Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Hárlitir á markaði, merkingar og innihaldsefni

Tilgangur og markmið:

  • Að skoða umbúðir og fylgiseðla hárlita og innihaldsefni þeirra til að athuga hvort hárlitir á markaði uppfylli kröfur um merkingar skv. reglugerð nr. 577/2013 sem innleiddi reglugerð (EB) nr. 1223/2009.
  • Að fræða innflytjendur hárlita og fulltrúa verslana með hárliti um reglugerðir sem gilda um snyrtivörur með áherslu á kröfur um merkingar, þar á meðal notkunarskilyrði og varnarorð, ásamt varúðarmerki, vegna ákveðinna innihaldsefna, hvaða efni geta verið ofnæmisvaldandi og skilyrði gilda um þau.
  • Að auka neytendavernd með því að stuðla að réttum merkingum hárlita og því öruggari hárlitum á markaði.

Framkvæmd og helstu niðurstöður:

Útbúinn var listi yfir innflutningsfyrirtæki hárlita út frá upplýsingum frá Tollstjóra fyrir árið 2013 og yfir verslanir sem taldar eru hafa mesta hlutdeild á markaði í sölu hárlita. Um er að ræða eftirtalin 12 innflutningsfyrirtæki og sjö verslanir. Farið var í eftirlit til þeirra og stóð það yfir á tímabilinu 19. mars til 27. maí 2014.

Innflutningsfyrirtæki Verslanir
Blóm í eggi ehf. Bónus, Holtagörðum
Halldór Jónsson ehf. Hagkaup, Holtagörðum
Hár ehf. Heilsuhúsið, Lágmúla
Ison ehf. Krónan, Lindum
Kaupsel hf. Lyf og heilsa, Austurveri
Kostur ehf. Lyfja, Lágmúla
Megastore ehf. Nettó, Þönglabakka
Regalo ehf.
S. Gunnbjörnsson ehf.
Snyrta ehf.
Vaxa ehf.
Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf.

Algengustu frávikin eru talin upp hér á eftir og voru gerðar kröfur um úrbætur til innflutningsaðila:

  • Viðvörunarmerkingar á íslensku vantaði sbr. 3 gr. reglugerðar nr. 577/2013. Um eru að ræða setningar um notkunarskilyrði og varnarorð, ásamt varúðarmerki skv. i dálki III. viðauka reglugerðar (EB) nr. 1223/2009. Algengast var að þessar merkingar vantaði á hárliti sem seldir eru fagaðilum og þeim sem fluttir eru inn frá landi utan EES svæðisins.
  • Skortur á upplýsingum um ábyrgðaraðila hárlita og um upprunaland ef hárlitur hefur verið fluttur inn frá landi utan EES svæðisins sbr. 4. og 19 gr. reglugerðar (EB) nr. 1223/2009.
Viðbrögð fyrirtækja við niðurstöðu eftirlits voru í langflestum tilfellum jákvæð og samskipti og samvinna við Umhverfisstofnun í nær öllum tilfellum góð. Öll fyrirtækin leituðu til sérfræðings stofnunarinnar til að fá nánari upplýsingar um kröfur sem gilda um hárliti og leiðir til úrbóta vegna frávika.

Þegar fyrirtækin höfðu sýnt fram á úrbætur var þeim sent bréf um málslok.

Samantektarskýrsla um eftirlit með hárlitum vorið 2014