019.

Tengd skjöl