Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Notendaleyfi fyrir plöntuverndarvörum

Hvað eru plöntuverndarvörur?

Plöntuverndarvörur eru notaðar í landbúnaði og garðyrkju við ræktun skrautjurta, matjurta, ávaxta, korns og fleiri nytjaplantna til þess að koma í veg fyrir eða draga úr skaða af völdum sveppa, illgresis, skordýra og annarra meindýra eða til að þess að stýra vexti þeirra.

Samkvæmt gildandi reglum um plöntuverndarvörur er þeim skipað í þessa tvo flokka;

  • vörur sem ætlaðar eru til almennrar notkunar og allur almenningur getur keypt og notað.
  • notendaleyfisskyldar vörur þar sem notendaleyfi þarf til að kaupa og nota.

Notendaleyfi

Einstaklingar sem nota notendaleyfisskyldar plöntuverndarvörur vegna starfa sinna í landbúnaði og garðyrkju, þ.m.t. garðaúðun, skulu sækja um notendaleyfi fyrir plöntuverndarvörum til Umhverfisstofnunar.

Hér má finna lista yfir einstaklinga sem eru með notendaleyfi í gildi.

Skilyrði fyrir veitingu notendaleyfis eru eftirfarandi: 

  • Umsækjandi skal hafa lokið námi eða námskeiði þar sem fjallað er um meðferð plöntuverndarvara, svo og um lög og reglur sem á því sviði gilda. Umsækjandi skal hafa staðist próf sem sýnir fram á þekkingu hans,
  • Umsækjandi skal hafa yfir að ráða aðstöðu og búnaði sem Vinnueftirlit ríkisins hefur viðurkennt og er nauðsynlegur til þess að tryggja örugga og rétta meðferð á þeim vörum sem sótt er um notendaleyfi fyrir,
  • Umsækjandi skal vera eldri en 18 ára.

Notendaleyfi skal gefið út á einstakling og leyfishafi skal ávallt hafa notendaleyfiskírteini meðferðis kaup og alla meðferð á þeim vörum sem leyfið nær til.

Notendaleyfi skulu gefin út til átta ára, en framlengja má notendaleyfi í allt að tvö ár. Heimilt er að endurnýja notendaleyfi til átta ára í senn. 

Skilyrði fyrir endurnýjun notendaleyfis eru:

  • Frá 1. janúar 2022 skal umsækjandi hafa lokið námi eða námskeiði, þar sem fjallað er um notkun plöntuverndarvara, svo og um lög og reglur sem á því sviði gilda. Umsækjandi skal hafa staðist próf sem sýnir fram á viðhald þekkingar hans. 
  • Skoðun Vinnueftirlits ríkisins á aðstöðu og búnaði umsækjanda.

Reglulega eru haldin námskeið um meðferð plöntuverndarvara, sem ætluð eru þeim sem vilja verða sér úti um notendaleyfi fyrir plöntuverndarvörum. Landbúnaðarháskóli Íslands sér um að halda námskeiðin, nánari upplýsingar má finna á heimasíðu skólans: www.lbhi.is/endurmenntun.

Umsóknir

Meðferð plöntuverndarvara

Plöntuverndarvörur ná yfir fjölbreyttan hóp efnavara eins og t.d. illgresiseyða, skordýraeyða, sveppaeyða og gilda um þau strangar reglur. Um plöntuverndarvörur og meðferð þeirra gildir reglugerð nr. 677/2021 þar sem meginmarkmiðið er að vernda menn og umhverfi fyrir hugsanlegri hættu sem stafar af meðferð plöntuverndarvara og tryggja að þeir sem koma að markaðssetningu, meðferð og notkun plöntuverndarvara hafi aflað sér nægilegrar þekkingar á öruggri meðferð þeirra.

Í reglugerðinni um meðferð plöntuverndarvara og útrýmingarefna má finna ákvæði er varðar:

  • kaup og móttöku, notendaleyfi, ábyrgðaraðila fyrir markaðssetningu
  • úðun garða í atvinnuskyni
  • meðferð, varðveislu, flutning og förgun
  • innihald og gerð áætlunar um notkun
  • eftirlit og öryggiskröfur vegna búnaðar sem er notaður við dreifingu
  • bann við og takmörkun á notkun á einstökum landsvæðum
  • bann við dreifingu úr loftförum

Með reglugerðinni um meðferð plöntuverndarvara og útrýmingarefna er innleidd í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/128/EB frá 21. október 2009 um aðgerðaramma Bandalagsins til að ná fram sjálfbærri notkun varnarefna. Hér má kynna sér texta tilskipunar 2009/128/EB í heild sinni.