Markaðseftirlit með sæfivörum með áherslu á flokkun og merkingu

1. Inngangur

Markmið efnalaga nr. 61/2013 er að tryggja að meðferð á efnum og efnablöndum valdi hvorki tjóni á heilsu manna né umhverfi, tryggja frjálst flæði á vörum á innri markaði ESB og koma í veg fyrir ólöglega markaðssetningu efnavara. Eitt af hlutverkum Umhverfisstofnunar samkvæmt efnalögum er að hafa eftirlit með markaðssetningu efna og efnablanda sem falla undir lögin.

Sæfivörur er stór hópur efnavara, sem innihalda eitt eða fleiri virk efni sem ætlað er að eyða hættulegum lífverum, bægja þeim frá eða gera þær skaðlausar með efna- eða líffræðilegum aðferðum. Sæfivörur skiptast í fjóra aðalflokka; sótthreinsiefni, rotvarnarefni, varnir gegn meindýrum og aðrar sæfivörur, sem skiptast síðan niður í samtals 22 vöruflokka.

Í þessu verkefni var farið í eftirlit með sæfivörum á markaði, sbr. hlutverk Umhverfisstofnunar með framkvæmd efnalaga og reglugerð nr. 878/2014 um sæfivörur. Undir umfang verkefnisins féllu allar sæfivörur sem tilheyra vöruflokkum 7 – rotvarnarefni fyrir yfirborðsfilmu, 8 – viðarvarnarefni, 14 – nagdýraeitur, 18 – skordýraeitur, mítlasæfar og vörur til að verjast öðrum liðdýrum og 21 – gróðurhindrandi vörur. Skoðað var hvort að vörurnar uppfylltu skilyrði um markaðsleyfi og hvort merkingar varanna væru í samræmi við gildandi reglur.

2. Tilgangur og markmið

Samkvæmt efnalögum er Umhverfisstofnun falið að hafa eftirlit með markaðssetningu sæfivara. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gert áætlun um áhættumat virkra efna til notkunar í sæfivörum. Áhættumati allra virkra efna á að vera lokið í árslok árið 2024. Í kjölfar áhættumats er virkt efni annað hvort leyft til notkunar í sæfivörur eða bannað. Ef sæfivara inniheldur aðeins virk efni sem hafa verið samþykkt í áhættumati þarf hún markaðsleyfi á Íslandi svo að hún megi vera á markaði. Margar vörur eru nú þegar með markaðsleyfi og enn fleiri munu þurfa markaðsleyfi á komandi árum.

Með hliðsjón að ofangreindu voru sett fram eftirfarandi markmið með eftirlitinu:

  • Að skoða hvort krafa um markaðsleyfi sé uppfyllt, sbr. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 528/2012 (BPR), sem innleidd er í íslenskan rétt með reglugerð nr. 878/2014.
  • Að skoða hvort vara með markaðsleyfi uppfylli kröfur um flokkun, pökkun og merkingu, sbr. 69. gr. reglugerðar (ESB) nr. 528/2012 (BPR), sem innleidd er í íslenskan rétt með reglugerð nr. 878/2014.
  • Að skoða hvort vara innihaldi, skv. innihaldslýsingu, bönnuð virk efni, sbr. 1. gr. reglugerðar 878/2014 ásamt breytingum.
  • Að skoða hvort kröfur um merkingu og umbúðir séu uppfylltar, sbr. reglugerð (EB) nr. 1272/2008 (CLP) sem innleidd er í íslenskan rétt með reglugerð nr. 415/2014.

3. Framkvæmd

Fyrri hluti verkefnisins fór fram árið 2018 þar sem farið var í eftirlit til sex fyrirtækja og skoðaðar samtals 63 vörur. Lesa má samantekt um fyrri hluta verkefnisins inni á vefsíðu Umhverfisstofnunar. Í þessum seinni hluta verkefnisins fóru eftirlitsmenn Umhverfisstofnunar í eftirlit í fimm verslanir, sem bjóða sæfivörur til sölu og voru niðurstöður kynntar birgjum varanna með eftirlitsskýrslu. Vörurnar sem teknar voru fyrir í eftirlitsferðunum náðu til sex birgja, sem sjá má í töflu 1 hér að neðan ásamt starfsemi skv. vef ríkisskattstjóra og eftirlitsstað. Eftirlitsferðirnar fóru fram á tímabilinu 21. apríl til 3. desember 2021. Við komu á staðinn var fulltrúa verslunarinnar afhend tilkynning um eftirlitið þar sem verkefninu og markmiðum þess er lýst.

Tafla 1: Birgjar þeirra vara sem teknar voru fyrir í eftirlitsverkefninu, starfsemi og eftirlitsstaður.
Birgir Starfsemi Eftirlitsstaður
Húsasmiðjan ehf. Smásala á járn- og byggingarvöru í sérverslunum Húsasmiðjan ehf.
Skútuvogi 16
104 Reykjavík
Byko ehf. Smásala á járn- og byggingarvöru í sérverslunum Byko ehf. Breiddinni
Skemmuvegi 4
200 Kópavogi
Halldór Jónsson ehf. Heildverslun með ilmvötn og snyrtivörur Byko ehf. Breiddinni
Skemmuvegi 4
200 Kópavogi
Bauhaus slhf. Smásala á járn- og byggingavöru í sérverslunum Bauhaus slhf.
Lambhagavegi 2-4
113 Reykjavík
Múrbúðin ehf. Smásala á járn- og byggingavöru í sérverslunum Múrbúðin ehf.
Klettháls 7
110 Reykjavík
Dan-Inn ehf. Heildverslun með timbur, byggingaefni og hreinlætistæki Dan-Inn ehf.
Skútuvogi 13a
104 Reykjavík

 

4. Niðurstöður

Samtals voru skoðaðar 55 sæfivörur úr öllum fimm verslununum. Í kjölfar skoðunar gerði Umhverfisstofnun kröfur um úrbætur við 41 vöru vegna frávika frá einstaka ákvæðum í þeim lögum og reglugerðum sem gilda um markaðssetningu sæfivara og er tíðni frávika því 74,5%.

Af vörunum uppfylltu tvær þeirra ekki skilyrði um markaðsleyfi, sbr. 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 528/2012. Við nánari skoðun kom í ljós að önnur varan var með fullyrðingu á vörunni sem gerði það að verkum að hún var flokkuð í rangan vöruflokk. Birgðir vörunnar kláruðust áður en frestur til úrbóta rann út sem var staðfest með skjáskoti af birgðastöðu. Von er á nýjum birgðum vorið 2022 með uppfærðum merkingum. Markaðssetning hinnar vörunnar var stöðvuð tímabundið og gildir þar til varan hefur fengið markaðsleyfi fyrir íslenskan markað.

Við 39 vörur voru gerð frávik vegna merkinga, ýmist frá einni eða fleiri greinum Evrópureglugerðar nr. 1272/2008 (CLP). Flest frávikin voru vegna hættusetninga, varnaðarsetninga og viðvörunarorðs á íslensku á umbúðum, sem vantaði alfarið eða voru ekki í samræmi við öryggisblað eða staðlaðar setningar. Einnig var algengt frávik að það vantaði upplýsingar um birgi vörunnar á umbúðum, þ.e. nafn, heimilisfang eða símanúmer. Skiptingu frávika vegna ófullnægjandi merkinga eftir einstaka greinum CLP reglugerðarinnar má sjá á mynd 1. Nánar má lesa um niðurstöður eftirlitsins í eftirlitsskýrslum, sem finna má inni á vefsíðu Umhverfisstofnunar.

 

Mynd 1: Skipting frávika vegna ófullnægjandi merkinga eftir einstökum greinum CLP reglugerðar.

Umhverfisstofnun óskaði eftir afriti af uppfærðum merkimiðum fyrir 36 vörur ásamt staðfestingu á að búið væri að bæta úr fráviki vegna áþreifanlegrar viðvörunar á tveimur vörum og vegna úreltra hættumerkja á tveimur vörum. Fyrirtækin hafa öll brugðist við og hafa úrbætur verið staðfestar og eftirlitsmálum lokað hjá fimm þeirra, þ.e. Húsasmiðjunni ehf., Halldóri Jónssyni ehf., Múrbúðinni ehf., Byko ehf. og Bauhaus slhf. fyrir samtals 39 vörur. Vegna krafna um úrbætur sem Umhverfisstofnun gerði við vörur hjá Dan-Inn ehf. hefur stofnuninni ekki borist fullnægjandi úrbætur fyrir eina vöru. Dan-Inn ehf. hefur fengið viðbótarfrest til 1. apríl nk. til að staðfesta úrbætur.